25.03.1986
Sameinað þing: 65. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3337 í B-deild Alþingistíðinda. (2961)

Framkvæmd framfærslulaga

Félmrh. (Alexander Stefánsson):

Herra forseti. Það verður að harma að ekki skuli vera hægt að tala um svona alvarleg og viðkvæm mál öðruvísi en með ásökunum og æsingi sem öllum ætti að vera ljóst að leysa engan vanda.

Hér var spurt um það hvort þær upplýsingar, sem komu fram á þessari ráðstefnu, hefðu komið mér á óvart. Ég get svarað því að þær komu mér ekki á óvart vegna þess að ég hef það starf, eins og allir hv. alþm. vita, að tala við fólk sem á við alls konar vandamál að stríða. Þess vegna þekki ég málið ósköp vel.

Það var líka spurt að því hvort niðurstaða þessarar ráðstefnu hefði verið rædd í ríkisstj. Hún hefur verið rætt í ríkisstj. og það hefur verið tekin sú ákvörðun að fela Þjóðhagsstofnun, einnig með tilvísun til þeirra atriða sem hafa komið fram hjá kjararannsóknarnefnd, að gera ítarlega úttekt á því hvort þessar upplýsingar eru réttar eða ekki og fá þær meira sundurliðaðar, þannig að hægt sé að draga af þeim ályktanir sem allir yrðu þá að taka mark á.

Ég vil segja það hér í þessum ræðustól að mér finnst að það væru mjög eðlileg viðbrögð hv. alþm. að kynna sér þessi mál þannig að það væri byggt á raunverulegri úttekt og nota þá aðstöðu sem við höfum. Það hefur aldrei komið fram í þessum umræðum sú sérstaða sem er hér á landi að hér þekkist nánast ekki atvinnuleysi. Við erum ein af þeim þjóðum sem eru svo hamingjusamar að þær búa við það ástand að hjá þeim er ekki atvinnuleysi, það hafa allir atvinnu. Þetta er ekkert smáatriði inni í þessari umræðu. Þess vegna ætti að vera miklu meiri möguleiki hjá okkur sem þjóð að koma í veg fyrir það að svona þjóðfélagshópar skuli vera til, bæði í gegnum atvinnuöryggið og ekki síður í gegnum það almannatryggingakerfi sem við höfum byggt upp og er eitt það dýrasta sem við þurfum við að glíma í okkar fjárhagskerfi.

Ég held að það væri mjög eðlilegt að alþm. sameinist um það, hvort sem þeir eru í stjórn eða stjórnarandstöðu, að leggja sitt af mörkum til að láta endurskoða þetta kerfi þannig að það skili þeim sem fyrst og fremst þurfa á þessum bótum og þessum samfélagslegu aðgerðum að halda sómasamlegu viðurværi. Því miður gerir almannatryggingakerfið það ekki í dag. Það er einn þáttur í þessu.

Ég tel að það sé af hinu góða í sjálfu sér að þessar umræður hafa átt sér stað. Ég vil endurtaka það sem ég sagði áðan, við þurfum að endurskoða framfærslulögin, en við þurfum einnig að koma því betur til skila til þeirra sem sjá um kjarasamninga hér á Íslandi að það verði nú gengið í raun að því að hífa þá upp sem eru í lægstu flokkunum á kostnað hinna, ef ekki er um annað að ræða. Það held ég að hafi því miður gleymst í öllum þessum umræðum og miklu samningum sem fara fram á hinum almenna vinnumarkaði. Þetta verður að byggjast á haldgóðum og raunhæfum upplýsingum og þær upplýsingar verður hægt að fá. Ég endurtek: Það er verið að vinna að þessari úttekt núna í gegnum Þjóðhagsstofnun.