06.03.1986
Sameinað þing: 56. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 2995 í B-deild Alþingistíðinda. (2515)

11. mál, mat heimilisstarfa til starfsreynslu

Frsm. (Ólafur Þ. Þórðarson):

Herra forseti. Ég óskaði eftir því við þingvörð að umsagnirnar yrðu sóttar út í Þórshamar þar sem m.a. er hugsanlegt að við upplestur sumra þeirra yrði mönnum ljósara að ágreiningsatriði hljóta að verða ærin um till. sem þessa.

Verði till. samþykkt óbreytt hafna menn tveimur aðalröksemdunum sem notaðar hafa verið fyrir starfsaldurshækkun. Önnur rökin eru þau að það eitt að stunda ákveðið starf skapi sérstaka leikni í viðkomandi starfi. Dæmi: Að stunda knattspyrnu mjög lengi getur skapað leikni í knattspyrnu.

Hin rökin eru þau að starfi maður lengi hjá sama fyrirtækinu skapi hann með sinni þekkingu verðmæti sem fyrirtækið greiði fyrir. Dæmi: Sumir menn hafa vegna langrar starfsreynslu hjá sama fyrirtæki kynnst störfum þess út og inn. Ef þeir eru spurðir um eitthvert mál geta þeir leyst úr því. Tollasérfræðingar hjá fjmrn. gætu verið dæmi um þetta.

Þetta tvennt yrði sett til hliðar og aldurinn einn yrði látinn ráða, þ.e. þeir þegnar, sem eru búnir að ná ákveðnum aldri, eiga rétt á starfsaldurshækkunum. Það er það eina sem stæði eftir. Við mundum sem sagt jafna 100% á milli þeirra kvenna sem starfa hjá ríkinu og ekki hafa gifst og þeirra sem hafa gifst, þ.e. ef þær hafa unnið hjá opinberum aðilum. Þarna mundum við framkvæma að jöfnu.

Það er vissulega rétt að sú skoðun er til staðar hjá mjög mörgum, m.a. hjá þeim sem hér stendur, að mjög margt í störfum geti yfirfærst á önnur störf og þannig sé rétt að meta það til starfsreynslu. Það er einmitt það sem aðilar vinnumarkaðarins eru að gera. En ég hygg aftur á móti að ef bæði ASÍ og atvinnurekendur eru eindregið þeirrar skoðunar að þeir vilji fjalla um þessi mál í sínum samningum hljóti menn að spyrja sig þeirrar spurningar: Eru þm. fyrir opinbera starfsmenn eingöngu eða fyrir þjóðina alla?

Vökulögin tóku á öllum sjómönnum sem unnu á togaraflotanum, ekki aðeins þeim sem unnu hjá Bæjarútgerð Reykjavíkur eða Kveldúlfi. Ég man nú ekki hvort Bæjarútgerðin var til þá. Er mönnum ekki ljóst að vökulögin voru á sínum tíma ákvarðanataka um það að skipstjórar yrðu sviptir þeim rétti að geta sagt mönnum að standa á dekki jafn lengi og skipstjórum sýndist? Það stæðist ekki gagnvart meðferð á föngum að hafa slíkar heimildir.

Er það rökrétt að við tökum ákvörðun um það hér á Alþingi - ekki samkvæmt skoðun heldur eru hrein fyrirmæli í till. - að þær konur, sem vinna hjá ríkinu eða bæjarfélögum, skuli hafa allt annan rétt en þær sem vinna á hinum frjálsa markaði? Um 47% þegna á Vestfjörðum vinna við sjávarútveg og fiskveiðar. Er eðlilegt að ákveðið sé allt annað fyrirkomulag gagnvart þeim konum, sem vinna í fiskvinnslu, en þeim konum sem vinna hjá opinberum aðilum? Er það réttlætið sem Kvennalistinn berst fyrir? Er sjóndeildarhringurinn ekki stærri? Mér virðist nefnilega að sumir þeir sem hér eru inni ættu að leggja höfuðkapp á að komast í Garðastrætið og sumir sem eru í Garðastrætinu ættu að leggja höfuðkapp á að komast hér inn í þingsali. Þannig sýnist mér málin standa varðandi þessa umræðu.

