02.04.1986
Efri deild: 68. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3400 í B-deild Alþingistíðinda. (3039)

126. mál, fjáröflun til vegagerðar

Frsm. meiri hl. (Eyjólfur Konráð Jónsson):

Herra forseti. Ég verð að játa að nákvæmar tölur hef ég ekki neinar fengið um hvað þessar brtt. frá upphaflegum brbl. þýða miklar upphæðir.

Hér kom fram í ræðu hv. þm. Eiðs Guðnasonar að hann bað fjmrh. um skýringar á einmitt því ákvæði sem síðasti ræðumaður fjallaði einna mest um, það sem kennt hefur verið við vikurflutninga en er ekki orðað þannig heldur er það miklu rýmra, það er heimildarákvæði, getur gilt jafnvel fyrir steinulI eða eitthvað annað, fiskflutninga eða eitthvað slíkt, maður veit ekkert um það. En sérstaklega óskaði einn nefndarmanna eftir því og kannske fleiri að ráðherra yrði viðstaddur þessar umræður. Það er flokksfundur í mínum flokki, en það er vafalaust hægt að ná í ráðherra þannig að umræðan geti haldið áfram. Ég held að það sé eðlilegra að hann svari því fyrst við höfum hann hér á staðnum. Hann er gagngert hér til að hlusta á þessa umræðu og svara fsp. sem til hans hefur verið beint bæði utan fundar og eins héðan úr ræðustólnum sem hníga í sömu átt og spurningarnar sem var verið að spyrja mig.

En ég segi eins og það er að við höfum ekki nákvæma útreikninga um hvað þetta geri í peningum í heild. Það voru einhverjar tölur sýndar, ágiskunartölur, og kannske gæti ég náð í eitthvað frekar í mínum plöggum, en ég er að gera mér vonir um að ráðherrann geti betur svarað því.

Annars er þá hægt að afla frekari upplýsinga fyrir 3. umr. ef þm. kærir sig um, enda veit ég að það er farið fram á það núna að slíkar upplýsingar liggi fyrir. En ef þm. er ásáttur með að ráðherrann komi í minn stað hygg ég að það sé rétt.