17.03.1986
Sameinað þing: 61. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3144 í B-deild Alþingistíðinda. (2722)

231. mál, mötuneyti Pósts og síma í Thorvaldsensstræti

Fyrirspyrjandi (Sigríður Dúna Kristmundsdóttir):

Virðulegi forseti. Ég vil aðeins ítreka það, sem ég sagði áðan, að hér er um fleiri leikhús og leikhópa að ræða en Alþýðuleikhúsið eitt. Þar hefur verið mikil gróska, en hér er einnig um að ræða fjöldann allan af leikhópum, tónlistarhópum og hópum sem verða til um einstök verkefni. Hér er því ekki aðeins verið að finna húsnæði undir Alþýðuleikhúsið heldur undir stóran hluta af þeirri listastarfsemi sem fer fram í Reykjavíkurborg.

Þegar hæstv. samgrh. kom í stólinn í annað sinn heyrðist mér á honum að hann væri efnislega ekki endilega ósammála því máli sem ég hef hér flutt, en nefndi hins vegar ástæður, sem hann hafði ekki tíma til að tiltaka hér, gegn því að húsið væri nýtt á þennan þátt. Nú vil ég biðja hæstv. samgrh. að fara af stað með alvarlega athugun á því hvort ekki megi fá starfsmenn og forstjóra Pósts og síma til að sjá ljósið í þessum efnum og láta gera úttekt á því á hvern hátt þetta hús gæti nýst sem best sem leiklistarhús og tónlistarhús í miðbæ Reykjavíkur.