17.03.1986
Sameinað þing: 61. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3172 í B-deild Alþingistíðinda. (2766)

318. mál, endurskoðun laga um fasteignarsölu

Fyrirspyrjandi (Steingrímur J. Sigfússon):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að leggja fram á þskj. 588 fsp. til dómsmrh. um endurskoðun laga um fasteignasölu. Ástæða þess að ég lagði fram þessa fsp. var sú að ástand á fasteignamarkaðinum hefur nokkuð verið til umræðu og umfjöllunar undanfarið og sýnist ekki vanþörf á að grípa þar til ýmissa aðgerða til að koma skikk á þau mál.

Það hafa lengi verið uppi kröfur um það að tryggja betur rétt og stöðu þeirra sem eiga í viðskiptum og eiga sitt undir fasteignamarkaðinum. Þar er gjarnan velt milli handa aleigu viðkomandi viðskiptavina og jafnvel gott betur og því mikið í húfi að tryggilega sé þar um hnútana búið. Mig lengdi eftir því að eitthvað heyrðist frá hæstv. dómsmrh. um endurskoðun þessara laga sem reyndar hefur lengi verið á dagskrá.

Síðan gerðist það reyndar, herra forseti, að stuttu eftir að þessi fsp. kom fram birtist gamall kunningi á borðum þm., frv. til l. um fasteigna- og skipasölu í lítið eitt endurnýjaðri mynd frá því að það sást hér síðast, líklega á 106. löggjafarþingi. Það má því segja að fsp. minni sé að nokkru leyti svarað með framlagningu þessa frv. Engu að síður teldi ég ástæðu til að dómsmrh. kæmi hér í stól og lýsti viðhorfi sínu gagnvart þessu frv., hvort þess er að vænta að það verði að lögum á yfirstandandi þingi og enn fremur hvort verið er að vinna að þessu máli á annan hátt t.d. með því að setja önnur skilyrði með öðrum ráðstöfunum til að tryggja eðlilegt útborgunarhlutfall á fasteignamarkaðinum og reyna að koma þar á eðlilegra ástandi en nú er og hefur verið um langa hríð.

Tíminn leyfir ekki efnislega umræðu um það frv. sem hér hefur birst. Ég hef ýmislegt við það að athuga en ég tel þó að þar sé mikilvægt skref stigið í rétta átt til þess að koma eðlilegu ástandi á fasteignamarkaðinn á Íslandi sem ekki hefur verið um langt árabil.