17.03.1986
Sameinað þing: 61. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3167 í B-deild Alþingistíðinda. (2754)

299. mál, byggðanefnd þingflokkanna

Helgi Seljan:

Herra forseti. Það er ekki að ástæðulausu að spurt sé um störf þessarar nefndar og ég get upplýst hér að það liðu átta mánuðir á milli síðasta fundar og þess næstsíðasta og kannske ekki að ástæðulausu því að eins og kom fram í svari hæstv. forsrh. treystu ráðandi öfl í þessu landi núna, þ.e. stjórnarflokkarnir, sér ekki til að svara þeim spurningum sem byggðanefndin lagði fyrir þá í fyrra á sama tíma og stjórnarandstaðan svaraði öll þeim spurningum sem beint var til hennar varðandi það millistig í stjórnsýslunni sem mjög hefur verið talað um núna síðustu daga.

Við höfum því svo sannarlega hugleitt það á þessum a.m.k. átta mánuðum og jafnvel nú eftir síðustu atburði, fulltrúar stjórnarandstöðunnar, að það hefði engan tilgang að vera í þessari nefnd og við ættum hreinlega að segja okkur úr henni. Kannske er tilefnið komið með svarinu frá Framsfl. sem mér skilst að liggi núna fyrir í frv. hv. þm. Ólafs Þ. Þórðarsonar og ég þykist vita að hæstv. forsrh. hljóti að svara fyrir að einhverju leyti sem frv. þess flokks. Það væri gott að vita hvort svo er.

En það var kannske ágætt, herra forseti, að hv. þm. minnti á byggðanefndina sem enginn veit hvort er lífs eða liðin, þ.e. byggðanefnd hæstv. forsrh. Og þegar hann kemur hér upp á eftir væri fróðlegt að vita hvort hún er lífs eða liðin því að ekki vitum við það, hv. 3. þm. Vestf. og ég, sem eigum þó báðir sæti í þessari nefnd eða áttum.