04.11.1985
Neðri deild: 12. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 370 í B-deild Alþingistíðinda. (310)

21. mál, lögræðislög

Flm. (Guðrún Helgadóttir):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um breytingu á lögræðislögum nr. 68/1984 sem liggur frammi á þskj. 21. Frv. þetta flyt ég ásamt hv. þm. Kjartani Jóhannssyni, Guðmundi Einarssyni og Guðrúnu Agnarsdóttur.

Á 106. löggjafarþingi voru samþykkt lögræðislög, lög nr. 68/1984, eftir mjög svo sögulega meðferð hins háa Alþingis.

Frv. til lögræðislaga var borið fram í Ed. og allshn. Ed. samþykkti að leggja til að það yrði afgreitt frá deildinni óbreytt. Var það og gert. Frv. kom þá til Nd. og til umfjöllunar í allshn. Á fund nefndarinnar komu formaður þeirrar stjórnskipuðu nefndar sem frv. hafði samið, eins og venja er gjarnan, svo og ritari þeirrar nefndar, en bent var á að önnur stjórnskipuð nefnd væri einnig að ljúka störfum, þ.e. nefnd er gera átti tillögur um úrbætur í geðheilbrigðismálum. Þótti rétt að óska eftir að sú nefnd kæmi til fundar við allshn. þar eð nokkur ágreiningur var þar um viðkvæm atriði. Voru það fyrst og fremst ákvæði um vistun manna í sjúkrahúsi gegn vilja sínum, svo og sjálfræðis-, fjárræðis- og lögræðissviptingu.

Í frv. ríkisstj. var gert ráð fyrir að trúnaðarlæknir yrði ráðinn við dómsmrn. og hljóðaði 17. gr. frv. sem hér segir, með leyfi forseta:

„Á vegum dómsmrn. skal starfa trúnaðarlæknir sem ráðuneytið getur leitað umsagnar hjá ef þörf krefur áður en heimild er veitt til vistunar. Trúnaðarlæknir ráðuneytisins hefur jafnan heimild til að kanna ástand sjúklings sem dvelst í sjúkrahúsi gegn vilja sínum.“

Margir þm. töldu hins vegar að óeðlilegt væri að einn aðili færi með úrskurði af þessu tagi og ekki síður að nauðsynlegt væri að fylgst yrði með afnámi sviptingar þegar lækning væri fengin. Eru þess því miður dæmi að dregist hafi úr öllu hófi að svo væri gert.

Ingvar Kristjánsson geðlæknir og formaður nefndarinnar um úrbætur í geðheilbrigðismálum og nokkrir meðnefndarmenn hans komu og lögðu fram brtt. þær sem hér liggja svo til óbreyttar fyrir. Allshn. féllst á brtt. og Nd. einnig.

Frv. fór því aftur til Ed. sem hafnaði brtt. Nd. og samþykkti frv. enn eins og það var lagt fram í upphafi. Einn hv. þm., Sigríður Dúna Kristmundsdóttir, skilaði brtt. um að það yrði samþykkt eins og það kom frá Nd.

Frv. kom því enn til Nd. Þegar þetta gerðist var kominn 15. maí og vinnuálag því geysilegt hér í þinginu. Var boðað til fundar í allshn. enn á ný, en áður en sá fundur yrði haldinn kom málið á dagskrá og var afgreitt sem lög frá Alþingi áður en nefndin fengi um það að fjalla.

Í umræðum um þingsköp var bent á að nefndin ætti eftir að fjalla um málið og varð nokkur umræða um þessa afgreiðslu og margir þm. voru sammála um að hér hefðu orðið mistök. Forsrh. svo og forseti Nd. hörmuðu mistökin, en ekki þótti gerlegt að ógilda afgreiðslu frv. sem forseti hefði lýst sem lögum frá Alþingi og þar við sat.

Það varð því aldrei ljóst hver vilji meiri hl. þm. var í þessu máli, en Sþ. hefði átt um það að fjalla. Því telja flm. ástæðu til að fá nú úr þessu skorið.

Þótt nú sé liðið á annað ár frá því að lögin voru sett hefur enn ekki verið ráðinn trúnaðarlæknir, heldur hefur þessu starfi verið sinnt í hjáverkum. Má því geta nærri hvernig fylgst er með því að sjúklingur fái mannréttindi sín aftur þegar ástæða er til. Gera má ráð fyrir að í flestum tilvikum sé fyrir því séð af aðstandendum eða sjúklingi sjálfum, en til eru þeir sem svo höllum fæti standa að hvorki eru fyrir hendi aðstandendur sem um þá hirða eða þeir hafa sjálfir þrek til að takast á við dómskerfið. Það er ekki síst fyrir það fólk sem frv. er flutt.

Ég tel rétt að lesa hér, með leyfi forseta, athugasemdirnar við brtt. sem hér eru lagðar fram svo að menn átti sig á um hvað þær snúast.

