19.03.1986
Efri deild: 63. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3200 í B-deild Alþingistíðinda. (2798)

54. mál, sveitarstjórnarlög

Eiður Guðnason:

Virðulegi forseti. Ég mun ekki tala langt mál um þetta að þessu sinni þótt vissulega væri ástæða til.

Fyrst vil ég að því víkja að þannig háttar til að Alþfl. á ekki fulltrúa í þeirri nefnd sem fær þetta mál til umfjöllunar, þ.e. félmn. þessarar hv. deildar, og því vildi ég fara þess á leit við formann þeirrar nefndar, sem ég hygg að muni vera hv. 5. þm. Vesturl., að við fáum aðstöðu til að fylgjast með þeirri vinnu sem fram fer í nefndinni vegna þess að hún hlýtur að taka sér nokkurn tíma til að fjalla um þetta mál svo langan tíma sem það hefur verið í meðförum Nd. og hljóta menn hér að þurfa að skoða þetta og ekki afgreiða með neinum ofboðshraða, enda sé ég ekki að efni standi til þess.

Það er þegar búið að rekja hver örlög þessa máls hafa verið og það er satt best að segja með ólíkindum hvernig hefur tekist að klúðra þessu máli. Þar hafa ríkisstjórnarflokkarnir verið einir að verki og ekki þurft neina hjálp eða aðstoð frá stjórnarandstöðunni. Það var mikill lúðraþytur þegar þetta frv. var kynnt á sínum tíma: undur og stórmerki, miklar breytingar og nánast byltingar. Síðan hefur það verið að gerast smám saman að málið hefur verið að minnka og minnka. Vindurinn hefur verið að fara úr þeim sem hæst hafa látið í sambandi við þetta svona smám saman þannig að nú er orðið næsta lítið eftir, eins og hér hefur verið rakið, því miður. Það er búið að forklúðra þessu máli mjög rækilega þannig að það stóra skref sem átti að stíga og boðað var er nú orðið næsta lítið, að ég segi ekki að sé staðið í stað, það er svona allt að því.

Það hefur verið vikið hér að starfi svokallaðrar byggðanefndar sem í eiga sæti fulltrúar allra þingflokka og hefur fjallað um með hverjum hætti mætti gera lýðræðið virkara og mun fjalla um breytingar á stjórnskipuninni. Áðan kom í ræðustól hv. þm. Stefán Benediktsson, 8. þm. Reykv., og hann las upp úr skýrslu sem verið er að vinna fyrir nefndina, sem hvergi nærri er lokið, sem er vinnuplagg í höndum nefndarmanna, sem eftir er að fjatla allítarlega um. Ég leyfi mér að láta í ljós vanþóknun mína á slíkum vinnubrögðum að draga hingað inn í umræðuna á þingi gögn sem eru í umræðu í þessari nefnd og hvergi nærri eru fullrædd eða fullmótuð eða í þeim búningi sem nefndin væntanlega mun þeim frá sér skila. Mér finnast þessi vinnubrögð ekki til fyrirmyndar.

Ég veit raunar ekki hvert stefnir með þessa svokölluðu byggðanefnd. Ég sé ekki betur en hún standi nú á krossgötum þegar einn nefndarmaður, hv. þm. Ólafur Þ. Þórðarson og fulltrúi Framsfl. í nefndinni, hefur á þeim krossgötum þar sem nefndin stendur tekið allt aðra stefnu og gengið í burt nánast með því að færa þinginu nýja stjórnarskrá. Þar sem hæstv. forsrh., eins og hér hefur verið rakið, hefur afneitað þessu öllu sem afkvæmi eða á ábyrgð Framsfl. sé ég ekki betur en Framsfl. sé nokkur vandi á höndum um hvað gera skuli í þessari stöðu og sé í rauninni ekki að byggðanefndin sé sem stendur starfhæf þannig að í henni séu fulltrúar allra þingflokka. Ég heyrði ekki betur í gær en forsrh. treysti hv. þm. Ólafi Þ. Þórðarsyni ekki lengur í nútíð heldur aðeins í þátíð. Það kom mjög skýrt fram í umræðum í Sþ. í gær þannig að það hlýtur að vera óljóst hvað verður um starf þessarar nefndar. Hún er boðuð til fundar kl. 8.15 í fyrramálið og það verður væntanlega eitt aðalumræðuefni þar.

