05.11.1985
Sameinað þing: 11. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 395 í B-deild Alþingistíðinda. (324)

41. mál, kennsluréttindi kennara í framhaldsskólum

Fyrirspyrjandi (Guðrún Agnarsdóttir):

Herra forseti. Ég vil þakka ráðherra svör hans. En það kemur það sama upp á teninginn og þegar spurt var hér um daginn um réttindi þeirra sem kenna í grunnskólum. Það er hættuleg þróun, sem virðist taka ör skref á þessum síðustu mánuðum, að þeir sem hafa full réttindi flýja úr kennslu, hvort heldur sem hún er í grunnskólum eða framhaldsskólum. Ég vil ítreka orð mín áðan, sérstaklega hvað varðar greinar eins og stærðfræði, tölvufræði, viðskiptagreinar, rafeindagreinar og ýmsar aðrar sérgreinar iðnfræðslu. Þarna er greinilega mikill flótti yfir á einkamarkaðinn.

Áfram vil ég vitna í þá grein sem ég áður gat um, en það eru lokaorð greinarinnar:

„Þótt ekki hafi verið unnið endanlega úr þessari könnun Hins íslenska kennarafélags þykir ljóst að ástandið í ráðningarmálunum er mun alvarlegra en svipurinn á yfirvöldum menntamála þegar þau ræða þessi mál í fjölmiðlum. Smánarlaunin sem kennurum bjóðast fæla þá frá sem auðveldlega ganga í mun betur launaða vinnu annars staðar og hætt er við að ástandið versni enn ef ekki rætist úr kjaramálum stéttarinnar. Þetta virðist vera þar sem meinið liggur, að kjör og vinnuaðstaða kennara eru ekki slík að þeir sæki í kennslu.“

Þetta er mjög alvarleg þróun. Og ég vil enn fá að vitna, með leyfi forseta, í ályktun, sem gerð var á fundi fulltrúaráðs Kennarasambands Íslands, þar sem segir:

„Kennarasamband Íslands hefur ítrekað varað stjórnvöld við því að léleg laun kennara stefni skólastarfi og menntun í landinu í verulega hættu. Ekki hefur tekist að ráða kennara í allar lausar stöður við grunnskóla og framhaldsskóla sem mun að líkindum leiða til þess að skerða verður lögboðna kennslu fjölmargra nemenda næsta skólaár. Fjöldi starfandi kennara leitar eftir betur launuðum störfum þannig að búast má við áframhaldandi flótta úr kennslustörfum. Ungt fólk lítur vart lengur á kennslu sem lífvænlegt ævistarf. Til marks um það sóttu nær helmingi færri stúdentar um inngöngu í Kennaraháskóla Íslands í ár en undanfarin ár. Fulltrúaráð Kennarasambands Íslands skorar á ríkisstjórnina, og þá sérstaklega menntmrh. og fjmrh., að bæta launakjör kennara verulega þannig að kennarar fáist til kennslu. Að öðrum kosti er menntakerfið í hættu með ófyrirsjáanlegum afleiðingum.“

Ég vil gera þessi síðustu orð að mínum og lýsa ábyrgð á hendur ríkisstj. og menntmrh. að snúa þessari þróun við.