20.03.1986
Sameinað þing: 63. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3240 í B-deild Alþingistíðinda. (2829)

11. mál, mat heimilisstarfa til starfsreynslu

Heilbr.- og trmrh. (Ragnhildur Helgadóttir):

Herra forseti. Ég kvaddi mér hljóðs þegar hv. 3. landsk. þm. flutti sína ræðu fyrr á fundinum. Ég undraðist mjög að heyra á máli hennar að hún snupraði þm. fyrir afstöðu þeirra sem hún taldi felast í því að þeir væru andvígir því að heimilisstörf væru einhvers metin. Ég hef átt sæti á Alþingi alllengi og hef oft orðið þess vör að þm. hafa einlægan vilja margir hverjir, og flestir að ég held, til þess að láta sinna þessu máli.

Það sem hér er hins vegar sérstaklega verið um að ræða, þ.e. að meta heimilisstörf til starfsreynslu inn í kjarasamninga, er miklu flóknara mál en í fljótu bragði mætti ætla. Ég vil strax láta þess getið að ég og velflestir sjálfstæðismenn, sem ég veit um og hef séð álykta um þessi mál á mörgum fundum flokksins, erum þeirrar skoðunar að þetta mál verði að leysa á þann veg að reynsla í heimilisstörfum metist sem starfsreynsla, a.m.k. í þeim störfum sem beinlínis eru sams konar að miklu eða öllu leyti. Það er sjálfsagt réttlætismál. Og þá hljótum við um leið að viðurkenna að heimilisstörf eru margþætt, þau eru flókin. Þau eru ekki aðeins fólgin í ræstingu og matreiðslu eins og menn tala jafnvel stundum um. Þau krefjast mikillar hæfni í stjórnun, skipulagningu og meðferð fjármuna. Allt þetta eru atriði sem hafa mjög mikla þýðingu víða á vettvangi þjóðfélagsins.

Það er svo sannarlega tímabært að menn rifji það upp fyrir sér að þessi störf verða ekki unnin svo vel sé án hæfni, þekkingar og þjálfunar fremur en önnur störf í þjóðfélaginu. Á það hefur oft verið bent, m.a. í flutningi þingmála, ekki síst þeirra mála sem hv. 4. þm. Reykn. hefur flutt um heimilisfræðslu. Alþingi hefur æ ofan í æ sýnt vilja sinn til að einmitt því sé sinnt.

Það var hér á árum áður, ekki fyrir svo mjög löngu samt, að vart varð við það sjónarmið í sölum Alþingis að heimilisfræðsla væri nokkuð úrelt fyrirbæri, það þyrfti enga sérstaka þekkingu til að sinna heimilisstörfum. Vissulega er það svo að sérþekkingar er ekki krafist til að sinna heimilisstörfum, en það er öldungis ljóst að á þeim tímum er meiri hluti kvenna, sem veitir heimili forstöðu, vinnur úti er enn nauðsynlegra en áður að hafa þekkingu til að átta sig á hinum ýmsu flóknu fyrirbærum sem hljóta að koma fram í stjórn heimilis, bæði svo nefnd sé ræsting og matreiðsla, eins og hér hefur komið fram í umræðum, en hv. þm. Hjörleifur Guttormsson ætlar að fara í keppni í leikni sinni í þeim efnum við hv. þm. Guðrúnu Helgadóttur og ég bíð í ofvæni eftir að heyra af úrslitum þeirrar keppni. (HG: Það er í lagi að ráðherra komi líka.) Með ánægju. Ég hefði mikla ánægju af að fá að taka þátt í þessu, en mér þykir heldur leiðinlegra að vera að blanda mér í innanflokksmál Alþb.

Hvað sem því líður þarf vissulega þekkingu til að sinna einmitt þessum þáttum og ekki síst þar sem fjallað er um bæði efni og tæki sem beinlínis er hættulegt að eiga við án þess að menn viti hvernig með á að fara. Það höfum við oft heyrt og ekki síst í seinni tíð þegar vakin hefur verið athygli á hinum mikla fjölda slysa á heimilum einmitt vegna þess að þar eru bæði efni og tæki sem menn verða að vita hvernig með á að fara svo að ekki stafi hætta af.

