17.03.1986
Neðri deild: 64. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3135 í B-deild Alþingistíðinda. (2697)

54. mál, sveitarstjórnarlög

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Það er ekki mín ætlan að beita málþófi við þetta frv. þó að ég sé í meginefnum andvígur því og hafi látið koma fram mín sjónarmið þar um. Frá upphafi umræðna um þetta mál hefur komið fram mikil andstaða við málið hér í hv. deild. Þessi andstaða er ekki bara frá stjórnarandstæðingum, hún er ekki síður innan stjórnarliðsins sjálfs. Og hvað sem menn um það segja er það út af fyrir sig kannske rétt að ekki eigi að gera þetta að flokksmáli, trúlega klýfur þetta í sumum tilvikum alla pólitíska flokka, en eigi að síður er víðtæk andstaða við málið sem heild, að undanteknum tveim, þrem, fjórum atriðum varðandi frv. Og það veldur mér áhyggjum að þeir sem vilja ráða ferðinni í þessum efnum varðandi þetta frv. - vilja ráða ferðinni, segi ég, vegna þess að margar greinar þessa frv. voru við 2. umr. samþykktar með minni hluta hv. deildarþingmanna og málið fjallar um sveitarstjórnarlög - ég veit ekki hvort hv. þm., sem vilja keyra þetta mál í gegn með þessum hætti, gera sér grein fyrir því hversu mikið mál hér er á ferðinni. (Gripið fram í: Jú.) Einhver sagði jú. Ég dreg það mjög í efa. Ég held að menn ættu að hugsa til þess að skoða þetta mál frekar. Reyna að ná breiðari samstöðu en hér hefur gerst um svona mikilvæg mál. Ég held t.d. að allir hv. þm. geti orðið sammála um þau efnisatriði sem eru á þskj. 607, þeirri brtt. sem þar er flutt. Ég hygg að allir hv. deildarþm. gætu orðið sammála um að afgreiða málið með þeim hætti og fresta að ná samstæðari ákvörðun um önnur efnisatriði sem varða sveitarstjórnarlögin. Ég tala nú ekki um þegar einn af hv. stjórnarþingmönnum, einn af þm. úr flokki hæstv. forsrh., hefur nú lagt fram á hv. Alþingi frv. til stjórnarskipunarlaga um stjórnarskrá lýðveldisins Íslands. Einn af þm. Framsfl., stjórnarliðinn úr flokki hæstv. forsrh.! Og lítið liggur ekki við. Ég minnist þess - og held ég muni það rétt - að hv. 5. þm. Vestf. talaði harkalega gegn þessu frv. við upphaf 2. umr. Hann talaði harkalega gegn því og taldi það nánast einskis nýtt. Það þýðir ekki fyrir hæstv. félmrh. að hrista hausinn yfir því. Ég hygg að fleiri hafi heyrt tal hv. 5. þm. Vestt. í þessu máli og ég vænti þess að hann láti þá í sér heyra aftur, þannig að hæstv. félmrh. misskilji ekkert hvað hv. 5. þm. Vestt. vill. Ég vildi a.m.k. gjarnan fá að heyra viðhorf hv. 5. þm. Vestf. í þessum efnum núna eftir að hann hefur lagt fram frv. til stjórnarskipunarlaga. (Samgrh.: Hann er skýrmæltur.) Hann er skýrmæltur, segir hæstv. viðskrh., það er rétt, enda þekkt manninn lengi. En fróðlegt væri að vita hvað hv. 5. þm. Vestf. segir nú um þetta mál. Ég á varla von á því að hv. þm. hafi lagt þetta frv. fram án þess að hafa í einu eða neinu samráð við sína samflokksmenn. Ég geri vart ráð fyrir því, jafnbljúgur maður og hv. 5. þm. Vestf. er í samskiptum. Ég hygg að hann hafi a.m.k. eitthvert umboð frá Framsfl., eða þingflokki hans til þess að bera hér fram frv. um stjórnarskipunarlög. Ég ætla ekki annað. Og mér þætti gjarnan gott að heyra það frá hv. 5. þm. Vestf. hvernig hljóðið er í framsóknarherbúðunum að því er varðar þetta mál því að hér liggur meira en lítið við að fá um það vitneskju hvað í þessu tilfelli annar stjórnarflokkurinn vill gera í þessu mikilvæga máli.

Ég skal ekki, herra forseti, eyða löngum tíma í þetta. Það er ekki mín ætlan að reyna að drepa málinu á dreif hér í þinginu. Hins vegar finnst mér það nánast niðurlæging fyrir hv. þingdeild ef svona stórmál á að samþykkjast með minni hluta þingdeildarmanna í mörgum tilfellum. Þetta er miklu stærra mál en svo að þingið geti leyft sér að afgreiða það með þeim hætti. Það er skynsamlegra fyrir þá sem hér vilja þetta mál fram að taka sönsum og slá á frest þeim tilteknu atriðum sem mikill og djúpstæður ágreiningur er um hér í hv. deild og reyna að ná sáttum á víðari grundvelli en þetta frv. gerir ráð fyrir að gert verði.

Ég vænti þess a.m.k. að menn ætli sér ekki að keyra þetta mál áfram með þeim hætti sem hér hefur verið gert til þessa, og að menn vilji reyna að ná víðtækari sáttum um málið en hér hefur tekist enn sem komið er.