16.10.1985
Sameinað þing: 3. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 36 í B-deild Alþingistíðinda. (30)

Tilkynning frá forsætisráðherra um breytingar á ríkisstjórninni

Forsrh. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Ég varð ekki var við margt sem ástæða er til að svara í þessari umræðu. Það má segja að þetta hafi verið svona eins og stormur í kaffibolla.

Það má vel vera rétt hjá hv. þm. að ekki hafi verið ástæða til þess að gera grein fyrir þessari breytingu. Þó þótti okkur það vera skylda að gera svo og ég er þeirrar skoðunar að það hafi verið sjálfsagt.

Það er rétt hjá hv. þm. að Sjálfstfl. hefur ákveðið sitt ráðherralið og það er ekki neitt nýtt í því. Þetta hefur verið gert mjög oft í sögu hins íslenska lýðveldis. Það væri hægt að rekja fyrri breytingar á ráðherradómum, þar sem viðkomandi flokkur hefur ákveðið slíkt fyrir sitt leyti. Ég vil hins vegar vekja athygli á því að ég hef hvað eftir annað lagt áherslu á að æskilegt væri að formaður Sjálfstfl. tæki sæti í ríkisstj. og það má þá a.m.k. segja að mér hefur orðið að þeirri ósk minni. Ég er eindregið þeirrar skoðunar að það styrki samstarfið á milli flokkanna og hef því talið ástæðu til að lýsa ánægju minni með þá breytingu.

Það er hárrétt hjá hv. þm. að svo er stjórnskipulag hér á landi að forsrh. ákveður ekki einn skipan ríkisstjórnar. Oft hefur verið sagt að íslenskar ríkisstjórnir eru ekki fjölskipað stjórnvald. Vel má vera að þær ættu að vera það. Vel má vera að gera ætti þær breytingar á íslenskri stjórnarskrá að þær yrðu það. Ég get að mörgu leyti tekið undir það. En það er staðreynd að svo er ekki og þess vegna einnig í fyrri tilfellum þegar orðið hafa breytingar á ráðherraliði, þá hefur það ekki verið forsrh. einn sem það hefur ákveðið.

Um ræður hv. þm. vil ég annars segja að mér þóttu þeir Alþýðuflokksmenn eitthvað bitrir í sínum ádeilum á þessa breytingu. Það má vera að það sé vegna þess að a.m.k. enn hefur Sjálfstfl. ekki tekið þeirra bónorði, en það er ómögulegt að vita hvað framtíðin leiðir í ljós í því sambandi, ég hugsa að það verði seint, en um það skal ég ekki dæma.

Ég verð að segja eins og er að mér þótti hv. þm. Hjörleifur Guttormsson tala eins og nokkuð úr öðrum heimi. Það er nefnilega hárrétt, sem kom reyndar fram í ræðu hæstv. fjmrh. og sem hefur komið mjög ítarlega fram í skrifum í Þjóðviljanum, að erlendar skuldir þessarar þjóðar jukust mjög mikið, því miður, á árunum 1980-1983. Árið 1980 voru erlendar skuldir taldar vera 30 af 100 vergrar landsframleiðslu eins og nú er miðað við, en 1983 rúmlega 51 af 100, 51,3 ef ég man rétt, af vergri landsframleiðslu. Og aukningin verður langsamlega mest á árinu 1982 því þá er viðskiptahallinn 8,4 af 100 vergrar landsframleiðslu og reyndar á árinu 1981 sem var nú með betri árum hjá okkur, rúmlega 4 af 100, á árinu 1983 hins vegar 2 af 100. Það er líka hárrétt sem þessir menn skrifa í Þjóðviljann að mjög stór hluti af þessum viðskiptahalla, þar með vaxandi erlendar skuldir, er vegna lántöku til orkugeirans, þar sem stórar áætlanir voru uppi. Út af fyrir sig eru þetta staðreyndir og ég er ekki að áfellast hv. þm. þó að megi varpa fram þeirri spurningu hvort rétt hafi verið að taka svo mikið af erlendum lánum t.d. til rannsókna sem ekki nýtast fyrr en um næstu aldamót, það er um 1 milljarður í dollurum sem við skuldum vegna þeirrar lántöku. Þarna var stórhuga maður að verki og það er alveg rétt að menn gerðu sér vonir um að þetta mundi leiða til aukins orkufreks iðnaðar þó það sé að vísu mikið umhugsunarefni hvernig það átti að ganga upp eins og viðhorf hv. þm. var til a.m.k. samstarfs við erlenda aðila. En þetta hefur brugðist. Orkufrekur iðnaður er í lægð. Því er t.d. spáð að ekki sé væntanleg fram undan veruleg hækkun á verði á áli og því er reyndar spáð að það verði miklar breytingar á markaðssetningu, eins nú er venjulega talað um, áls í heiminum þannig að þar kunni ekki að vera sá bati sem menn hafa vænst. En það breytir ekki þeirri staðreynd að það er þessi skuldabaggi sem við þurfum að létta af þjóðinni, þurfum að létta af áður en við getum tekið til hendi og bætt þannig kjörin að mikið um muni. Við þurfum að létta af þjóðinni þeim bagga að greiða nú 5800 millj. kr. á ári sem vexti af erlendum skuldum, þar af 5400 af langtímalánum.

