08.04.1986
Sameinað þing: 70. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3525 í B-deild Alþingistíðinda. (3174)

Um þingsköp

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Í tilefni af þessari umræðu er óhjákvæmilegt að koma nokkrum efnislegum upplýsingum á framfæri og rifja það upp að 30. nóv. s.l. og 1. des. var haldin ráðstefna þm. allra þingflokka á þjóðþingum Norðurlandanna um kjarnorkuvopnalaus svæði á Norðurlöndum. Þátttakendur í þeirri ráðstefnu voru m.a. þm. frá öllum þingflokkum á hv. Alþingi. Við lok ráðstefnunnar var gefin út fréttatilkynning af mjög stórum hluta fulltrúa á þessari ráðstefnu, þ.e. fulltrúum sósíaldemókratanna, þar sem því var lýst yfir að í fyrsta lagi mundu sósíaldemókrataflokkarnir beita sér fyrir því að skipuð yrði norræn embættismannanefnd á vegum ríkisstjórnanna til að athuga og undirbúa tillögur varðandi kjarnorkuvopnalaus svæði á Norðurlöndum og í öðru lagi lýstu sósíaldemókratísku flokkarnir á Norðurlöndum því yfir að þeir mundu beita sér fyrir vinnu þeirra stjórnmálaflokka, sem eiga fulltrúa á þjóðþingum Norðurlandanna, um þetta sérstaka mál.

Þegar þessi yfirlýsing sósíaldemókrataflokkanna hafði verið birt fjölmiðlum, m.a. í fréttatilkynningu og á blaðamannafundi, kom fram yfirlýsing frá fulltrúum fjölda margra annarra flokka á ráðstefnunni í Kaupmannahöfn sem lýstu stuðningi við yfirlýsingu sósíaldemókrata. Í þeim hópi voru miðflokkarnir sem áttu fulltrúa á þessum fundi. Í þeim hópi voru þm. Alþb., Samtaka um kvennalista og Bandalags jafnaðarmanna.

Þeir sem sóttu ráðstefnuna af Íslands hálfu voru frá öllum flokkunum, eins og ég sagði áðan, og það kom í rauninni fram samþykki við niðurstöður sósíaldemókratanna frá meiri hluta þeirra fulltrúa sem á ráðstefnunni voru þó að hún út af fyrir sig greiddi ekki atkvæði um eitt eða neitt. Þess vegna liggur fyrir hver er afstaða einstakra þm. sem þarna voru og væntanlega flokka þeirra í langflestum tilfellum. Þeir eru sömu skoðunar og meiri hluti danska þjóðþingsins í þessu máli að skipa beri norræna embættismannanefnd á vegum utanríkisráðuneytanna til að fara yfir þetta mál.

Þetta vildi ég segja í fyrsta lagi, herra forseti, til að skýra málið, en í öðru lagi minna hæstv. forseta og hv. Alþingi á að fyrir ári eða svo var gerð samþykkt í utanríkismálum á Alþingi Íslendinga, sem er mjög sögulegur og einstæður atburður eins og sú ályktun var úr garði gerð, og hlaut víðtækan stuðning. Að mínum dómi, og ég hygg ýmissa annarra þm., væri það eitt í samræmi við þá samþykkt að Alþingi Íslendinga og ríkisstj. styddu þá hugmynd, sem meiri hluti danska þjóðþingsins samþykkti á fundi sínum í síðustu viku, að sett verði niður embættismannanefnd til að fara yfir þessi mál. Þess vegna sé ég ekki hverju það sætir að það þurfi að fara að setja af stað upplýsingasöfnun um þessi mál sérstaklega eða þessa ákveðnu samþykkt danska þjóðþingsins út af fyrir sig vegna þess að þetta mál hefur verið rætt og menn hafa áður myndað sér skoðanir á þessu máli.

Nú er það svo, herra forseti, að á morgun er fundur utanríkisráðherra Norðurlanda. Utanrrh. Íslands sækir þann fund. Og þess vegna er tilefnið komið, hið sérstaka tilefni skv. þingsköpum, að þm. vilji ræða málið hér áður en hæstv. utanrrh. fer á þann fund þannig að sjónarmið komi fram í umræðum á hv. Alþingi með einhverjum hætti. Ég hygg að það væri utanrrh. styrkur að vita tvímælalaust hver er vilji þingsins og viðhorf í þessu efni nema það sé eitthvað sem utanrrh. óttist í sambandi við þetta mál, en þá væri fróðlegt að vita hvað það er sem hann hugsanlega er hræddur við.

Ég tel það ekki málsástæðu í þessu efni, herra forseti, sem forsetinn bar fram hér áðan, að útbýtt hefði verið skýrslu utanrrh. Með fullri virðingu fyrir þeirri skýrslu tel ég að það komi þingskapaumræðunni ekki við vegna þess að þessi skýrsla er sérstakt þingmál sem fær sérstaka umræðu með ákveðnum hætti og sú umræða getur ekki komið í veg fyrir að það hefjist utandagskrárumræður um einstök mál skv. þingsköpunum eins og þau nú eru þegar sérstaklega stendur á, en það stendur sérstaklega á, óumdeilanlega að mínu mati, með þessa umræðu hér.

Ég tel einnig athyglisvert að í röksemdum sínum fyrir því að hafna utandagskrárumræðu flytja forseti og hæstv. utanrrh. fram efnisleg almenn rök í þessu máli en ekki eingöngu þingskaparök. Ég tel að það sé hlutverk forseta að gæta þingskapa og reglna á hv. Alþingi, en ég tel að það sé í rauninni ekki hlutverk hans frekar en annarra hv. þm., sem eru 60 talsins, að dæma um það hvort pólitísk málsástæða er gild eða ekki. Þetta segi ég með fullri vinsemd við hæstv. forseta og bið hann að misskilja ekki mál mitt en ég tel að það sé gæsla þingskapa og þingreglna sem er hans hlutverk en ekki sé hans hlutverk að gæta pólitískra málsástæðna á hverjum tíma.

Ég vil þess vegna, herra forseti, mótmæla þeim úrskurði sem forseti hefur fellt um að hafna utandagskrárumræðu. Ég mótmæli honum með þeim rökum sem ég hef þegar flutt. Ég hef gert grein fyrir þungum rökum gegn þeim úrskurði og ég verð að leyfa mér að vona að þessi úrskurður hæstv. forseta Sþ. verði að þessu sinni ekki til þess að spilla eðlilegum friði um þinghaldið það sem eftir lifir af þessu þingi.