13.03.1986
Sameinað þing: 60. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3107 í B-deild Alþingistíðinda. (2680)

307. mál, fríverslunarsamningur við Bandaríkin

Flm. (Gunnar G. Schram):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir till. til þál. á þskj. 572 um gerð fríverslunarsamnings við Bandaríkin. Till. er svohljóðandi, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að skora á ríkisstjórnina að láta fara fram könnun á gerð fríverslunarsamnings við Bandaríkin með hliðsjón af því hver yrði viðskiptalegur hagur af slíkum samningi fyrir íslenska atvinnuvegi og útflutningsstarfsemi.“

Ástæðan fyrir því að þessi þáltill. er flutt er fyrst og fremst sú að nú beinast augu manna á Íslandi í vaxandi mæli að mikilvægi aukinnar markaðsleitar fyrir íslenskar afurðir og umræður hafa mjög vaxið um mikilvægi útflutningsverslunar. Ástæðan er sú að í Bandaríkjunum er mikilvægasti markaður okkar Íslendinga í dag fyrir afurðir okkar og jafnframt markaður sem tvímælalaust mun vera unnt að stækka á ýmsum sviðum. Þangað fluttum við árið 1984 29% af útfluttum afurðum frá Íslandi.

Í dag er fyrst og fremst um að ræða útflutning á sjávarafurðum til Bandaríkjanna eins og kunnugt er, en það hefur aukist mjög útflutningur á ýmiss konar iðnaðarvörum til Bandaríkjanna á síðustu árum. Það er álit þeirra, sem helst fylgjast með þessum málum og starfa á þessu sviði atvinnulífsins, að möguleikar muni vera á því að stórauka útflutning iðnaðarvara til Bandaríkjanna, en þar fæst sem kunnugt er mjög gott verð fyrir íslenskar iðnaðarvörur og miklu hærra verð en fyrir vörur sem fara til ýmissa annarra landa.

Það er vitanlega mjög mikilvæg forsenda þess að unnt verði að vinna þar nýja markaði að tollar á slíkum vörum, og þá er ég fyrst og fremst að tala um íslenskar iðnaðarvörur, fáist þar lækkaðir. Ef slíkt tækist gæti það tvímælalaust orðið mikil lyftistöng fyrir íslensk iðnfyrirtæki í framtíðinni sem ættu þá auðveldara með að vinna nýja markaði. Þess vegna er hér um að ræða mjög mikilvægt hagsmunamál fyrir íslenskan iðnað og vöxt hans og viðgang í framtíðinni. Það má taka það saman, eins og gert er í grg. í stórum dráttum, hvað helst mælir með því að þetta verði kannað af hálfu íslenskra stjórnvalda. Hér er engu slegið föstu um þetta atriði heldur aðeins farið fram á að könnun verði gerð á þessu máli. Vitanlega eru á því ýmsar hliðar, sem þarf að líta á, m.a. tekjur ríkissjóðs af tollum á innfluttum vörum frá Bandaríkjunum sem skipta vitanlega líka máli.

Það sem helst mælir með því að slík könnun verði framkvæmd er í fyrsta lagi að tollar á íslenskum framleiðsluvörum, hvort sem það eru landbúnaðarvörur, iðnaðarvörur eða sjávarafurðir, yrðu lækkaðir eða jafnvel felldir niður með öllu. Þeir tollar sem greiða varð af íslenskum vörum í Bandaríkjunum námu 129 millj. árið 1984. Má ætla að á þessu ári verði þar um upphæð í kringum 200 millj. að ræða. En síðustu nákvæmar tölur eru frá árinu 1984.

Í öðru lagi mundi samkeppnisaðstaða íslenskra útflytjenda vitanlega batna mjög á bandaríska markaðnum gagnvart öðrum löndum.

Í þriðja lagi mundu bandarískar vörur lækka í verði hér á landi.

Í fjórða lagi mundu möguleikar skapast á samvinnu erlendra og íslenskra fyrirtækja til að framleiða til útflutnings hér á landi, bæði til Bandaríkjanna og þá ekki síður til Evrópu, þ.e. til EFTA-landanna og Efnahagsbandalagslandanna sem við höfum nokkra samninga við.

