25.03.1986
Sameinað þing: 65. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3332 í B-deild Alþingistíðinda. (2955)

Framkvæmd framfærslulaga

Eyjólfur Konráð Jónsson:

Herra forseti. Þó að þessi umræða geti að sjálfsögðu ekki talist ánægjuleg er hún vissulega tímabær og þó að löngu fyrr hefði verið. Fyrir nokkrum árum síðan var undirrót þess ástands, sem nú er verið að ræða, einmitt að grafa um sig. Ég get þess vegna tekið undir þakkir til hv. þm. Guðrúnar Helgadóttur fyrir að vekja máls á þessu ástandi.

En það er allmikil kokhreysti í hv. þm. Svavari Gestssyni að tala um þetta sem pólitískar afleiðingar af núverandi stjórnarstefnu. Enginn maður veit betur en hann hvernig farið var með fjárhag þjóðarinnar í tíð síðustu vinstri stjórnar og raunar síðasta hálfan annan áratuginn með þeirri kolvitlausu efnahagsstefnu sem fylgt hefur verið, ofstjórnarstefnu á öllum sviðum sem girt hefur atvinnuvegina fasta og skapað áður óþekkta fátækt á Íslandi í áratugi, það er rétt.

Þetta ástand keyrði um þverbak fyrir u.þ.b. þrem árum þegar stjórn Svavars Gestssonar var að hrökklast frá. Hún hafði aukið skuldir þjóðarinnar á erlendum vettvangi svo að nam 50% af árlegum þjóðartekjum. Fátæktin var að vísu dulin að hluta til. Óréttlætið var sívaxandi, peningar voru sífellt að fara fram hjá t.d. bankakerfi og inn á svartan markað og brask og mismunur á kjörum manna sífellt að vaxa. Engu að síður var þetta meira og minna dulið með þessum stórfelldu erlendu lántökum sem við erum að súpa seyðið af núna.

Fátæktin í dag er ekki núverandi ríkisstjórn að kenna, síður en svo. Það sem blasir þó við nú er að verið er að reyna að rétta við úr verðbólgu og sukkinu með þeim kjarasamningum sem gerðir hafa verið. Það hafa verið lækkaðir skattar, þar á meðal á brýnustu lífsnauðsynjum. Það er ekki nóg að gert í því, það þarf að gera miklu meira, það er alveg ljóst. Það þarf að ganga lengra á þeirri braut. Það þarf líka að losa um peninga og hætta þeirri ósvinnu að skammta það sem aldrei má skammta, þ.e. peninga. Það má skammta kaffi eða sykur, þá fengjum við öll jafnt og gætum jafnvel lifað án þess að fá það. En það óréttlæti, sem síðustu tvær vinstri stjórnir komu á og raunar sú sem mynduð var 1971 byrjaði á þegar verðbólguflóðinu var hleypt í gang, endurspeglast nú þegar verið er að rétta við.

Það kemur úr hörðustu átt að hv. þm. Svavar Gestsson, sem meginábyrgð ber - að vísu með Framsfl. - á því sukki sem við höfum búið við um langt skeið og sumir hafa nefnt framsóknaráratug en aðrir upplausnaráratug - (SvG: En stjórnin 1977-1978, hvernig var hún?) Henni tókst að rétta við um sinn, það er rétt, hún var á vegi. En hún fylgdi líka rangri stefnu. Hún hélt áfram að leggja á neysluvörurnar skatta. Ég studdi það, held ég, með hangandi hendi. Hún var líka á rangri braut. En nú er verið að hverfa af þessari braut, að vísu ekki nógu hratt, það þarf að lækka tollana t.d. á brýnustu lífsnauðsynjum miklu meira og það þarf að losa um peningana.