Við 1. gr. er lagt til að trúnaðarnefnd dómsmrn. fjalli reglubundið um málefni allra þeirra einstaklinga sem sviptir hafa verið sjálfræði, fjárræði eða lögræði eða verið vistaðir gegn vilja sínum í sjúkrahúsi og skuli nefndin sjá til þess að sjúklingur fái mannréttindi sín aftur svo fljótt sem aðstæður leyfa.

Við 2. gr. er lagt til að í stað embættis trúnaðarlæknis við dómsmrn. komi trúnaðarnefnd er starfi á þess vegum. Nefndina skipi lögmaður, og sé hann formaður hennar, geðlæknir, sem jafnframt sé trúnaðarlæknir ráðuneytisins um læknisfræðileg málsatriði, og fulltrúi samtaka um málefni geðsjúkra sem ráðuneytið skipi skv. tilnefningu. Tekið er fram að eðlilegt sé talið að þessi nefnd sé launuð.

Það þarf engum að segja að svipting mannréttinda er einhver erfiðasta ákvörðun sem taka verður, ekki síst fyrir aðstandendur sem oft verða að óska hennar. Það er mikil ábyrgð lögð á herðar einum manni, í þessu tilviki trúnaðarlækni dómsmrn., ef ágreiningur verður og varla unnt að fela honum að fylgjast með hvernig lækningu allra þeirra, sem sviptir eru, reiðir af. Fyrir hefur komið að þeir sem engan eiga að til að fylgjast með þróun mála hafa lifað án mannréttinda áratugum saman, og skal vikið að því síðar í ræðu minni, vegna þess að aldrei var gengið frá því að aflétta sviptingu.

Mál sem þessi eru svo viðkvæm hverri manneskju að tryggja verður að hvert einasta þeirra fái viðunandi afgreiðslu og málalok sem hinum svipta eru fyrir bestu. Og aldrei má til þess koma að unnt sé að beita sviptingu mannréttinda nokkurrar manneskju í þágu annarra en hins svipta. Flm. telja að brtt. nefndar þeirrar sem gert hefur tillögur til úrbóta í geðheilbrigðismálum séu tryggari en þau ákvæði sem nú eru í lögræðislögum og því nauðsynlegt að færa þau til betri vegar.

Eins og áður sagði hefur enginn verið fastráðinn til að gegna stöðu trúnaðarlæknis dómsmrn. enn þá þó að rúmt ár sé liðið frá setningu lögræðislaga. Flm. telja því að þetta ástand sé með öllu óviðunandi og engin von til þess að með málum sé fylgst eins og rétt og skylt væri.

Í Helgarpóstinum var á s.l. sumri nokkur umræða um mál af þessu tagi. Þar var rætt við mann sem hafði verið látinn sæta öryggisgæslu árið 1943. Segir orðrétt í blaðinu, með leyfi forseta:

„Mánudaginn 16. ágúst árið 1943 var kveðinn upp dómur í aukarétti Reykjavíkur yfir 28 ára gömlum karlmanni. Sökum andlegs ástands mannsins þótti ljóst að refsing mundi ekki bera neinn árangur. Í stað hennar var manninum því gert að sæta dvöl á viðeigandi hæli. Dómurinn var ótímabundinn. Maðurinn var fluttur á Litla-Hraun. Þar átti hann eftir að eyða næstu 15 árum ævi sinnar. Að þeim loknum tók við dvöl á tveim hælum til skiptis. Þess á milli gisti hann lögreglustöðina í Reykjavík. Fyrir nokkrum mánuðum var maðurinn svo fluttur frá Gunnarsholti og vistaður á sveitabæ.“

Enn segir blaðið, með leyfi forseta:

"„Manninum var skákað á milli þriggja staða eins og oft verður um menn sem enginn veit hvað á að gera við og ekki eru til hæli fyrir í landinu.“ Þetta eru orð Baldurs Möller, fyrrverandi ráðuneytisstjóra dómsmrn., um manninn sem Helgarpósturinn segir nú frá.

Í 42 ár hefur maðurinn farið milli stofnana án þess að yfirvöld hafi getað fundið lausn á málum hans. 16. ágúst 1943 var hann atvinnulaus og heimilislaus fangi í Hegningarhúsinu í Reykjavík. Þann dag var honum gert að sæta öryggisgæslu ótímabundið. Þeim dómi hefur enn ekki verið aflétt.

Saga þessa manns er ekkert einsdæmi, en gerir glögglega grein fyrir hvernig málum þeirra er komið sem slíkan dóm fá. Flestir eru vistaðir á Litla-Hrauni. Viðeigandi stofnun er ekki til í landinu.“

Ástæðan fyrir sviptingu þessa manns er síðan rakin eins og hún gerðist á sínum tíma. Þar var um að ræða það sem við mundum í dag kalla síbrotamann sem lenti upp á kant við lögin fyrir ýmis afbrot, einkum smáþjófnaði, og einu sinni hafði hann farið ógætilega með eld í íbúðarhúsi svo að eldur braust út. En ekkert af þessum afbrotum er neitt í líkingu við þá sök sem til þarf að sitja 15 ár í fangelsi.