Þetta verður ekki notað til að bæta kjörin, eins og hv. þm. lýstu hér sem meginmarkmiði og ég vil taka undir. Vitanlega er það það langtímamarkmið sem við stefnum að. Þess vegna er ákaflega mikilvægt að rata nú meðalveginn á meðan þjóðartekjur eru nokkuð hækkandi, og þá lækka þessar skuldir, þó þannig að ekki komi til atvinnuleysis eða kaupmáttarskerðingar.

Hv. þm. Svavar Gestsson ræddi nokkuð um niðurskurðarhnífinn. Hæstv. fjmrh. hefur svarað því, en ég vil þó undirstrika að við framsóknarmenn erum að sjálfsögðu eins og við höfum alltaf verið, m.a. í stjórn með hv. Alþýðubandalagsmönnum, reiðubúnir að leita leiða til þess að rekstur ríkissjóðs kosti minna, ef ég má orða það svo, að betur verði farið með fjármagn og fleira þess háttar. Og ég er enn þá samfærður um að finna má leiðir til þess. Við höfum hins vegar lagt á það ríka áherslu, og ég endurtek það, að þetta verði gert án þess að skerða þá þjónustu sem velferðarríkið veitir einstaklingunum nú.

Ég hygg að við verðum þó aftur á móti að staldra við og við getum ekki bætt og aukið þá þjónustu eins og nú stendur, á meðan við erum að losna við þann greiðslubagga sem ég nefndi áðan. Við tókum virkan þátt í þessu við gerð fjárlaganna. Ef það er hægt að ná lengra á þessari braut fögnum við því. Ég vil hins vegar láta það koma fram að ég tel að þau fjárlög sem nú hafa verið lögð fram séu að mörgu leyti tímamótafjárlög eins og þau standa. Þar er sú grundvallarstefna mörkuð að taka ekki erlend lán umfram afborganir og afgreiða hallalaus fjárlög. Það er aðalatriðið. Ef væri hægt að ná lengra með sparnaði er því vel tekið að sjálfsögðu.

Hv. þm. Svavar Gestsson hélt því fram að í þjóðhagsáætlun væri gert ráð fyrir jafnvel skertum kaupmætti á næstu árum. Það er rangt. Ég held að það sé á blaðsíðu 17 í þjóðhagsáætlun þar sem skýrt er tekið fram fyrir árið 1986 að miðað við það að hverju er stefnt með samneysluna, að hverju er stefnt m.ö.o. með ríkisútgjöldin í heild, megi gera ráð fyrir að unnt sé að gera nokkuð betur með einkaneysluna. Og einkaneyslan er náttúrlega ekkert annað en kaupmátturinn. Ég hef orðað það svo að ef tekst að standa við það sem þarna er lagt fram, sem öll áhersla verður lögð á, á að vera hægt að auka kaupmáttinn nokkuð þótt það sé sett sem meginmarkmið að lækka skuldirnar. ( SvG: Kaupmátt kauptaxta eða ráðstöfunartekna?) Kaupmátt kauptaxta. ( SvG: Kaupmátt kauptaxta?) Já.

Ég geri ekki ráð fyrir að unnt verði að ná viðskiptahallalausum þjóðarbúskap á næsta ári eða jafnvel næstu tveimur árum. Ég held að það verði of mikið og erfitt átak með tilliti til kaupmáttarins. Hins vegar eru vitanlega leiðir sem geta tryggt meiri árangur. Fyrst og fremst meiri sparnaður í þjóðfélaginu. Og sem betur fer þá horfir til þess. Sparnaður hefur aukist og ef hann heldur áfram að aukast er hægt að ná meiri árangri.

Það er alrangt, sem hér kom fram, að þjóðhagsáætlun og fjárlög séu marklaus plögg. Ég man reyndar ekki eftir neinu ári þar sem eitthvað hefur ekki brugðið út af þjóðhagsáætlun. Ég leyfi mér hins vegar að fullyrða að aldrei hafi verið lögð meiri vinna í það að vanda til þjóðhagsáætlunar en nú og þá reyndar lengra fram í tímann en nokkru sinni fyrr hefur verið gert. Ég held að enginn harmi ef hægt er að ná meiri og betri árangri en þar er gert ráð fyrir. Hins vegar hefur öllum forsendum þjóðhagsáætlunar verið stillt þannig að farið er varlega í dæmið, eins og t.d. með viðskiptakjör og fleira erlendis sem er auðvitað byggt á erlendum spám o.s.frv.

Ég skal, herra forseti, ekki lengja þessar umræður. Það er ýmislegt sem hefur komið hér fram sem mætti vissulega ræða um. En um það sem var aðalefni þessa fundar, þær breytingar sem orðið hafa á ráðherraliði Sjálfstfl., hef ég ekki heyrt nokkurn skapaðan hlut sem ég þarf að fjalla um hér og nú.