Ég hef ákveðnar skoðanir á mjög mörgum málum. Það breytir ekki þeirri staðreynd að hvort sem okkur líkar það betur eða verr og hvort sem við teljum að valdið sé algerlega hér innan veggjanna, þá hef ég ekki treyst mér til þess t.d. gagnvart nýgerðum kjarasamningum að segja sem svo: „Af því að ég er ekki sammála einhverju atriði þar inni vil ég stöðva það að heildarlausnin fáist.“ Ég hef ekki treyst mér til þess að beita því valdi sem ég hef á þann hátt.

Ég studdi till. um fæðingarorlof og var flm. að slíku. Það var ekkert tekið á því máli á mismunandi hátt eftir því hvort konur voru starfsmenn hjá ríkinu eða á hinum frjálsa markaði. Það var engin mismunun höfð hvað þau atriði snerti.

Það skal vissulega viðurkennt að það er og verður nokkuð vandratað að meta það og vafalaust misjafnar skoðanir á því hvar landamærin eigi að vera, hvað við eigum að ákveða hér á Alþingi varðandi réttindamál og hvað eigi að vera ákvarðað í frjálsum samningum. Kannske er það eitt af því sem þetta Alþingi okkar Íslendinga hefur gert rangt í þeim efnum, að líða framkvæmdavaldinu undir sumum kringumstæðum ákvarðanatöku um rétt opinberra starfsmanna langt fram yfir það sem aðrir starfsmenn í þessu þjóðfélagi hafa. Ég vil nefna verðtryggða lífeyrissjóði sem dæmi. Ætli það læðist ekki sú hugsun að einhverjum úti í samfélaginu að þm. hafi verið að hugsa um sjálfa sig þegar þeir létu slíkt átölulaust, en ætluðu svo verkamönnum allt annan rétt í samfélaginu?

Mér þótti athyglisvert að hv. 1. flm. talaði um það fram og til baka að menn væru að takast á um skoðanir. Það er ekki það sem er á dagskrá. Á dagskrá er að takast á um hvort veita eigi fjmrh. ákveðin fyrirmæli, hrein fyrirmæli, og fyrirmælin hljóða upp á að eftirleiðis skuli aldur manna settur númer eitt, tvö og þrjú þegar ákveðið er að raða mönnum í launaflokka eftir starfsaldri. Hin tvö atriðin, sem ég gat um hér áðan, færu út. Ég tel að einhvers staðar þarna á milli, á milli þess að meta heimilisstörfin ekkert, eins og var, og að meta þau að fullu, alveg án tillits til þess inn í hvaða störf menn eru að fara, hlyti niðurstaðan að verða. Ég játa fúslega að ég hef ekki treyst mér til að koma orðum að því með brtt. hvar ég nákvæmlega vildi að þetta væri. Ég hef ekki treyst mér til þess. Það má hver sem treystir sér til þess að segja nákvæmlega til um það hvernig á að meta þetta að sjálfsögðu leysa það mál og leggja til brtt.

Mér finnst líka athyglisvert að hv. 3. þm. Reykn. tók í sinni ræðu undir þessa staðreynd. Honum var ljóst að það er bil á milli þess að meta heimilisstörfin ekkert eða að ekkert skyldi metið í starfsaldurshækkunum annað en aldur manna. Það hlýtur að vera eitthvert bil þarna á milli.

Ég hygg að það hljóti að vera eitt af meginatriðum lagasetningar á Alþingi að hún taki nokkuð jafnt til allra aðila innan sömu starfsstéttar ef menn ætla að snúa sér að því að hafa áhrif á kjör viðkomandi stéttar eða hóps. Það má alltaf deila um hvað sé eðlileg þingræðisleg afgreiðsla. Ég hefði talið að ákvarðanataka um að meta starfsaldur til launa ætti að vera á þann veg að það gildi jafnt, hvort sem menn taka að sér störf hjá hinu opinbera eða á hinum frjálsa markaði. Það hefði mér sýnst jafnrétti í þessu máli.

