01.04.1986
Sameinað þing: 66. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3362 í B-deild Alþingistíðinda. (3003)

Um þingsköp

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Það kemur fram í athugasemd hæstv. heilbr.- og trmrh. að ekki er vanþörf á því að forsetar taki ríkisstj. í kennslustund í þingsköpum. Málið gengur ósköp einfaldlega út á það að ráðherrar geta kvatt sér hljóðs þegar þeir telja það nauðsynlegt í sínum málaflokki í þessum fyrirspurnatímum. Hins vegar er það lokað fyrir þm. að gera nema eina örstutta athugasemd.

Hv. 10. landsk. þm. Guðrún Helgadóttir gerði eina örstutta athugasemd áðan. Hæstv. heilbr.- og trmrh. veittist mjög harðlega að hv. þm. Guðrúnu Helgadóttur áðan í sinni ræðu. Hún kallar það leiðréttingu á misskilningi. Ég vil kalla það eitthvað annað. En látum það liggja á milli hluta að sinni. En hv. 10. landsk. þm. hafði ekki rétt skv. þingsköpum og venjum hér til að bera hönd fyrir höfuð sér. Það er þetta sem er nauðsynlegt fyrir hæstv. forseta að kenna ríkisstj. Ég fer fram á það við hæstv. forseta að hann hafi smákennslustund með ríkisstj. hið allra fyrsta ef það á að vera unnt að halda þessum fyrirspurnatímum áfram með þeim hætti sem ætlast var til. A.m.k. tel ég að það sé alveg sérstaklega brýnt að kenna hæstv. heilbr.- og trmrh. vissa lexíu í þessu efni.