07.04.1986
Efri deild: 70. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3469 í B-deild Alþingistíðinda. (3098)

126. mál, fjáröflun til vegagerðar

Frsm. meiri hl. (Eyjólfur Konráð Jónsson):

Hv. forseti. Við 2. umr. um þetta mál óskaði hv. þm. Kolbrún Jónsdóttir eftir því að fá upplýsingar um nokkur atriði sem ég aflaði þá þegar, að vísu ekki glöggra upplýsinga en upplýsinga engu að síður, og kom til þm. sem að vísu er ekki mætt hér nú. Engu að síður tel ég bæði rétt og skylt að það festist í þingtíðindum að fjmrn. treysti sér ekki til að áætla nákvæmlega hver munur sé á tekjuöfluninni skv. brbl. sem hér eru til staðfestingar og hinu breytta frv., en telja þó að þetta muni ekki nema nema nokkrum prósentum, alla vega innan við 10%. Það kemur fram að lækkunin á bílum innan við 2 tonn muni nema um það bil 1 millj., en það er miklu erfiðara, telja ráðuneytismenn, að áætla um lækkunina á stóru bílunum sem aka mikið, allt yfir 45 þús. km á ári. Það byggist auðvitað á því hvernig atvinnuástand verður, hve mikið þessi tæki eru notuð o.s.frv. Því miður get ég ekki gefið gleggri upplýsingar en þetta, en hv. þm. er um það kunnugt.