Ég vil leyfa mér, með leyfi forseta, að lesa upp vissar umsagnir sem hafa haft áhrif á afstöðu nefndarinnar. Með leyfi forseta vil ég fá að lesa hér upp bréf frá Alþýðusambandi Íslands:

„Miðstjórn ASÍ hefur fengið til umsagnar till. til þál. um að meta heimilisstörf til starfsreynslu, 62. mál. Miðstjórnin telur ástæðulaust að Alþýðusamband Íslands hafi í þessu sambandi afskipti af samningagerð BSRB og ríkisins.

Virðingarfyllst, f.h. Alþýðusambands Íslands, Ásmundur Stefánsson.“

Það hefði varla verið hægt að hafa þetta styttra. Það er sem sagt gert á mjög einfaldan hátt að rétta pakkann til baka án þess að hafa skoðun. (HG: Er þetta andstaða?) Hv. 5. þm. Austurl. talaði mikið um skoðun áðan. Ég vona að hann hafi ekki gleymt því. Ég var aðeins að vekja athygli á því eina atriði að pakkinn hefði verið réttur áfram án þess að hafa skoðun.

Með leyfi forseta vil ég lesa upp hvað Verkamannasamband Íslands segir um þetta atriði:

„Háttvirt þingnefnd hefur sent Verkamannasambandi Íslands til umsagnar till. til þál. um að meta heimilisstörf til starfsreynslu, 62. mál. Flm. Sigríður Dúna Kristmundsdóttir o.fl. Verkamannasamband Íslands er samþykkt því meginefni sem fram kemur í till. Telur það vera bæði sanngirnis- og réttlætismál. Á till. er hins vegar sá meginágalli að hún fjallar einungis um réttindi þeirra sem vinna samkvæmt samningum BSRB. VMSÍ er þeirrar skoðunar að öll sanngirni mæli með því að hér verði um almenn réttindi að ræða og leggur þess vegna til að till. verði samþykkt með þess háttar breytingu.“

Það fer sem sagt ekki á milli mála að hjá þessum aðilum, sem sitja þar í öndvegi, er skilningur á því að þeir eigi að beita sér fyrir þessu máli í kjarasamningum og þeir vilja að þetta verði meginregla í þessum efnum. Þarna er skoðun. Hitt er svo spurning, hvort Alþingi Íslendinga, í þeirri stöðu sem menn hafa verið hér til að reyna að tryggja frið í þessu landi, hafi talið sig vera í þeirri stöðu að það gæti sent fyrirmæli niður í Garðastræti.

Með leyfi forseta vil ég lesa upp bréf frá Vinnuveitendasambandi Íslands:

„Vinnuveitendasamband Íslands hefur með bréfi dags. 14. febrúar s.l. borist til umsagnar till. til þál. um að meta heimilisstörf til starfsreynslu, 62. mál þingsins, og vill af því tilefni láta eftirfarandi koma fram:

Þáltill. sú er hér um ræðir snýr að sönnu ekki að almennum vinnumarkaði heldur er henni ætlað að takmarkast við samningasvið fjmrh. og samtaka opinberra starfsmanna. Allt að einu sér Vinnuveitendasambandið sig knúið til að koma á framfæri við þingnefndina og þó einkum flm. alkunnum staðreyndum um uppbyggingu launakerfa og áhrif starfsaldurs og/eða starfsreynslu á skipun manna í launaflokka.

Til grundvallar launahækkunum eftir starfsaldri liggur einkum tvennt. Annars vegar er um að tefla þær almennu líkur sem fyrir því eru að starfsmaður sem lengi hefur starfað hjá sama fyrirtæki hafi öðlast meiri færni og skili betra verki en sá sem hefur þar störf í fyrsta sinn. Í annan stað þykir eðlilegt að láta starfsmenn njóta þess í nokkru ef þeir starfa í sama fyrirtæki um lengri tíma. Til þessa liggja ýmis rök, en ekki síst þau að þjálfunarkostnaður nýrra starfsmanna er umtalsverður þó misjafnt sé það eftir greinum. Samkvæmt kjarasamningum á almennum vinnumarkaði er greitt sérstaklega fyrir starfsreynslu í sömu starfsgrein þó hjá fleirum en einum atvinnurekanda sé. Slík starfsreynsla getur veitt mönnum rétt til launa samkvæmt fimm ára aldursþrepi eða sem svarar 10% álagi á byrjunarlaun. Starfsaldurshækkanir samkvæmt almennum kjarasamningum geta svarað til allt að 20% álags á byrjunarlaun þegar ófaglært verkafólk á í hlut. Það sem hér ber á milli er alfarið bundið starfi í sama fyrirtæki.

