11.03.1986
Sameinað þing: 57. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3065 í B-deild Alþingistíðinda. (2637)

293. mál, starf ríkissaksóknara

Landbrh. (Jón Helgason):

Herra forseti. Ég skil ekki það sem hv. fyrirspyrjandi sagði að ákærði hefði ekki tök á að verja sig vegna fjarveru saksóknara. Ákærði getur vissulega varið sig og flutt sín rök fyrir dómaranum sem á að fella úrskurð í ágreiningsatriðum. En vafalaust væri auðveldara fyrir dómara að hafa fulltrúa saksóknara við málflutning, þar sem dómara ber að upplýsa mál og skýra þau, gæta fyllsta hlutleysis og þess að hið sanna komi fram. Ábyrgð dómara er minni ef fulltrúar beggja aðila eru mættir. En varðandi það að ákærði geti ekki varið sig með rökum, þó að sá sem ákærir sé ekki viðstaddur, það get ég ekki skilið. Hann hlýtur að geta varið sig gagnvart dómaranum. Og dómari svarar ekki fyrir saksóknara nema að þessu marki sem er að upplýsa mál og benda á það sem getur haft áhrif á málflutning.

En það sem lá til grundvallar synjun ráðuneytisins á því að gerðar yrðu athugasemdir við málsmeðferð dómara og saksóknara í þessu máli var, eins og ég sagði, að krafan var um það að þessi dómari viki vegna þess að fulltrúi saksóknara var ekki mættur. Og ég held að erfitt sé að finna rök fyrir því af hverju dómari eigi að víkja í máli af því að saksóknari fer eftir þeim ákvæðum laga sem honum ber að vinna eftir.