01.04.1986
Sameinað þing: 66. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3349 í B-deild Alþingistíðinda. (2976)

309. mál, vandi vegna misgengis launa og lánskjara

Félmrh. (Alexander Stefánsson):

Herra forseti. Á fundi í síðasta mánuði svaraði ég fsp. frá hv. 3. landsk. þm. um húsnæðismál þar sem var farið ítarlega inn á sama svið og hér er spurt um. Ég skýrði þar frá ýmsum ráðstöfunum sem ríkisstj. hefur unnið að og hafa verið í gangi. Ég skýrði frá starfsemi ráðgjafarstofnunar Húsnæðisstofnunar ríkisins, sem núna er orðin að stofnun, og ég skýrði frá þeim lánum og ráðstöfunum sem beinlínis eru veitt í gegnum þessa stofnun til að greiða úr vanda fólks. Ég skýrði einnig frá því að það hefur verið ákveðið og er í framkvæmd að veita þessu fólki allt að 400 þús. kr. viðbótarlán til 31 árs með sömu kjörum og önnur lán í Húsnæðisstofnun, þ.e. með niðurgreiddum vöxtum, og ég rakti í máli mínu hvernig þetta hefur virkað. Ég skýrði frá samkomulagi við bankakerfið um breytingu á vanskilaskuldum og skammtímaskuldum í föst lán allt að átta árum og ég skýrði einnig frá því að ríkisstj. hefði á prjónunum að semja við bankakerfið um enn lengri lán.

Ég ætla ekki að rekja þetta hér, herra forseti, aftur. Þessi svör eru í þingtíðindum. Hins vegar vil ég bæta því við, vegna þess að hér er spurt um aðrar ráðstafanir, að þó að það þyki e.t.v. ekki stórt í þessum umræðum vil ég benda hv. þm. á að Alþingi samþykkti ný lög um breytingu á skattalögum nr. 118 þar sem var reynt að lagfæra nokkuð í skattafrádrætti það frádráttartímabil vaxta sem er á skammtímalánum og hefur verið mikið gagnrýnt í meðferð skattamála. Frádráttartímabilið var lengt úr þremur árum í fjögur ár og úr sex árum í sjö ár. Þetta var gert ásamt fleiri atriðum sem gera þetta skilvirkara í meðferð skattamála nú á þessu ári.

Hins vegar vil ég koma inn á það sem er kannske aðalatriðið. Það er í sambandi við þá samninga sem nýlega voru gerðir milli aðila vinnumarkaðarins. Eitt í þeim samningum, sem tekur sérstaklega til þess sem hér er um spurt, er hugmyndin um sérstakan húsnæðisafslátt sem veittur yrði. Er sérstaklega tekið fram í þessu samkomulagi að þeir sem fá lánafyrirgreiðslu, þ.e. viðbótarlán til að greiða úr sínum málum, eigi rétt á húsnæðisafslætti, x kr. í y ár eins og þar stendur, talið frá byggingar- og kauptíma í stað vaxtafrádráttar ef menn kjósa það frekar, þ.e. þeir aðilar sem á árunum 1980 og síðar hafa átt í greiðsluerfiðleikum vegna húsbygginga eða húsakaupa. Í sambandi við einn aðalþáttinn í þessu samkomulagi, þ.e. þennan sérstaka húsnæðisafslátt, stendur, með leyfi forseta:

„Frá og með árinu 1986 verður þeim sem kaupa eða byggja í fyrsta sinn veittur húsnæðisafsláttur, x kr. á ári í y ár miðað við núgildandi verðlag. Afsláttur þessi miðast við hvern einstakling og dragist frá sköttum og getur verið útborganlegur. Jafnframt verði þak á afslætti í núverandi mynd 200 þús. kr. Þeir sem byggðu 1985 eða fyrr geta valið um það hvort þeir fylgja núgildandi reglum eða nýjum reglum, enda verði þeirri ákvörðun ekki breytt eftir að hún hefur verið tekin.“

Það er skemmst frá því að segja að ríkisstj. féllst á það við aðila vinnumarkaðarins að skipa sérstaka nefnd til að fjalla um þetta samkomulag varðandi húsnæðismálin þar sem þetta er eitt af þeim atriðum sem fjallað er um. Þessi nefnd tók strax til starfa og er stefnt að því að hún ljúki senn störfum þannig að það verði hægt að taka þessi mál til framhaldsmeðferðar á yfirstandandi þingi.

Ég tel mig ekki geta gefið neinar frekari upplýsingar um þetta mál að sinni, en væntanlega getur hæstv. fjmrh. skýrt málið nánar. En alla vega er þetta mál í meðferð og veit ég ekki annað en ríkisstj. sé sammála um að reyna að greiða úr þessu máli í samræmi við það sem aðilar vinnumarkaðarins komu sér saman um í þessum samningum.