01.04.1986
Sameinað þing: 66. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3355 í B-deild Alþingistíðinda. (2985)

309. mál, vandi vegna misgengis launa og lánskjara

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Í tölum hæstv. fjmrh. miðaði hann við júní 1983. Þá hafði launaskerðing núv. ríkisstj. tekið gildi. Hún tók gildi frá og með 1. júní 1983. Það er lítilmannlegt að vera að reyna að blekkja þingheim og þjóðina með talnaæfingum af því tagi sem hann flutti áðan. En það er auðvitað ekki annað en það sem maður á að venjast frá hæstv. fjmrh. Hann setur málin jafnan upp eins og hv. 4. þm. Norðurl. e. gerði grein fyrir áðan.

Aðalatriðið í þessu finnst mér vera það sem kom fram hjá hv. 3. þm. Reykn. og hefur oft áður verið rætt hér. Byrðin liggur á fólkinu áfram hvað sem öllu öðru líður. Það er kjarni málsins. Alþingi er skylt að gera ráðstafanir til að létta þá byrði. Hvenær sem hún varð til, þessi byrði, er þinginu skylt að létta henni af þessu fólki vegna þess að það var tekin um hana ákvörðun á hv. Alþingi. Ráðherrar og þm. eiga ekki að skjóta sér undan verkefnum með því lítilmannlega tagi sem ég tel að hæstv. fjmrh. hafi gert hér áðan.