25.03.1986
Sameinað þing: 64. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3312 í B-deild Alþingistíðinda. (2920)

101. mál, fríiðnaðarsvæðið við Keflavíkuflugvöll

Forsrh. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Þessi fsp. hefur legið nokkuð lengi hér fyrir og mér sýnist ástæða til að þakka hv. fyrirspyrjanda þá biðlund sem hann hefur sýnt í þessu máli, en það hefur verið samkomulag um að reyna að upplýsa málið sem best.

Hv. fyrirspyrjandi rakti þá þál. sem samþykkt var. Ég vil geta þess að þegar forsrn. fékk hana í hendur kom það henni á framfæri við Framkvæmdastofnun og óskaði eftir því að Framkvæmdastofnun ynni það verk. Í ljós kom svo að lítið hafði verið að þessu máli unnið þannig að sú beiðni var endurnýjuð við Byggðastofnun eftir að hún tók til starfa. Það varð samkomulag með fyrirspyrjanda og mér um að veita Byggðastofnun nokkurt svigrúm til að vinna að málinu.

Nú hefur Byggðastofnun skilað allítarlegri skýrslu um málið sem ég vona að geti talist fróðleg. Hún er allt of mikil til þess að hún verði lesin hér, en ég hef afhent hv. fyrirspyrjanda þá grg. og geta að sjálfsögðu allir fengið aðgang að henni. Ég hygg þó að málið þurfi að vinnast nokkuð nánar.

Í skýrslu Byggðastofnunar eru raktar þær ástæður sem lágu að baki tillöguflutningnum. Er talið að þær röksemdir hafi haldið gildi sínu að fullu. Ekki sé að vænta vaxtar hjá þeim atvinnurekstri sem fyrir er á Suðurnesjum er nægi til að nýliðar á vinnumarkaði fái allir störf þar. Bent er á að fólksfjölgun á Suðurnesjum hefur einungis verið 0,4% á árinu 1985 og er sú minnsta um árabil.

Þá er í skýrslu Byggðastofnunar fjallað um fríiðnaðarsvæði og hvernig megi skilgreina þau. Fram kemur að til eru slík svæði af ýmsum toga. Sum eru aðeins til framleiðsluiðnaðar, en einnig eru til fríverslunarsvæði, fríbankasvæði, frítryggingasvæði o.s.frv. Talið er að til séu á annað hundrað meiri háttar fríiðnaðarsvæði í heiminum og mörg eru í undirbúningi.

Ef minni háttar svæði, eins og fríhafnir við flugvelli, eru talin með voru árið 1979 344 svæði í 72 löndum, bæði iðnríkjum og þróunarlöndum. Venjulegustu einkenni slíkra svæða eru að á þeim eru engir tollar og engar magntakmarkanir á innflutningi, ekkert gjaldeyriseftirlit og allri skýrslugerð opinberra aðila haldið í lágmarki. Mikilvægi tollfríðindanna hefur þó farið minnkandi með árunum eftir því sem fríverslun hefur rutt sér til rúms.

Í raun mun ríkja nær algert skattfrelsi á fríiðnaðarsvæðum. Til viðbótar koma svo í flestum tilfellum ódýr verksmiðjuhús og önnur fjárfesting og styrkir til þjálfunar starfsfólks, auk ýmissa frekari fríðinda.

Í skýrslu Byggðastofnunar eru talin þrjú meginmarkmið með stofnun fríiðnaðarsvæða:

1. Meiri atvinna og betri nýting annarra innlendra framleiðsluþátta.

2. Betri greiðslujöfnuður gagnvart útlöndum.

3. Innflutningur erlendrar tækniþekkingar og verkþjálfunar.

Talið er að stofnun fríiðnaðarsvæðis geti stuðlað að öllum þessum markmiðum.

Hvað sem líður markmiðunum með stofnun fríiðnaðarsvæðis stendur og fellur málið með því hvort líklegt sé að einhver erlend fyrirtæki hafi áhuga á að koma hingað miðað við þá aðstöðu og fríðindi sem skynsamlegt er að bjóða.

Mikil samkeppni er um allan heim um erlend fyrirtæki og erlenda fjárfestingu. Á fríiðnaðarsvæðum eru boðnir alls konar styrkir og undanþágur frá þeim lögum og reglum sem gilda um annan iðnað í viðkomandi löndum. Yfirleitt er boðið skattfrelsi auk tollfrelsis, aðgangs að lánsfé og útflutningsábyrgðum eða þjálfuðu ódýru vinnuafli. Einhverjar slíkar ívilnanir, auk aðstöðu í formi húsnæðis, lóða og samgangna, verður að bjóða ef reyna á að fá erlend fyrirtæki til að fjárfesta á venjulegu fríiðnaðarsvæði hérlendis.