Þá þarf ekki að nefna hið vandasama og mikilvæga starf sem felst í umönnun barna. Þó að börn séu í dagvistun að meira eða minna leyti er alveg ljóst og fjarri öllu lagi reyndar að það geti létt ábyrgðinni af foreldrum. Það eru vissulega alltaf foreldrarnir sem bæði ráða og bera ábyrgð á uppeldi barna sinna. Og við það eiga þeir að fá aðstoð m.a. með fræðslu. Þetta viðurkennir þjóðfélagið á ýmsan veg. Það er afar sérkennilegt að ekki skuli vera metið á sama hátt fjárhagslega það verðmæti sem felst í því að móðir eða foreldri sinnir sínu barni og leggur vinnu í það eins og ef hún færi í næsta hús og sinnti börnum nágrannanna. Þá fengi hún sitt kaup fyrir og væri komin út á vinnumarkaðinn eins og sagt er. Þetta ásamt fleiru minnir okkur mjög rækilega á að hér er um störf að ræða sem eru ekki aðeins mikilvæg heldur afar vandasöm og krefjast margháttaðrar þekkingar og mikillar hæfni til skipulagningar og stjórnunar. Sá þáttur þykir mér oft verða út undan í umræðum um þessi mál.

Ég vil geta þess að mér sýnist öldungis ljóst að þm. hafa með viðbrögðum sínum við þessu máli, flutningi brtt. verið að lýsa vilja sínum í þá átt að heimilisstörf verði metin til starfsreynslu að svo miklu leyti sem við á, og þá á ég við í sambærilegum störfum, auk þess sem fjmrn. hefur þegar fallist á fyrir nokkru og varðar mjög víðtækt svið. Í bréfi til allshn. Alþingis, sem ég fékk lánað áðan hjá einum hv. nefndarmanni, stendur m.a. þetta, með leyfi hæstv. forseta, og það bréf er frá fjmrn. og undirritað af Höskuldi Jónssyni:

„Í kjarasamningum ríkisins við Bandalag starfsmanna ríkis og bæja eru tvenns konar ákvæði um starfsaldur. Annars vegar telst til starfsaldurs allur sá tími sem viðkomandi hefur starfað hjá ríkinu, sveitarfélagi eða stofnunum sem kostaðar eru af almannafé, enda hafi laun verið greidd samkvæmt kjarasamningum opinberra starfsmanna. Hins vegar eru sambærileg störf hjá öðrum vinnuveitendum metin að hálfu til starfsaldurs, mest þó sex ár. Í sérkjarasamningum fjmrn. við Starfsmannafélag ríkisstofnana á s.l. hausti og fleiri aðildarfélög BSRB var ákveðið að rýmka verulega reglur um mat á störfum hjá öðrum en ríkinu þegar starfsmaður er í starfi sem ekki krefst sérhæfni. Nær þetta m.a. til húsmóðurstarfa og eru þau því metin til starfsaldurs í þessum störfum með sama hætti og störf hjá öðrum aðilum en ríkinu og sveitarfélögunum.

Eins og að framan greinir byggist mat á starfsaldri hjá ríkinu annars vegar á þjónustualdri hjá því og hins vegar starfsreynslu við sambærileg störf hjá öðrum aðilum. Með þeirri breytingu sem að framan greinir og gerð var í nýgerðum sérkjarasamningum gilda um mat á heimilisstörfum sömu reglur og um mat á launuðum störfum hjá öðrum vinnuveitendum en ríkinu.“

Hér lýkur tilvitnun í bréf fjmrn. frá 20. mars s.l. Ég fæ ekki betur séð en þarna hafi fjmrn. stigið mjög mikilvægt skref í þessu efni og þáltill. eins og sú sem hér er til umræðu er í raun og veru alls ekki nægilega vel grunduð til þess að hún komi að notum verði hún samþykkt óbreytt.

