02.04.1986
Efri deild: 68. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3405 í B-deild Alþingistíðinda. (3054)

Um þingsköp

Helgi Seljan:

Herra forseti. Ég staðfesti það, sem hv. 5. þm. Vesturl. sagði áðan, að það var fullt samkomulag um það í nefndinni fyrir páska að við afgreiddum þetta mál jafnvel út úr deildinni á þessum degi. (Gripið fram í: Hvað segir þú?) Það var fullt samkomulag um það í nefndinni að við mundum stuðla að því. Það er hins vegar greinilegt að ríkisstj. hefur tekið önnur mál fram yfir í dag til afgreiðslu og það hefur verið haldið uppi löngum umræðum um mál sem ríkisstj. hefur lagt meiri áherslu á. Ég var reiðubúinn til að mæla fyrir mínu nál. strax kl. 2 í dag. Ég flýtti mér að skila því inn í gær til þess að unnt væri að taka það fyrir þegar í byrjun fundar í dag þannig að það stendur ekkert upp á okkur í stjórnarandstöðunni hvað þetta snertir. En ríkisstj. hefur greinilega valið önnur mál til forgangs í deildinni í dag og þetta mál hlýtur því að liggja eftir.