Í skýrslu Byggðastofnunar segir að vegna hinnar hörðu samkeppni sem nú er um erlenda fjárfestingu í heiminum sé hæpið að það borgi sig fyrir Íslendinga að reyna að laða að erlend fyrirtæki með undirboðum á fjármagni eða með verulegri mismunun gagnvart innlendum fyrirtækjum hvað skatta og aðstöðu snertir. Kostnaður getur orðið enn þá meiri hér en annars staðar vegna þess að landið er langt frá stórum mörkuðum og óvíst hvort önnur aðstaða hér telst nokkuð betri.

Miðað við óbreyttar aðstæður er ályktun í skýrslu Byggðastofnunar sú að samkeppnisaðstaða Íslendinga geti varla talist sterk.

Í niðurstöðum skýrslunnar segir, með leyfi forseta: „Þótt vafalítið megi vinna meira úr sjávarafurðum okkar og auka ferðamannaþjónustu er nauðsynlegt að koma upp nýjum útflutningsgreinum sem búa við stöðuga markaði og jafnan vöxt. Slíkt verður sennilega best gert með því að efla tengsl við mikilvægustu markaði okkar og fá erlend fyrirtæki til að fjárfesta hér meira en verið hefur. Stofnun fríiðnaðarsvæðis, sem miðast við sérstakar aðstæður hér, er hugsanleg leið að þessu marki. Stjórnvöld verða þó að leggja töluvert af mörkum ef svo á að verða.

Á þessu stigi málsins skortir forsendur til að gera hagkvæmnisathugun á stofnun fríiðnaðarsvæðis, en þau eru margs konar og starfræksla þeirra hlýtur að vera hluti af almennri þróunarstefnu stjórnvalda og stefnu gagnvart þætti erlends fjármagns og fyrirtækja í atvinnulífinu.

Ef halda á könnun þessa máls áfram er fyrsta skrefið að fela ákveðnum aðila að annast framkvæmd þess. Hér getur verið um að ræða sérstakan starfshóp eða t.d. hið nýstofnaða Þróunarfélag ásamt aðilum sem fjalla um iðnþróun í landinu.

Í núverandi skipulagi Keflavíkurflugvallar er gert ráð fyrir tveimur svæðum fyrir iðnað og gæti Þróunarfélagið fengið þessar lóðir og gert þær byggingarhæfar eða jafnvel reist á þeim iðngarða sem yrðu vísir að fríiðnaðarsvæði. Einnig gæti hluti af fríiðnaðarsvæðinu verið við Straumsvík.

Sjálfsagt er að leyfa íslenskum fyrirtækjum að starfa á þessum svæðum ef framleiðsla þeirra miðast við útflutning eingöngu.

Tvísköttunarsamningar eru nú í gildi við Norðurtöndin, einn marghliða samningur sem tók gildi um áramótin 1984, og við Vestur-Þýskaland og Bandaríkin. Ljóst er að gera þarf slíka samninga við fleiri ríki, svo sem Japan og Bretland. Stofnun fríiðnaðarsvæðis kallar einnig á endurskoðun laga um starfrækslu og eignaraðild erlendra fyrirtækja í íslensku atvinnulífi.“

Ég vil taka það fram að þessi skýrsla, eins og ég sagði reyndar í upphafi, er það ítarleg að hún verður ekki rakin hér til hlítar. Ég hef aðeins látið taka saman nokkur atriði úr skýrslunni.

Ég vil einnig vekja athygli á því að þó að í skýrslunni sé sérstaklega bent á Þróunarfélagið er það sjálfstætt hlutafélag en ekki ríkisstofnun og vafasamt hvort því verður falið svona verkefni.

En með öðrum orðum: Ef ákveðið er að halda þessu verkefni áfram er áreiðanlega nauðsynlegt að fá til þess ákveðinn aðila og það er nauðsynlegt að ákveða hve langt stjórnvöld vilja ganga að veita fyrirtækjum á slíku svæði einhver sérstök réttindi. Án þess er varla unnt að gera sér grein fyrir þessum möguleikum. Ég vil hins vegar taka það fram að ég tel að það hafi verið mikilvægt að hreyfa þessu máli og er tilbúinn að stuðla að því að það verði skoðað nánar.