Ýmsir aðilar eru spurðir um þetta mál og aðspurður um hagi þessa manns segir Bjarki Elíasson yfirlögregluþjónn í sama blaði:

„Hann átti systkini, en þessi 20 ár sem við höfum haft með hann að gera hef ég ekki orðið var við neina sem vildu af honum vita. Ég vissi að honum var skipaður lögráðamaður á sínum tíma, svo sem vera bar þegar hann var sviptur sjálfræði, en ég get ekki sagt að sú manneskja hafi haft nokkur afskipti af honum.“

Í 42 ár hefur þessi maður verið sviptur mannréttindum, skráður í þjóðskrá sem óstaðsettur í húsi í Reykjavík og sjálfur segir hann: „Ég á lögheimili á lögreglustöðinni.“

Bjarki Elíasson er spurður um hvort ekki sé óeðlilegt að hann skyldi dveljast 15 ár á Litla-Hrauni eða lengur en nokkur sem dæmdur hefur verið í ævilangt fangelsi. Hann segir:

„Ég skal ekki segja um það. Það saknaði hans náttúrlega enginn. Kerfið hefur sjálfsagt verið fegið á meðan hann var þó þarna. Utan múranna var vitað að hann yrði ekki til neins gagns, meira til óþurftar. Dómur hans var ótímabundinn. Það er ekki óeðlilegt. Það er annað þegar menn eru dæmdir í fangelsisvist. Þá er ákveðinn mánaða- og árafjöldi tiltekinn.“

Í viðtali við Þorstein Jónsson deildarstjóra í dómsmálaráðuneytinu segir hann, með leyfi forseta: „Á síðustu 15 árum hafa um tíu manns verið dæmdir í öryggisgæslu á Íslandi. Þar af hafa þrír karlmenn og ein kona verið send í geðsjúkrahús á Norðurlöndum. Það er fólk sem alvarlegast hefur verið ástatt um.“

Um mál ofangreinds manns segir Þorsteinn: „Ég lít ekki svo á að hann hafi verið vistaður á vegum dómsmálakerfisins undanfarin ár, ekki síðan 1980. Hann er sjúklingur og það er heilbrigðiskerfisins að sjá um hann.“

En í öðru viðtali, við Pál Sigurðsson ráðuneytisstjóra í heilbrigðisráðuneytinu, kveður við annan tón. Hann segir:

„Ég tel að ef dómskerfið ákveður um vist manna eigi það að sjá um þá vist, bera ábyrgð á henni og heilbrigðiskerfið eigi að koma inn í umsjón með þeirri vist sem sérfræðiaðilar. Ég tel ekki að dómskerfið eigi að hafa rétt til að dæma fólk inn á sjúkrahús.“

Og að lokum, herra forseti. Gústaf Lilliendahl, forstöðumaður á Litla-Hrauni, segir í sama blaði, með leyfi forseta:

„Að mínu mati eru þessir menn staðnaðir og ekki sjáanlegt að verið sé að byggja þá upp á einn eða annan máta. Þeir eru afskiptir og lítið hugsað um þeirra hagi nema af okkur.“ - Og þá geri ég ráð fyrir að hann eigi við starfsfólkið á Litla-Hrauni.

Herra forseti. Ég hef fjallað hér nokkuð um verstu tilvikin sem vitað er um í þessum málum þar sem saman fer hirðuleysi um hagi sjúklingsins og ráðleysi varðandi læknismeðferð. Það er sorglegt til þess að vita að annað eins og þetta skuli geta gerst í þjóðfélaginu sem við búum í. Það sýnist því vera full ástæða til að tryggja að aldrei komi annað eins fyrir. Til þess er fullkomlega eðlilegt að ráða þá þriggja manna nefnd sem frv., sem hér er talað fyrir, gerir ráð fyrir þar sem lögfróðum manni, lækni og fulltrúa samtaka um geðhjálp er falið að fylgjast með afdrifum þess fólks sem svipt hefur verið mannréttindum af einhverjum orsökum.

Samkvæmt upplýsingum dómsmrn. líður vart sú vika að ekki þurfi að vista mann í sjúkrahúsi gegn vilja sínum. Slíkt væri ævinlega vandasöm ákvörðun og mikilvægt að svo sé séð til að hún sé sjúklingnum sjálfum fyrir bestu. En ekki er síður mikilvægt að fylgst sé með að sjúklingurinn fái þá meðferð sem hann þarfnast og mannréttindi sín að nýju þegar henni er lokið. Þau mál eru engan veginn í sæmilegu lagi nú.

Herra forseti. Ég vænti þess að menn taki sér tíma til að kynna sér þetta frv. vandlega og veiti því brautargengi að athuguðu máli. Ég legg til að því verði að þessari umræðu lokinni vísað til hv. allshn.