17.03.1986
Sameinað þing: 61. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3157 í B-deild Alþingistíðinda. (2743)

298. mál, erlend leiguskip

Samgrh. (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Á tímabilinu 1. jan. til 28. febr. s.l. var fjöldi erlendra leiguskipa til og frá Íslandi alls 27 á vegum sjö útgerða. Þar voru fjögur erlend tímaleiguskip, þ.e. skip með erlendri áhöfn, í langtímaverkefnum fyrir tvær íslenskar útgerðir. Þá var um að ræða þrjú erlend þurrleiguskip, en það eru erlend skip í langtímaverkefnum fyrir íslenskar útgerðir mönnuð íslenskum áhöfnum alfarið. Loks voru 20 ferða- og farmleiguskip í förum til og frá landinu á fyrrnefndu tímabili, en það eru erlend skip leigð af íslenskum útgerðum og/eða íslenskum farmeigendum til einstakra ferða eða farma. Slík skip eru í yfirgnæfandi tilfellum í flutningum á lýsi, fiskimjöli og salti svo að helstu þættir séu nefndir.

Eins og fyrr er sagt eru nú fjögur skip í þjónustu íslensku útgerðanna borið saman við átta skip á árinu 1985 og níu skip á árinu 1984. Á fyrrnefndum skipum eru alls 46 menn, auk íslensks eftirlitsmanns á hverju skipi. Samdráttur á erlendum tímaleiguskipum er m.a. vegna tilmæla stjórnvalda til útgerðarinnar um að halda leigutöku á erlendum skipum fyrir langtímaverkefni í lágmarki.

Þau fjögur skip sem eru í langtímaleiguverkefnum eru á leigu hjá tveimur útgerðum, hjá Eimskipafélagi Íslands tvö skip og hjá skipadeild SÍS tvö skip.

Eimskip seldi Mánafoss með litlum fyrirvara í desember s.l. til Austurlanda fjær og skipið var afhent nýjum eigendum 6. mars. Félagið var því knúið með litlum fyrirvara til að finna skip til að leysa Mánafoss af hólmi í strandsiglingum þar sem önnur skip útgerðarinnar voru hvorki hentug né frjáls frá öðrum verkefnum. Hefur því skipi verið veitt leyfi til 10. apríl n.k. Áhöfnin er tíu manns, auk íslensks eftirlitsmanns.

Hitt skipið er ms. Doris. Skipið er á tímaleigu og er í siglingum til Bandaríkjanna. Siglingar til Bandaríkjanna eru, eins og menn vita og við þekkjum best, sveiflukenndar og áhættusamar eins og reynslan sannar. Það er ekki hentugur skipakostur til slíkra siglinga. Þá taldi útgerð Eimskips óviðeigandi að fjárfesta í skipakosti í svo áhættusaman rekstur fyrr en nokkur reynsla væri fengin og festa komin á þessar siglingar. Áhöfn þessa skips er 14 manns, auk íslensks eftirlitsmanns.

Skipadeild SÍS leigir skipið Jan í áætlunarsiglingum til Evrópu. Skipadeildin á núna í viðræðum við eigendur skipsins um að skipið verði mannað að mestum hluta með Íslendingum og eru líkur taldar góðar fyrir því að eigandi skipsins samþykki slíkt fyrirkomulag. Til lengri tíma litið hefur skipadeild SÍS áhuga á þurrleigu skips mönnuðu Íslendingum sem mundi anna þeim verkefnum sem ms. Jan sinnir nú.

Fjórða og síðasta skipið hefur skipadeild SÍS á leigu til siglinga til Norðurlandanna. Það er gert í þeim tilgangi að auka siglingatíðni í áætlanasiglingum útgerðarinnar. Þar sem hér er um að ræða aukningu á markaði sem enn er ókannaður telur útgerðin ekki forsvaranlegt að fjárfesta í skipakosti eða skuldbinda sig til lengri tíma með þurrleiguskipi fyrr en tilraunasiglingar hafa sýnt að rekstrargrundvöllur sé fyrir hendi.

Meginástæður fyrir því að tvö stærstu skipafélögin hafa ekki treyst sér til að kaupa skip að svo stöddu eru í fyrsta lagi að stórkostleg aukning hefur orðið á strandflutningum vegna aukins útflutnings á ferskum fiski. Gámarnir eru teknir á hinum ýmsu höfnum kringum landið og fluttir til Reykjavíkur í veg fyrir stóru millilandaskipin. Að svo stöddu er ekki ljóst hvort um áframhald á þessum flutningum verður að ræða og því vilja félögin bíða átekta til að geta fundið sem hentugast skip í þessa flutninga.

Í öðru lagi hefur orðið mikil breyting á flutningsmarkaðnum með stykkjavöru að undanförnu, einkum vegna þess að Hafskip hætti rekstri. Því ríkir nokkur óvissa um gerð og stærð skipa sem henta til þessarar þjónustu þegar til lengri tíma er litið.

Eins og af framansögðu er ljóst hefur verulega fækkað þeim skipum sem tekin hafa verið á leigu til lengri tíma og að því er stefnt að koma í veg fyrir það, en ekki hefur verið fært að ganga lengra en hér hefur verið gengið.