01.04.1986
Sameinað þing: 66. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3354 í B-deild Alþingistíðinda. (2983)

309. mál, vandi vegna misgengis launa og lánskjara

Fyrirspyrjandi (Guðrún Agnarsdóttir):

Herra forseti. Ég neita því að málatilbúningur minn sé slæmur. Gerir ekki hæstv. fjmrh. sér grein fyrir því hvernig umrætt misgengi hefur haft áhrif á þá sem hefja húsbyggingu eða íbúðakaup á árunum 1981, 1982 og 1983 og taka til þess lán? Gerir hann sér í raun og veru ekki grein fyrir því hver áhrif ráðstöfun ríkisstj., sem veldur þessu misgengi eða í hans orðum leiðréttingu á misgengi, hefur á þennan hóp manna?

Ég hef orðið fyrir miklum vonbrigðum með þessi svör og ég held að þau hljóti að stafa fyrst og fremst af því að mennirnir gera sér ekki grein fyrir því hver vandinn er. Þeir þekkja engan sem er í þessum vanda. Þeir gætu ekki hegðað sér svona ef þeir þekktu fólk og vissu til vandræða þess. Ég trúi því ekki. Þeir ættu að kynna sér þetta betur.