Í fimmta lagi mundu efnahagssamvinna og viðskiptatengsl Íslands og Bandaríkjanna fara vaxandi ef slíkur samningur kæmist á laggirnar, en það er mitt mat og mitt álit að nánara samstarf þessara tveggja þjóða sé æskilegt, ekki aðeins á stjórnmálasviði, heldur einnig og ekki síður á viðskiptasviðinu.

Ég nefndi hér sérstaklega iðnaðarvörurnar. Af íslenskum iðnaðarvörum sem fara til Bandaríkjanna er nú greiddur tollur sem að meðaltali er 11,4%. Þar er um að ræða næststærsta útflutningsflokkinn sem til Bandaríkjanna fer. Stærstar eru sjávarafurðir. Árið 1984 voru fluttar út iðnaðarvörur fyrir 525 millj. Það mun hafa farið eitthvað vaxandi síðan. Þar er um að ræða toll sem er tæp 12%. Það gefur auga leið að verulegt hagræði væri að því að fá þann toll lækkaðan. Hann er mun hærri en af öðrum vörutegundum sem við flytjum til Bandaríkjanna. Það er álit forráðamanna Verslunarráðs Íslands, íslensku landsnefndar alþjóðlega verslunarráðsins og samtaka iðnrekenda að það mundi verða mikill hagur að því fyrir íslenskan iðnað ef slíkt gæti gerst og gæti það mjög aukið fjölbreytni iðnaðarútflutnings í framtíðinni á bandaríska markaðnum. Ég nefni hér sérstaklega ullariðnaðinn. Það var síðast í morgun sem fregnir bárust um erfiðleika hans og breytingar í þeirri atvinnugrein. Mönnum eru þær kunnar. Ekki er þá síst ástæða til að hyggja að því hvað unnt er að gera honum til stuðnings. Það sem lagt er til í þessari þáltill. er einmitt eitt af því.

Við höfum nýlega gert út, Íslendingar, leiðangur til Bandaríkjanna til að kanna möguleika á verulega aukinni sölu á íslenskum landbúnaðarafurðum þar í landi. Þar var fyrst og fremst verið að kanna kindakjötsmarkaðinn, en margir hafa talið, með réttu eða röngu, að ekki hafi nógu vel verið staðið að markaðsleit og útflutningi íslenskra sauðfjárafurða og landbúnaðarafurða yfirleitt til Bandaríkjanna á liðnum árum. Þangað hafa ostar hins vegar verið seldir í allnokkrum mæli, en þó verið bundnir kvótafyrirkomulagi þar í landi sem mjög hefur takmarkað íslenskan útflutning á ostum.

Þegar við tölum um útflutning á landbúnaðarafurðum, sem í sjálfu sér er vitanlega erfitt mál, er ljóst að til bandaríska markaðarins líta menn kannske einna helst vonaraugum vegna þess að yfirleitt, og þá á ég við alla vöruflokka, er þar greitt hæsta verð sem fæst fyrir vörur.

Lítum á útflutninginn til Bandaríkjanna. Það er greiddur að meðaltali um 7% tollur af íslenskum landbúnaðarafurðum sem til Bandaríkjanna eru fluttar. Hæstur er sá tollur rúmlega 9% á ostum. Það er ljóst að ef vonir manna í landbúnaði eiga að rætast um verulega aukinn útflutning á landbúnaðarafurðum til Bandaríkjanna yrði slíkur fríverslunarsamningur mikilvægur.

Langstærsti hluti útflutnings okkar til Bandaríkjanna er sjávarafurðir, en heildarútflutningsverðmæti vöru okkar til Bandaríkjanna árið 1974 var 6,6 milljarðar kr. Það var tæplega þriðjungurinn af heildarútflutningi okkar, eins og ég sagði áðan, svo að hér er um ákaflega mikilvægan markað að ræða og stóran markað einnig.

U.þ.b. þriðjungur af íslenskum sjávarafurðum fer inn á bandaríska markaðinn án þess að það þurfi að greiða nokkra tolla. Af öðrum sjávarafurðum, eins og flökum, verður að greiða toll, en hann er tiltölulega mjög lágur. Á öðrum sjávarafurðum en blokkum og flökum eru hærri tollar, en þó ekki verulega háir. Alls voru greiddar 1984 57 millj. kr. í tolla af íslenskum sjávarafurðum. Nú má telja að það sé komið nær 100 millj. kr. sem greitt er í tolla af þeim. Það er vitanlega ekki sérlega há upphæð, en skiptir þó engu að síður nokkru máli. Á hitt er að líta að tollar af unnum sjávarafurðum eru miklum mun hærri og í raun hefur það komið í veg fyrir að við flyttum annað en frumunnar sjávarafurðir til Bandaríkjanna. Það verða menn einnig að hafa í huga í þessu sambandi.

