17.03.1986
Neðri deild: 64. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3137 í B-deild Alþingistíðinda. (2703)

54. mál, sveitarstjórnarlög

Friðjón Þórðarson:

Herra forseti. Það er aðeins örstutt athugasemd. Í máli hv. 2. þm. Reykv. kom fram að hann vitnaði í mætan sýslumann, héraðsdómara, og taldi, að því er mér skildist, að hann hefði lagt blessun sína yfir frv. í þeirri mynd sem það nú er. Eða a.m.k. þær brtt. sem bornar hafa verið upp núna að undanförnu. Ég hef að vísu ekki haft samband við þennan ágæta sýslumann, sem ég þykist vita hver sé. (Gripið fram í: Hver er hann?) Það gerir ekkert til þó það sé upplýst. Það mun vera sýslumaður Skagfirðinga, Halldór Þ. Jónsson. En mér finnst að hér sé varla rétt eftir honum haft, a.m.k. ekki nema hálfsögð sagan. Það má vera að hann hafi látið í ljós eitthvað þess efnis að þessar brtt. væru út af fyrir sig ekki slæmar. En ég hygg að hann hafi ýmsar athugasemdir að gera við málið í heild. Og ætti ég að þekkja þennan ágæta sýslumann, ja eins vel og marga aðra í þeirri stétt, þar sem ég hef tvískipað hann í embætti.