Þó ekki sé það almennt finnast þess dæmi að ákveðið sé í kjarasamningum að taka skuli tillit til starfsreynslu í heimilisstörfum við röðun í launaflokka. Það mun þó hvergi vera með þeim hætti sem tillgr. gengur út á, þ.e. að hvert ár utan vinnumarkaðarins jafngildi ári í starfi, enda væri slíkt fráleit skipan mála með vísan til þess sem áður er sagt um eðli starfsaldurshækkana.

Jafnframt því að Vinnuveitendasamband Íslands mælir mjög eindregið gegn samþykkt þessarar þáltill. áréttar það að efni tillgr. snýr að veigamiklum þætti kjarasamninga sem eðlilegt er að samtök launþega og atvinnurekenda útkljái í frjálsum kjarasamningum.“

Hér eru eftir nokkrar umsagnir sem koma frá sveitarfélögum og landshlutasamtökum. Þar er með breytilegum hætti afstaða til þessa máls. Ég sé raunverulega ekki að þar komi neitt nýtt fram sem ekki hefur áður komið fram í þeim gögnum sem ég hef lesið hér upp.

Mér finnst það hljóti að vera eðlilegt að Alþingi Íslendinga álykti um mjög margt sem vissulega er réttlætismál. Mér finnst eðlilegt undir þeim kringumstæðum að þannig sé þó staðið að verki, eins og Verkamannasamband Íslands vekur athygli á, að það nái þá jafnt til allra þegna. Mér finnst aftur á móti ákaflega erfitt að standa þannig að störfum á Alþingi, þegar vinnudeilur eru uppi og vaxandi harka virðist vera að færast í mál, að þá sé ákveðið að gefa fyrirmæli til samningamanna sem magna þann ófriðareld sem þar er. Ég hef ekki treyst mér til að mæla með slíkum vinnubrögðum. Mér finnst jafnframt á vissan hátt dálítið hlálegt, þegar búið er að semja á hinum frjálsa markaði um þessi mál og samningar einnig komnir í þann farveg að opinberir aðilar hljóta mjög að taka mið af því sem þar hefur verið gert, að gefin séu sérstök fyrirmæli til fjmrh. um að gera betur við opinbera starfsmenn í ákveðnum tilvikum en hinn almenni launamarkaður hefur gert. Ég sé ekki rökrænt samhengi í því. Ég hygg að flestir þeir sem setjast niður og hugleiða þessi mál fram og til baka muni komast að þeirri niðurstöðu að einhvers staðar á milli þess að heimilisstörf séu metin að fullu og að þau séu einskis metin hljóti mörkin að liggja nema það sé skoðun Alþingis að þær forsendur sem áður hafi verið lagðar til starfsaldurshækkana séu vitleysa og við viljum koma því alveg skýrt og skilmerkilega á framfæri að svo sé.

Það var dálítið rætt um þinglega meðferð mála og óþinglega meðferð mála. Mér er ekki að fullu ljóst hvað hv. flm., 11. þm. Reykv., á við þegar hann telur að ákvörðun þm. um að vísa máli frá með rökstuddri dagskrá sé óþingleg meðferð. Ég hef litið svo á að hv. þm. hafi starfað það lengi á Alþingi að það fari ekki milli mála að hún viti að þetta er eitt af því sem nefndir þingsins leggja til um meðferð mála. Mér er ekki ljóst að hv. 11. þm. Reykv. hafi nema sérstaka starfsreynslu í því að úrskurða hvað sé þingleg meðferð í þinginu. Það er greinilegt að hún telur fráleitt að þm. hafi á því aðra skoðun en þá sem hún telur hina einu réttu. Auðvitað er alltaf hægt að gera þær kröfur til nefnda að þær skuli breyta þáltill. og leggja þær fram á þann hátt sem nefndin telji eða meiri hl. hennar að sé rétt eða eðlilegt. Undir mörgum kringumstæðum gjörbreytist till. og hörðustu andstæðingarnir við þá till. gætu verið flm. hinnar upphaflegu. Og mér er spurn: Er eðlilegt að ávallt sé sú afstaða tekin? Ég efa það. Ég tel að í vissum málum, eins og t.d. því sem hér er verið að ræða um, hljóti flm. að hafa hugleitt í upphafi hvort þeir væru stuðningsmenn þess að þessi fyrirmæli færu út í lagaformi og næðu til alls atvinnureksturs í landinu eða hvort fyrirmælin ættu aðeins að ná til opinberra starfsmanna. Ég lít svo á að þeir hafi tekið afstöðu til þess áður en þeir fluttu till.

