04.11.1985
Neðri deild: 12. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 382 í B-deild Alþingistíðinda. (317)

28. mál, skattafrádráttur fyrir fiskvinnslufólk

Guðrún Helgadóttir:

Herra forseti. Það er ekki laust við að aðrir hv. þm. fyllist afbrýðisemi vegna hins mikla spennings sem ríkir um mál hv. þm. Sighvats Björgvinssonar. Í Þingsjá s.l. föstudag, eins og alþjóð mátti vera vitni að, var kynnt eitt þingmál sem hann ætlar að leggja fram og 1. umr. um það mál sem hér er á dagskrá fór fram þá um kvöldið. Þetta er meiri heiður en málum annarra hv. alþm. er sýndur.

En ég er fús til að taka þátt í umræðum um þetta mál á ný og vil eins og á síðasta þingi og ég lýsti 25. mars s.l. segja að ég er andvíg þessu frv. Ég vil enn endurtaka þær meginástæður sem ég tel mig hafa fyrir því. Þær eru að mér finnst ekki sæmandi að lýsa því beinlínis yfir að það fólk sem vinnur að undirstöðuatvinnuvegi þjóðarinnar, eins og hv. þm. hér hafa sagt, sé gert að yfirlýstum fátæklingum sem ekki geti greitt skatta sína og skyldur til þjóðfélagsins á borð við annað fólk. Ég held að það verði ekki til að efla sjálfsvitund þess og sjálfsvirðingu meðal annarra vinnandi manna í þjóðfélaginu.

Því síður, í öðru lagi, finnst mér ástæða til að sameiginlegir sjóðir fólksins í landinu séu notaðir til að greiða laun fyrir atvinnurekendur. Það eiga atvinnurekendur að gera sjálfir og um það á að semja í frjálsum samningum verkalýðsfélaganna við atvinnurekendur.

Í þriðja lagi tel ég að þessi svokallaða kjarabót sé svo lítilfjörleg að hún geti ekki skipt fiskverkunarfólk neinu máli. Ég lýsti því yfir við 1. umr. um þetta mál í sjónvarpinu á föstudagskvöldið að ég lét reikna fyrir mig hver þessi kjarabót er fyrir fiskvinnslustúlku sem hefur 240 000 kr. í árslaun. Og það eru áreiðanlega rífleg laun. Þær hafa það ekki allar. Ef þetta frv. verður að lögum fær sú kona 4800 kr. greiddar í neikvæðan tekjuskatt. Hún nær nefnilega nánast engum tekjuskatti. Sú kona mundi hafa í tekjuskatt 750 kr. Ef við tökum annan starfsmann í fiskvinnslu, og við skulum vera nokkuð viss um að hann hljóti að vera karlmaður, og báðir aðilar eru með tvö börn, líka fyrra dæmið. Segjum að hann hafi haft 1984 400 000 kr. í árstekjur. Ef hann fær nú að draga 10% af tekjum sínum til tekjuskatts fær hann 28 940 kr. skattalækkun. Þessi laun, 400 000, eru áreiðanlega nokkuð rífleg líka. Þetta eru þess vegna engar þær kjarabætur sem eru þess virði að brjóta þá órjúfanlegu hefð og allan þann vilja sem margsinnis hefur komið fram í löggjöf landsins að tekjuskattur sé tekjujafnandi. Til þess var hann upphaflega. Ég get hins vegar verið sammála mörgum yfirlýsingum félaga míns, hv. þm. Guðmundar J. Guðmundssonar, um að tekjuskatturinn sé í raun og veru hættur að gegna hlutverki sínu. Það er svo önnur saga.

Sannleikurinn er sá að laun þessa fólks eru svo fyrir neðan allar hellur og þar í liggur vandinn. Ég vænti þess að hv. þm. viti að fiskverkamaður sem er búinn að vinna í 15 ár hjá fyrirtæki sínu hefur í daglaun 19 446 kr. Byrjunarlaun eru 16 932 kr. Nú skulum við segja að þau þrælalög sem fundin hafa verið upp til að reyna að hækka laun fólksins, bónuskerfið, gefi að jafnaði 30% til viðbótar. Þá getur þetta fólk kannske skriðið upp í 25 þús. kr. á mánuði. Það er þarna sem vandinn liggur. Og það var satt að segja broslegt að heyra hv. 1. flm. lýsa vanda húsbyggjenda, sem við öll þekkjum allt of vel, þar sem ljóst liggur fyrir að verið er að ræna Íslendinga eigum sínum, hreint og beint að stela af þeim því litla sem þeir eiga með þeirri vaxtapólitík sem nú er rekin, en heyra hann svo tala um að annar eins hégómi og þetta breyti einhverju til eða frá um kjör manna í landinu. Ég hlýt að spyrja þessa hv. þm. og flytjendur frv.: Hvers eiga t. d. saumakonur, sem vinna í bónus í verksmiðjum landsins, að gjalda? Hvers vegna er ekki séð til þess að þær fái einhverja ívilnun líka? Það er nefnilega misskilningur, held ég, hv. flm. að þetta frv. sé á nokkurn hátt sambærilegt við þegar tekjuskattslækkun sjómanna var sett í lög. Ég fylgdist að vísu ekki mjög með því máli þegar það var til umræðu, en ég held að það hafi ekki farið fram hjá neinum að sú ívilnun er ívilnun vegna fjarveru frá heimilunum. Hún er tilkomin til að bæta sjómönnum upp það óeðlilega líf að vera fjarri heimilum sínum obbann af árinu. Ég held því að þetta sé ekki á nokkurn hátt sambærilegt. Og ég hlýt að spyrja: Eigum við að fara út á þá hálu braut hér á hinu háa Alþingi að leysa vanda hinna ýmsu stétta þjóðfélagsins með einhverjum dúsum, sem ég leyfi mér að kalla, í stað þess að reyna að stjórna atvinnulífinu í landinu á þann veg að það sé fært um að greiða fólki laun fyrir störf sín? Mér finnst þetta frv. beinlínis vera uppgjöf verkalýðshreyfingarinnar við að semja um kaup og kjör. Það er verkefni verkalýðshreyfingarinnar að gera utan þingsala. Ég neita að taka þátt í þeirri uppgjöf með því að samþykkja frv. eins og þetta hér.

Ég sé ekki hvernig við, hv. alþm. þjóðarinnar, getum ákveðið að ein stétt sé svo mjög verðugri en aðrar stéttir að það beri að hlífa henni að einhverju leyti við að greiða til sameiginlegra þarfa þjóðfélagsins. Ég tel að það sé næstum því móðgun við þetta sama fólk og ég efast um að það hafi um það beðið. Satt að segja efast ég líka um að það geri sér grein fyrir hvað þetta frv. mundi hafa í för með sér í raun og veru ef það yrði að lögum. Ég vil sem allra lengst halda mig við það, og tala þar bara fyrir mig, að langeðlilegast sé að samið sé um kaup og kjör með viðræðum um frjálsa samninga. Mér finnst þetta frv. bera keim af þeirri þróun, sem virðist vera að verða, að Vinnuveitendasamband Íslands leggi fyrir Alþingi hvað gera skuli í kjaramálum þannig að við getum „unnið okkur út úr vandanum með þjóðarsátt“ eins og formaður Sjálfstfl., hæstv. fjmrh., svo oftlega orðar það.