20.03.1986
Sameinað þing: 63. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3239 í B-deild Alþingistíðinda. (2828)

11. mál, mat heimilisstarfa til starfsreynslu

Helgi Seljan:

Herra forseti. Þetta mál hefur fengið hér ríkulega umræðu og um margt maklega, enda vel að málefni heimavinnandi fólks komi hér virkilega til umræðu. Ég segi hins vegar að það hefði verið betra og æskilegra að tilefnið hefði verið annað eða að umræður hefðu fallið í annan farveg, ekki deilur um hversu á skuli tekið heldur samkomulag um ákveðinn áfanga, a.m.k. til réttarbóta og réttlætis. Það hefði verið öllu sæmra fyrir Alþingi að þessar löngu og um margt ágætu umræður hefðu snúist um á hvern hátt best mætti tryggja að við þokuðumst nær því að ná einhverju réttlæti í þessu máli, en því miður hefur reyndin orðið önnur og deilur orðið hér býsna harðar vegna þeirrar afgreiðslu sem meiri hl. hv. allshn. hefur látið frá sér fara hér inn í þingið.

Ég skal ekki hafa langa tölu uppi um þetta mál í heild sinni. Margar útgáfur og hugmyndir hafa komið fram um endanlega gerð þessa máls eins og hér hefur komið fram. Hv. 5. þm. Austurl. hefur enda gert þá grein fyrir afstöðu okkar margra Alþýðubandalagsmanna að ekki þarf frekar að að gera. Ég skal heldur ekki fara að ræða hér nú, tel það ekki þjóna neinum tilgangi, þá afgreiðslu sem meiri hl. allshn. Sþ. hefur haft um þetta mál og þá alveg sérstaklega að Alþingi eigi ekki að álykta um mál af þessu tagi. Það út af fyrir sig er auðvitað full fjarstæða. Vissulega hefur Alþingi oftsinnis látið í ljós ákveðinn vilja sinn í málum sem þessum, málum sem miklu síður skyldi ályktað um en þetta. Þetta er auðvitað dagljóst öllum þannig að ekki þarf um að tala. Ég held að málið sé þess eðlis að það eigi að vera auðvelt hverjum alþm. að taka afstöðu með eða móti í einhverju formi þó að menn greini kannske á um hversu vítt sviðið skuli vera.

Mér þykir það fyrst og fremst galli á þessari afgreiðslu hv. meiri hl. allshn. að hafi nefndarmönnum þótt till. vera of einskorðuð, of þröng eins og menn hafa farið út í að verja sig með, og þá alveg sérstaklega með tilliti til hins almenna vinnumarkaðar, hlyti að hafa verið auðvelt fyrir hv. allshn., ef hún hefði viljað skoða þetta með nokkuð jákvæðum hætti og jákvæðu hugarfari, að bæta úr þessu og hafa ekki uppi þann útúrsnúning sem einkennir hina rökstuddu dagskrá. Í mínum huga er það vitanlega engin spurning að starfsreynsla eigi að vera metin til launa, starfsreynsla af því tagi sem hér er um fjallað á heimili við þau fjölþættu störf sem þar eru unnin. Það er enginn vafi á því að svo skuli gert, ekkert efamál og spurning kannske um það eitt hvers vegna þetta hefur ekki verið gert fyrir löngu.

Það var talað allstrítt til okkar áðan af hv. 3. landsk. þm. um skömmustu. Ég tók það nú að hluta til þannig að hún væri í raun og veru að tala til karlkynsins alls hér inni, það varð vart skilið öðruvísi, eða þá til þingheims alls, a.m.k. þeirra sem ekki greiddu atkvæði rétt hér á eftir. En skömmusta okkar ætti þá kannske að vera í því fólgin að hafa ekki gert eitthvað í þessum efnum fyrir löngu í ríkara mæli en gert hefur þó verið því að veikburða tilraunir hafa reyndar verið í þessa átt sums staðar.

Ég vil svo taka það fram að sú brtt. sem hér hefur komið fram og er mér mest að skapi, þó að þar sýnist mér að fleira þurfi til að koma í upptalningu, er brtt. hv. 3. þm. Norðurl. e. Stefáns Valgeirssonar o.fl. Þar þykir mér þó nokkuð þröngt um upptalningu þar sem segir með hvaða hætti megi meta starfsreynslu við ólaunuð heimilisstörf vegna barnauppeldis eða umönnunar á hliðstæðan hátt og starfsreynslu hjá opinberum aðilum. Þannig er tilkomin sú brtt. sem ég hef gerst meðflm. að ásamt þeim hv. 11. þm. Reykv. og hv. 2. landsk. þm. Ég tel nauðsyn úrbótar á upptalningu í þessu skyni eins og þar er sagt, vegna barnauppeldis, umönnunar, matargerðar, þvotta, ræstinga og þess háttar, til þess að árétta virkilega hvað átt er við með tillögugerð af þessu tagi.

Hins vegar lýsi ég því yfir að ef svo ólíklega vildi til að brtt. okkar um þessa áréttingu, þessa frekari upptalningu, yrði felld, þá mun ég fylgja till. þeirra framsóknarmanna í þessu efni, hv. þm. Stefáns Valgeirssonar o.fl., því að þar er þó að mér sýnist lengst gengið í þá átt að nálgast réttlætið í þessu máli.