Inn í þessa mynd koma líka nýlegar fréttir af nýjum tollum í Bandaríkjunum á fisk frá samkeppnisaðilum okkar í Kanada. Þegar hefur verið lagður tollur á ferskan fisk sem kemur frá Kanada, tæplega 7%, og í þessum mánuði munu bandarísk stjórnvöld ákveða hvort einnig verði lagður tollur á frystan fisk frá Kanada. Við flytjum vitanlega ekki ferskan fisk nema í afar litlum mæli til Bandaríkjanna, en aftur á móti byggist Bandaríkjamarkaðurinn á frystum fiski. Hvað okkur snertir er augljós hætta á því að það komi fram kröfur um að slíkir tollar á frystan fisk verði lagðir á sjávarafurðir í Bandaríkjunum frá fleiri löndum en Kanada. Það gæti haft mjög afdrifaríkar afleiðingar fyrir íslenskan sjávarútveg ef til þess kæmi. Fríverslunarsamningur Íslands og Bandaríkjanna mundi hins vegar bæta stöðu okkar í þessum efnum.

Ég minntist áðan á möguleikana á því að ef slíkur samningur kæmist á laggirnar skapast miklu meiri og betri möguleikar en í dag eru fyrir samvinnu íslenskra og erlendra fyrirtækja til að framleiða vöru eða vinna úr vöru fyrir bandaríska markaðinn sem yrði þá lágtollamarkaður eða ekki um neina tolla þar að ræða. Jafnframt mundi koma inn í landið með slíkri samvinnu ekki aðeins fjármagn heldur einnig tækniþekking sem gæti gagnast íslensku atvinnulífi á fleiri sviðum.

Nú geta menn velt því fyrir sér þegar þessari hugmynd er varpað fram hvaða hag við Íslendingar sjáum okkur í því að gera slíkan samning. Það er um það sem þessi þáltill. fjallar. En hvaða möguleikar eru á því að við mundum fá slíkan samning gerðan við Bandaríkin? Bandaríkjamenn hafa gert mjög fáa slíka samninga. Hins vegar hafa þeir þótt mjög eftirsóknarverðir af viðskiptalöndum Bandaríkjanna. Þegar hefur verið gerður, á síðasta ári, slíkur samningur við Ísraelsríki. Það má segja að það sé með meiri háttar vinaríkjum Bandaríkjanna. Þá hafa Bandaríkin einnig gert einhliða fríverslunarsamning, og ég undirstrika að það eru einhliða samningar, við nokkur ríki í Karabíska hafinu, en á þá samninga verður fremur að líta sem eins konar þróunaraðstoð af hálfu Bandaríkjanna, sem hleypa þá tollfrjálsum vörum og afurðum frá þessum eyríkjum inn á bandaríska markaðinn, fremur en venjulegan fríverslunarsamning. En um þessar mundir er ákaflega fast sótt og hart knúið á dyr stjórnvalda í Washington af hálfu samkeppnismanna okkar, Kanadamanna, til þess að fá gerðan fríverslunarsamning við Bandaríkin. Það eru ekki síst fiskafurðirnar sem Kanadamenn líta til í því efni, en vitanlega sjá þeir manna best, sem eru næstir því mikla ríki og þeim stóra markaði sem Bandaríkin eru, eftir hverju er að sælast á bandaríska markaðnum.

Ég hygg, og það er mat mitt eftir að hafa kynnt mér þessi mál nokkuð, að það sé vel þess virði fyrir íslensk stjórnvöld, fyrir ríkisstjórnina og þá ekkí síst viðskrn. og utanrrn., að kannað verði hver væri hagurinn af því að fá slíkan samning gerðan við Bandaríkin, okkar mesta og besta markaðsland. Og þá jafnframt hverjir gætu verið gallarnir við slíka samningsgerð því að eðlilegt er að á báðar hliðar málsins sé litið í þessu efni.