Mér hefur orðið hugsað til þess, eftir að samningarnir í Garðastræti komu í ljós og Alþingi afgreiddi laga breytingar sem voru nauðsynlegir fylgifiskar með samningunum, að þingið hljóti í reynd að hafa viðurkennt það, sem allir hafa vitað, að Alþingi Íslendinga „dóminerar“ ekki eins og einhver einræðisherra yfir þessu landi. Það þarf svo sannarlega að laga sig að mörgum ákvörðunum sem fjöldasamtök í landinu taka. Ég tel það ekki neina minnkun fyrir þingið þó að það sitji frammi fyrir þessum staðreyndum. Ég tel að það sé kannske í reynd komið nær hinu íslenska samfélagi með því að færa umræðuna um ýmis stór ákvarðanamál út til fjölmennra valdahagsmunaaðila í samfélaginu og reyna að komast að sameiginlegri niðurstöðu. Ég hef hlustað á það hér að menn hafa talað með fyrirlitningu um þá menn sem hafi hlýtt fyrirmælum úr Garðastræti og jafnframt eru þeir óbeint að koma því á framfæri að það séu ljótu skræfurnar, það huglausa lið sem hlýði fyrirmælum úr Garðastræti, og undirstrika það til að koma því á framfæri við þjóðina að það séu hetjur á þingi líka sem hlýði engum fyrirmælum úr Garðastræti. Auðvitað er gott að menn standi fast á sínum skoðunum og komi þeim á framfæri, en hlýtur það ekki að vera ein af meginskyldum Alþingis Íslendinga að reyna að tryggja frið í þessu landi eða er það svo ómerkilegt að það sé aðeins þegar menn tala um kjarnorkusprengjur að menn vilja ræða um að það eigi að tryggja frið? Er staðan slík? Mér finnst að menn megi gjarnan komast dálítið nær samfélaginu og sleppa því að líta svo á að þeir séu hér í einhverjum fílabeinsturni.

Alþingi hlýtur á hverjum tíma að vera þátttakandi í sínu samfélagi til mótunar stefnu sem vonandi leiðir til farsældar fyrir þjóðina og tryggir þann frið að hægt sé að treysta því að efnahagslegt sjálfstæði þjóðarinnar haldi velli. Ég hef í það minnsta talið mig þurfa að standa frammi fyrir því að margar þær skoðanir sem ég hef á ýmsum málum, sem aðilar vinnumarkaðarins semja um í frjálsum samningum, eru allt aðrar en þeir hafa skrifað undir, en ég hef litið svo á að ég væri ekki í þeirri stöðu að ég gæti snúið því tafli við og breytt því. Ég gæti aftur á móti gert annað. Ég gæti reynt að vinna þeim skoðunum fylgi hjá þegnum þjóðfélagsins og þannig skapað víðtækari grundvöll fyrir samstöðu. Ég er ekki í nokkrum vafa um að flestir sem hér eru inni hafa orðið að meta hlutina á svipaðan hátt. Þess vegna vil ég undirstrika - og mælist til þess að flm. hártogi ekki: Það sem nefndin treystir sér ekki til að gera er að gefa fyrirmæli til fjmrh. eins og hér er lagt til. Það breytir engu um að nefndarmenn hafa sínar skoðanir á því hvernig þeir mundu leysa þessi mál stæðu þeir á þeim oddi að þeir tækju þátt í þeim samningum.