17.03.1986
Sameinað þing: 61. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3154 í B-deild Alþingistíðinda. (2736)

292. mál, fjármögnun rannsókna á hvalastofninum

Sjútvrh. (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Sem svar við 1. spurningunni vil ég segja eftirfarandi:

Í september s.l. afhenti fulltrúi japanska sendiráðsins í Stokkhólmi í sendiráði Íslands þar í borg minnisblað þar sem því er lýst yfir að til að forðast gagnaðgerðir Bandaríkjamanna á grundvelli svonefndra Packwood/Magnuson-laga muni ríkisstjórn Japans tilneydd að takmarka innflutning á hvalkjöti sem fæst af hvalveiðum sem stríði gegn verndaraðgerðum Alþjóðahvalveiðiráðsins. Þá segjast Japanir munu banna innflutning á hvalkjöti sem fæst af vísindaveiðum Íslendinga fari svo að Bandaríkjamenn telji að beita beri Packwood/Magnuson-lögunum gagnvart innflutningi á kjöti sem þannig er tilkomið. Þessi minnisatriði eru, eins og sést af framansögðu, ærið loðin og óskýr.

Í október s.l. átti Pétur Thorsteinsson síðan þrjá fundi um þetta mál við japönsk yfirvöld og mál þetta bar á góma í viðræðum þáv. viðskrh. Íslands, Matthíasar Á. Mathiesen, og hins japanska starfsbróður hans hinn 15. okt. Af þeim viðræðum er ljóst að Japanir óttast að áframhaldandi veiðar þeirra sjálfra og innflutningur á hvalkjöti geti haft áhrif á veiðiheimildir japanskra skipa í lögsögu Bandaríkjanna. Stendur þetta í sambandi við málaferli sem Japanir hafa átt í í Bandaríkjunum um gildi hinna svonefndu Packwood/ Magnuson-laga gagnvart hvalveiðum Japana sjálfra, en þeim málaferlum er ekki lokið. Er því við því að búast að Japanir verði tregir til að heimila innflutning á hvalkjöti nema fyrir liggi að sá innflutningur muni ekki leiða til refsiaðgerða af hálfu Bandaríkjamanna á grundvelli áðurnefndra Packwood/Magnuson-laga.

Tilskipun um þetta efni var gefin út í Japan hinn 6. sept. s.l., en texti hennar varpar ekki frekara ljósi á stöðu málsins gagnvart innflutningi á íslensku hvalkjöti.

Fyrirhugaðar vísindaveiðar Íslendinga eru í fullu samræmi við reglur Alþjóðahvalveiðiráðsins. Þær eru raunhæfasta áætlunin sem hingað til hefur verið kynnt sem miðar að endurmati á hvalastofnum fyrir árið 1990, en samkvæmt ákvörðun Alþjóðahvalveiðiráðsins skyldi slíkt endurmat fara fram fyrir þann tíma. Út frá íslenskri réttarvitund er því ákaflega fjarlægt að telja að þessar veiðar verði taldar draga úr áhrifum friðunaraðgerða Alþjóðahvalveiðiráðsins, en slíkt er skilyrði fyrir beitingu Packwood/Magnuson-laganna. Endanleg afstaða Japana gagnvart innflutningi íslensks hvalkjöts mun væntanlega byggjast á mati Japana á því hversu líklegt er að sá innflutningur leiði til beitingar þessara lagaákvæða. Á þessari stundu er að mínu mati ekki unnt að fullyrða hver niðurstaðan verður. Enn ríkir því nokkur óvissa um sölu á þessu kjöti til Japans og þeirri spurningu hvort sala kjötsins sé tryggð verður að svara neitandi.

Að því er varðar 2. liðinn vil ég vísa til þess sem ég hef áður sagt í svari hér á undan, en bæta því jafnframt við að samkvæmt samningi Hafrannsóknastofnunar við Hval hf. greiðir fyrirtækið tiltekið verð fyrir hvern veiddan hval til að standa undir kostnaði við rannsóknirnar. Sala afurðanna og áhætta af rekstrinum er að öllu leyti á ábyrgð og áhættu Hvals hf.

Að því er varðar 3. spurninguna, um viðbrögð Bandaríkjamanna við erindi ríkisstj., þá áttu utanrrh. og forsrh. samtal við utanrrh. Bandaríkjanna. Svar hans er afar óljóst, en það má hins vegar ráða af því svari, eins og kemur fram í lok þess, að hann hvetur til þess að fresta fyrirhuguðum áætlunum Íslendinga þar til Alþjóðahvalveiðiráðið hefur gert viðeigandi ráðstafanir.

Nú er það svo að fundur verður í apríl um hið svokallaða endurmat stofnanna og mun þá nokkuð koma fram á þeim fundi. Það hefur einnig verið sett upp nefnd til að setja reglur um vísindalegar veiðar sem við Íslendingar höfum jafnframt mjög hvatt til, en vegna fjárhagserfiðleika Alþjóðahvalveiðiráðsins, sem hefur vart efni á því að halda lítinn nefndarfund, mun ekki verða hægt að halda fund í þeirri nefnd fyrr en um leið og fundur Alþjóðahvalveiðiráðsins verður haldinn. Er vissulega mjög bagalegt að þessi ágæta alþjóðlega stofnun skuli ekki hafa fjármagn til að sinna svo mikilvægu verkefni sem þessu.

Þannig er ekki ljóst hvenær Alþjóðahvalveiðiráðið kemst að frekari niðurstöðu um þessi mál, en hins vegar er aðalatriði málsins að hér er í einu og öllu farið eftir þeim reglum sem um þessi mál gilda í dag og engin leið að vinna samkvæmt einhverjum reglum sem kunni að verða settar einhvern tíma í framtíðinni jafnvel þótt sjálfur utanrrh. Bandaríkjanna mæli með því.