11.03.1986
Sameinað þing: 57. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3042 í B-deild Alþingistíðinda. (2603)

297. mál, húsnæðismál

Fyrirspyrjandi (Gunnar G. Schram):

Herra forseti. Ég hef á þskj. 544 borið fram fsp: til félmrh. í fimm liðum sem ég les hér ekki upp í heild. Þar er spurt um hver sé afstaða hans til tillagna Samtaka áhugamanna um úrbætur í húsnæðismálum sem þeir hafa með bréfi 5. mars sent ríkisstj, og alþm. Það er m.a. spurt.um hvort veittur verði sérstakur skattafsláttur vegna misgengis lána og launa á undanförnum árum, hvort lánum muni verða skuldbreytt til a.m.k. 15 ára, hvaða áform eru uppi um hækkun íbúðalána frá því sem nú er í kjölfar kjarasamninganna og hvort unnt verði að lækka vexti af húsnæðislánum frá því sem nú er.

Það er eðlilegt, herra forseti, að um þetta sé spurt hér á þingi vegna þess að þótt til standi ýmsar úrbætur í húsnæðismálum í kjölfar kjarasamninganna munu þær væntanlega höfða fyrst og fremst til framtíðarinnar. Eftir stendur þá spurningin um vanda þess stóra hóps sem lagt hefur út í húsbyggingar á síðustu fjórum eða fimm árum.

Árin 1981-1983 var um að ræða verulegt og alvarlegt misgengi milli vísitalna kauptaxta og lánskjara, eins og kunnugt er, vegna mikillar verðbólgu og rýrnandi kaupmáttar. Það, ásamt verulegri vaxtahækkun húsnæðis- og bankalána, olli því að greiðslubyrði lána óx svo að komið hefur til gífurlegra greiðsluerfiðleika hjá íbúðabyggjendum sem höfðu fengið lánafyrirgreiðslu á þessu tímabili. Afleiðingin er sú að þessar vikurnar og mánuðina stendur fjöldi ungs fólks frammi fyrir þeirri bláköldu staðreynd að það er að missa íbúðir sínar á nauðungaruppboðum. Og ekki nóg með það, heldur blasir einnig sú staðreynd við þessum íbúðaeigendum ýmsum hverjum að það fé sem þeir sjálfir hafa sparað og lagt til byggingar íbúðar sinnar er einfaldlega að hluta til glatað vegna þessa misgengis kaupsins og verðtryggðu lánanna sem tekin voru. Hér er því um verulegt vandamál að ræða.

En í þessu sambandi vil ég þó undirstrika að þrátt fyrir þetta hafa á síðustu árum orðið stórfelldar breytingar til hins betra í lánamálum húsbyggjenda. Ég nefni hér aðeins þrjú atriði:

Frá árinu 1982 hefur framlag ríkissjóðs til Byggingarsjóðs ríkisins rúmlega fimmfaldast miðað við fast verðlag. Aukningin er 451%. Og miðað við fast verðlag eru útlán á árinu 1986 rúmlega tvöfalt hærri upphæð en árið 1982.

Í öðru lagi var varið á síðasta ári 240 millj. kr. til þeirra sem áttu í sérstökum greiðsluerfiðleikum og nú hefur verið ákveðið að verja 500 millj. kr. til þessa sama markmiðs. Í þriðja lagi má nefna að öll ný lán voru hækkuð um 50% í ársbyrjun 1984 og lánshlutfallið hækkaði þar með úr 15% á staðalbúð í 30%.

Það er ástæða til að undirstrika að margt hefur verið vel gert í húsnæðismálunum og engin ríkisstj. hefur staðið þar eins vel á verðinum og sú sem nú situr eins og þessar staðreyndir sýna. En þrátt fyrir þetta er vandi þeirra mikill sem byggt hafa á síðustu árum og það er á honum sem verður að taka sérstaklega eins og Sigtúnshópurinn hefur svo rækilega bent á. Í því sambandi má sérstaklega undirstrika mikilvægi skattaafsláttar til leiðréttingar lánskjaramisgengisins, en þar held ég að sé um leið að ræða sem er allrar athygli verð og gæti einmitt reynst einhver raunhæfasta leiðin til úrbóta fyrir þann mikla fjölda manna sem hóf byggingu íbúðarhúsnæðis á þessum árum. Í öðru lagi að öllum verði gefinn kostur á skuldbreytingum lána í bönkum sem síðar eru greidd upp með lánum Húsnæðisstofnunar. Jafnframt vil ég í þessu sambandi undirstrika nauðsyn þess atriðis að allir þeir sem misst hafa íbúðir sínar á síðustu árum, og þeir eru allnokkrir, fái full lán Húsnæðisstofnunar eins og um fyrstu kaup væri að ræða.

Ég hef, herra forseti, í mjög stuttu máli gert grein fyrir þessari fsp. og mun hlýða með athygli á svör hæstv. félmrh.