24.03.1986
Efri deild: 64. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3257 í B-deild Alþingistíðinda. (2850)

312. mál, verkfræðingar

Frsm. (Þorv. Garðar Kristjánsson):

Hæstv. forseti. Iðnn. hefur athugað frv. það sem hér er til umræðu. Fékk iðnn. á sinn fund fulltrúa frá iðnrn. til að ræða við nefndina um frv. og gefa nánari skýringar. Enn fremur fékk nefndin á sinn fund fulltrúa frá Félagi húsgagna og innanhúsarkitekta í sama skyni. Það er svo tillaga nefndarinnar að frv. verði samþykkt.

Efni þessa frv. er um það að húsgagna- og innanhúshönnuðir fái lögverndað starfsheiti svo sem er um sambærilegar stéttir. En þetta mál á sér nokkra sögu. Frv. sama efnis var áður flutt árið 1973, en þá náði frv. einnig til auglýsingateiknara. En frv. náði þá ekki fram að ganga vegna ákveðinnar andstöðu við lögverndun starfsheitis auglýsingateiknara. Frv. sem hér liggur fyrir fjallar nú einvörðungu um húsgagna- og innanhúshönnuði og fellt hefur verið niður ákvæðið um auglýsingateiknara sem ágreiningur var áður fyrr um.

Það er enginn ágreiningur um þetta frv. í iðnn. og nefndin leggur til, eins og áður segir, að frv. verði samþykkt.