17.03.1986
Sameinað þing: 61. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3151 í B-deild Alþingistíðinda. (2733)

291. mál, hvalarannsóknir

Fyrirspyrjandi (Guðrún Helgadóttir):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðh. fyrir svör hans. Ég vil hins vegar geta þess að ástæðan fyrir því að ég dró í efa að rannsóknaráætlunin væri aðgengileg er sú að þegar hv. þm. fengu, a.m.k. sumir hverjir, fyrstu áætlunina sem trúnaðarmál var mér fullkunnugt um að ýmsir embættismenn í kerfinu fengu áætlun sem var ekki alveg samhljóða þeirri, þannig að það virtust vera tvær áætlanir í gangi. Vel má vera að úr þessu hafi verið bætt og er það þá gleðilegt.

Ástæðan fyrir því að ýmsir hafa áhyggjur af þessum málum, og síðari fsp. mín, sem verður væntanlega rædd á eftir, segir kannske dálítið meira um það, er á hversu miklum brauðfótum þessar rannsóknir standa að því er tekur til fjármögnunar. Af svörum hæstv. ráðh., sem voru ítarleg eins og hans er von og vísa, kemur í ljós að það er ákaflega undarlegt að það skuli þurfa að drepa öll þessi dýr, 80 langreyðar, 40 sandreyðar og 80 hrefnur, samkvæmt áætluninni, vegna þess að flestir þættir fyrirhugaðra rannsókna eru allt annars eðlis en rannsóknir á dauðum dýrum. Þær eru mestmegnis rannsóknir á lifandi dýrum í sjónum. Og eins og hæstv. ráðh. tók hérna fram dreymir vísindamenn um að fá skip til að fylgjast með dýrunum í sjónum, menn dreymir um að komast upp í loftið til að telja dýrin. Þess vegna er auðvitað afskaplega vafasamt að ætla sér að fjármagna þessar vísindalegu rannsóknir með því að þurfa að drepa svo mörg dýr. Sannleikurinn er sá að menn hafa verið að gera á undanförnum árum ýmsar þær rannsóknir sem engan veginn hefur verið starfsfólk til þess að vinna úr, og það er til nú þegar mikið efni úr aflífuðum dýrum sem gjörsamlega á eftir að rannsaka. Þetta veit ég að hæstv. ráðh. veit sjálfur, enda erum við engir andstæðingar í þessum málum. Ég er fullviss um að hæstv. ráðh. vill reyna að stýra þessum málum af einhverri skynsemi.

Það gleður mig líka að heyra að ráðuneytið hyggst vinna að því að sprengiskutull verði notaður því það er satt að segja óhugnanlegt til þess að vita að þessi stóru dýr skuli þurfa að vera jafnvel klukkutíma eða á annan tíma að veslast upp eftir að skutull hefur hæft þau.

En, herra forseti, ég vænti þess að síðari fsp. mín komi hér á dagskrá líka og þá mun ég fara nokkru nánar út í frekari framkvæmd þessarar áætlunar.