Það er einnig undarlegt að sitja í nefnd sem er að fjalla um breytingar á þessum efnum þar sem stjórnarandstöðuflokkarnir allir hafa sett fram sínar tillögur og svör, þ.e. varðandi þriðja stjórnsýslustigið, en svör hafa engin komið frá fulltrúum ríkisstjórnarflokkanna. Þeir hafa ekki talið sér henta að svara spurningum nefndarinnar. Á hinn bóginn er setið í byggðanefnd og verið að fjalla um þessi mál með þessum hætti, en á meðan eru þingflokkar stjórnarflokkanna að afgreiða frv. til sveitarstjórnarlaga með þeim hætti sem allir þekkja nú hér á hinu háa Alþingi. Þessi vinnubrögð eru hreint og beint sagt út í hött og hvarflar það sterkara að mér en nokkru sinni fyrr að segja skilið við þessa svokölluðu byggðanefnd vegna þess að ég sé ekki að þetta starf hafi neinn tilgang og sé sýndarmennskan ein af hálfu fulltrúa ríkisstj. Ég held að við fulltrúar stjórnarandstöðunnar hljótum að íhuga það mjög sterkt á fundinum á morgun og eftir hann hver afstaða okkar verður til áframhaldandi starfs nefndarinnar. Ég tek skýrt fram að það er ekkert vantraust á formann nefndarinnar með einum eða neinum hætti. Það er bara vantraust á stjórnarflokkana og afstöðu þeirra til byggðanefndarinnar og verður að lýsa fullri ábyrgð á hendur ríkisstjórnarflokkunum fyrir það að þetta starf skilar ekki árangri vegna þess hvernig að er staðið af þeirra hálfu. Þetta hlýtur allt að skýrast og verða ljósara á morgun, en þessi vinnubrögð eru með fádæmum. Meðan byggðanefndin situr og reynir að móta tillögur svara ekki ríkisstjórnarflokkarnir tillögum byggðanefndarinnar en keyra fram í þinginu með minni hluta þingmanna í hv. Nd. frv. sem gengur í þveröfuga átt við það sem verið er að ræða í þessari byggðanefnd.

Þannig er staða málsins núna frá mínum sjónarhóli séð. Það er vægt til orða tekið að starf byggðanefndar sé á krossgötum. Ég held raunar að henni séu lokaðar leiðir úr því sem komið er og hún geti tiltölulega mjög lítið gert. (HS: Framsókn getur skipt um mann.) Víst er það rétt, hv. þm. Helgi Seljan, að framsókn getur skipt um mann þar sem forsrh. treystir ekki lengur hv. þm. Ólafi Þ. Þórðarsyni í nútíðinni, en það er þá vandinn hvort hæstv. forsrh. finnur einhvern framsóknarmann sem hann treystir til að fylgja þessu fram. Ég á eftir að sjá að það verði greiðara um svör. Það má vera að nefndarstarfið gangi eitthvað greiðar, ég skal ekki alveg skjóta loku fyrir það, en að greiðara verði um svör þó að það komi annar fulltrúi Framsóknarflokks inn í þessa nefnd, um það hef ég miklar efasemdir í rauninni.

En forseti. Ég geri ráð fyrir að við Alþýðuflokksmenn munum flytja hér sams konar brtt. og Alþýðuflokksmenn hafa flutt í hv. Nd., alla vega till. á þskj. 607 sem flutt var af Karvel Pálmasyni og raunar fulltrúum úr öllum flokkum stjórnarandstöðunnar. Á þeirri till. voru fulltrúar Samtaka um kvennalista, Bandalags jafnaðarmanna, Alþb. og hv. þm. Kristín S. Kvaran. Ég geri fastlega ráð fyrir því að við munum flytja þá brtt. aftur, þ.e. að fella burt meginmál frv., halda aðeins þeim greinum sem eru lífsnauðsynlegar þannig að þessar sveitarstjórnarkosningar geti farið fram. Það er hvort sem er búið að kasta öllum efnisbreytingum burt úr þessu frv. Það er hvorki fugl né fiskur. Og það er ekkert í líkingu við það sem hæstv. félmrh. boðaði þegar hann mælti upphaflega fyrir frv. og þeim undrum og stórmerkjum sem það átti að boða.

Alþfl. hefur mótað tiltölulega skýra stefnu um skipan sveitarstjórnarmála. Við svöruðum skriflega tilmælum byggðanefndar og skýrðum þar okkar sjónarmið, þ.e. stjórnsýslustigin ættu að vera þrjú og einingarnar stærri í þriðja stjórnsýslustiginu. Á þessu er auðvitað einhver áherslumunur í öllum flokkum og ágreiningur sums staðar, mismunandi djúpstæður. Á lokavinnslustigi hjá okkur ern nú ítarlegar tillögur í mjög stuttu máli og greinargóðu um skipan sveitarstjórnarmála og það á eftir að samþykkja það formlega, en þeirri undirbúningsvinnu, sem í það hefur verið lögð, sem er ekki lítil, er nánast lokið og meginlínur þessarar stefnu hafa þegar verið kynntar hér á Alþingi. Það er væntanlega mjög skammt þess að bíða að þetta plagg verði lagt fram í heild.

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að hafa um þetta fleiri orð að sinni, en ég ítreka þá beiðni okkar Alþýðuflokksmanna, þar sem við eigum ekki sæti í félmn. þessarar hv. deildar, að við fáum, svo sem venja er hér og ég á ekki von á öðru en við því verði orðið, aðstöðu til að fylgjast með starfi félmn. þegar hún fjallar um þetta mál.