11.03.1986
Sameinað þing: 57. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3059 í B-deild Alþingistíðinda. (2629)

314. mál, fjárhagsvandi Hitaveitu Akraness og Borgarfjarðar

Iðnrh. (Albert Guðmundsson):

Hæstv. forseti. Eins og fram kom hjá hv. þm. Valdimar Indriðasyni, 3. þm. Vesturl., er umgetinn vandi ekkert leyndarmál eða um að ræða óskýr vandamál. Þau eru skýr. Lausnin er aftur á móti ekki eins skýr. Það sem allir virðast mæna á til lausnar er ríkissjóður. Það er afskaplega auðvelt fyrir mig að standa upp og segja: „Ég get farið fram á peningaframlag úr ríkissjóði fyrir hönd iðnrn. og Hitaveitu Akraness og Borgarfjarðar“, og segja svo bara: „Ja, ríkisstjórnin þykist vera blönk. Fjmrh. vill ekki láta út peninga.“ Málið er bara ekki svona auðvelt og ég ætla mér ekki að velja þá leið út úr vanda, hvorki vanda þessarar hitaveitu né annarra fyrirtækja sem kunna að eiga í erfiðleikum.

Málið er það að hér er verið að reyna að finna leið. Lítið brot af lausninni er í sjónmáli í heimahéraði. Enn þá er þó nokkuð af húsum, heilt hverfi eftir því sem mér skilst, sem er hitað upp með rafmagni. Allmargir bæjarbúar hafa alls ekki enn þá tekið hitaveituna, en reiknað var með að allur bærinn fengi hitaveitu þegar gerð var áætlun um vatnssölu. Og mér skilst að vatnssöluáætlunin hafi ekki verið mjög örugg. Fyrirtækið er í vanda og hann á sér dýpri rætur en hér hefur komið fram í umræðunum. Það vill svo undarlega til að það er eins og það sé alveg sama hvort bandaríkjadollar hækkar eða bandaríkjadollar lækkar, það skal alltaf kosta vandræði fyrir þjóðfélagið.

Varðandi það sem hv. þm. sagði um Reykjavík vil ég taka fram að ég minnist þess ekki að Reykjavík hafi fengið neina aðstoð við byggingu Hitaveitu Reykjavíkur. Þetta er orðin gömul veita og upphaflegu fjárfestingar hennar eru löngu borgaðar. Þær eru afskrifaðar, elstu hitaveituframkvæmdirnar. En hitaveituframkvæmdir í Reykjavík eru árlega meiri en í bæjarfélögum eins og t.d. Akureyri eða jafnvel Keflavík. Þær eru meiri á ári, ekki bara viðhald og endurbygging heldur viðbót, og ríkinu hefur ekki borist nein sérstök ósk um aðstoð við Hitaveitu Reykjavíkur. Ég held að við verðum að láta hvert bæjarfélag í friði með sínar sveitarfélagsframkvæmdir en ekki nota það hvað vel gengur hjá einum sem átyllu til að gera kröfu um það heima fyrir að allt gangi eins vel þar. Þetta er svo einstaklingsbundið miðað við bæjarfélög eins og það getur orðið einstaklingsbundið hvernig hver og einn vinnur fyrir sér.

En hvað varðar það sem hv. 5. þm. Vesturl. sagði um að ekki kæmi nýtt hlutafé inn við stofnun nýs fyrirtækis, eins og ég gat um, þá er það ekki rétt. Ég gat um það að t.d. ef ríkið tæki yfir hluta af því sem eftir stæði þegar búið væri að meta eignir og skuldir er það ígildi nýs hlutafjár því að skuldir færast þá að hluta til yfir á ríkið. Það er nýtt hlutafé og það léttir á Hitaveitu Akraness og Borgarfjarðar eða þessu sameiginlega félagi. Það er líka nýtt ef af beinum viðskiptum þessarar „orkusamsteypu“ verður við Landsvirkjun, ólíkt því sem er t.d. um fyrirtæki eins og Sementsverksmiðjuna, sem verður að fara í gegnum Landsvirkjun, í gegnum RARIK, eða í gegnum Andakílsárvirkjun og Rafveitu Akraness, sem gerir það aftur að verkum að þegar verksmiðjur við hliðina á Sementsverksmiðjunni borga 6-7 mill fyrir kwst. greiðir Sementsverksmiðjan 64-67 mill. Það er ekkert réttlæti í þessu.

Hvað varðar síðustu spurninguna, hvort ríkisstj. sætti sig við minni lækkun en 7% hjá hitaveitum almennt, get ég engu svarað þar um. Ríkisstj. hefur ekki gefið nein fyrirmæli um lækkun. Það eru engin lög sem segja að hitaveitur skuli lækka, hvernig sem á stendur, um 7%. Það eru tilmæli vegna þess að hæstv. fjmrh. er að gera tilraun til þess að lækka verðbólguna. Hann er að gera tilraun til þess að sameina fólkið í landinu í því verki sem er erfitt og við vitum ölI hvað það þýðir. Og ef okkur tekst að lækka verðbólguna þá er það til hagsbóta fyrir Hitaveitu Akraness og Borgarfjarðar ekki síður en alla aðra í þjóðfélaginu.