Nú eigum við kost á að velja úr margs konar breytingum og það þarf satt að segja líka sérstaka umfjöllun. Ég mun ekki fara að flytja eina ræðu um hverja brtt. Þetta sýnir að það hefur valdið mönnum töluverðu hugarvíli svo að ekki sé meira sagt hvernig í ósköpunum þeir ættu að fara að að leysa þetta mál. Þess vegna vil ég ítreka að mig stórfurðar á því þegar þm. er sagt að skammast sín fyrir afstöðu til þessa máls, fyrir afstöðu til þáltill. um mat á heimilisstörfum, þegar fyrir liggur á borðum þm. og á dagskrá á sama fundi önnur till. um mat á heimilisstörfum sem tekur á þessu máli með miklu raunhæfari hætti. Auðvitað segir sig sjálft að það þarf að vinna þetta mál miklu betur og það felst engin andstaða við mál í því að segja að það þurfi að vinna það almennilega. Í því felst hins vegar ákveðin afstaða til þess að styðja það að heimilisstörf séu metin að verðleikum í þjóðfélagi okkar. Þar sem reynsla í heimilisstörfum er raunverulega æfing í því starfi sem viðkomandi tekst á hendur á öðrum vettvangi er sjálfsagt að meta þá starfsreynslu sem þar er um að ræða og það krefst mikillar vinnu í samráði við aðila vinnumarkaðarins að gera grein fyrir því á hvaða sviðum það getur frekar orðið og með hvaða hætti það skuli gert. Þess vegna tel ég að það sé mjög skynsamlegt að taka sem allra fyrst til umræðu þá þáltill. sem hv. 4. þm. Reykn. og hv. þm. Guðmundur H. Garðarsson, í bili 10. þm. Reykv., hafa flutt. Ef það gerist mjög fljótlega tel ég að hv. Alþingi geti sparað sér nokkurn tíma vegna þess að umræður þær sem fram hafa farið um þessa till. nýtast að nokkru leyti í sambandi við afgreiðslu þeirrar till.

Ég gat ekki látið hjá líða, herra forseti, að leggja orð í belg um þetta efni. Þetta hefur verið mér mjög hugIeikið, sérstaklega þýðing þess að maður átti sig á að heimilisstörfin eru mjög vandasöm. Vel unnin heimilisstörf krefjast þjálfunar, skipulagshæfni, stjórnunarhæfni, þekkingar og kostgæfni á allan veg. Vel má það vera að einhvern tíma komi að því, sem ég hef e.t.v. áður nefnt og frægur mannfræðingur, sem hv. 11. þm. Reykv. vafalaust kannast við, skrifaði einu sinni um, en það var Margaret Meade, að e.t.v. kæmi að því, og að því er hún hélt þá fyrr en síðar, að upp kæmi ný stétt sérfræðinga í þjóðfélaginu, en það væru heimilissérfræðingar, því að það segir sig ekki sjálft að heimili, sem eiga báða forstöðumenn sína úti á vinnumarkaðnum en ekki inni á heimilinu, geti til langframa gengið án þess að einhverjir aðrir sjái um þau störf sem þar þarf að vinna. Og þó að mikið sé til af ótrúlega duglegum konum á landi okkar sem betur fer, er geta leyst þessa hluti með þeim hætti að hlutirnir gangi sæmilega, tel ég alveg nauðsynlegt að við áttum okkur á því að þessi störf inni á heimilinu þarf að vinna. Það þarf þekkingu og þjálfun til að vinna þau og það þarf að borga fyrir þau með þeim hætti að vel sé við unandi. Þetta á ekki að vera það starf sem lægst er launað í þjóðfélaginu. Ef við þurfum að ráða fólk til heimilisstarfa eða til stjórnunar á heimili okkar á það ekki að miðast við að við séum að reyna að fá allra ódýrasta vinnukraftinn í þjóðfélaginu því að hér er um að ræða mikið ábyrgðar og vandastarf.