11.03.1986
Sameinað þing: 57. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3039 í B-deild Alþingistíðinda. (2597)

223. mál, staða lektors í íslenskum bókmenntum

Fyrirspyrjandi (Sigríður Dúna Kristmundsdóttir):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. menntmrh. svörin. Þau voru öllu skárri nú, enda undirbúin. En því miður standast forsendur þeirra ekki samkvæmt þeim úrskurði sem Jafnréttisráð kvað upp í þessu máli í gær. Ég vil hér nú, með leyfi forseta, lesa niðurstöðu Jafnréttisráðs:

„Jafnréttisráð er sammála um eftirfarandi niðurstöðu í málinu: Jafnréttisráð vill vekja athygli á þeirri skyldu, sem lögð er á herðar atvinnuveitenda, að taka sérstakt tillit til ákvæða laga nr. 65/1985 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla við stöðuveitingar.“

Síðan er vitnað í niðurstöðunni í 1., 2., 6. og 9. gr. jafnréttislaganna og því næst segir:

„Með bréfi Jafnréttisráðs, dags. 10. janúar 1986, var menntmrh. gefinn kostur á að gera grein fyrir setningu Matthíasar Viðars Sæmundssonar í lektorsstöðuna, m.a. að upplýsa hvað réði því að hann valdi þann kost að ganga fram hjá þeim umsækjanda sem dómnefnd heimspekideildar Háskóla Íslands taldi hæfastan og sem fékk yfirgnæfandi mesta fylgi í kosningu hjá deildarráði heimspekideildarinnar.

Í svarbréfi menntmrn., dags. 3. febrúar s.l., er náms og starfsferill Matthíasar Viðars Sæmundssonar rakinn, en ekki er vikið að því einu orði hvort og þá hvaða sérstökum hæfileikum Matthías Viðar sé búinn sem væntanlega hafa ráðið úrslitum um skipun hans í lektorsstöðuna.

Þar sem ekki verður af bréfi menntmrn. ráðið að Matthías Viðar hafi sérstaka hæfileika umfram Helgu Kress til þess að gegna þessu starfi og með hliðsjón af umsögn dómnefndar, sem telur Helgu vera hæfasta, og atkvæðagreiðslu heimspekideildar Háskóla Íslands, sem styður Helgu með yfirgnæfandi meiri hluta atkvæða, telur Jafnréttisráð ekkert fram komið í málinu sem réttlæti að fram hjá jafnhæfri konu var gengið við setningu í lektorsstöðu við heimspekideild Háskóla Íslands.

Þegar þetta er virt og höfð í huga sú aukna skylda sem á herðar atvinnuveitanda var lögð með gildistöku laga nr. 65/1985, um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, verður að líta svo á að með setningu Matthíasar Viðars Sæmundssonar í lektorsstöðu við heimspekideild Háskóla Íslands hafi verið brotið ákvæði 2. tölul. 5. gr. laga nr. 65/1985. Öðruvísi verður vart séð hvernig tilgangi og markmiðum laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla verði náð.“

Hæstv. menntmrh. hefur samkvæmt áliti ráðsins gerst brotlegur við nýsett jafnréttislög og við það hef ég engu að bæta öðru en því að ég vil ítreka það, sem ég hef hér ævinlega sagt, að jafnréttislög og yfirlýsingar um afnám mismununar gagnvart konum eru einskis virði þegar valdsmenn skortir víðsýni og vilja til að fara eftir þeim.