05.11.1985
Sameinað þing: 11. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 396 í B-deild Alþingistíðinda. (326)

29. mál, fé tannverndarsjóðs

Heilbr.- og trmrh. (Ragnhildur Helgadóttir):

Herra forseti. Fyrirspurn hv. þm. um það hvernig fé tannverndarsjóðs hefur verið varið á s.l. ári og hvernig því verði varið á næsta ári má svara svo:

Á árinu 1984 voru tekjur tannverndarsjóðs, þ.e. 1% framlag af tannlæknakostnaði sjúkratryggingadeildar Tryggingastofnunar ríkisins, 1 246 500 kr. Gjöld sjóðsins voru þessi: Útgáfustarfsemi á vegum heilbr.- og trmrn. 300 000 kr., styrkir vegna rannsókna 173 600 eða samtals 473 600 kr. Vaxtatekjur voru 330 107 kr. og tekjur umfram gjöld því 1 103 007 kr. Skv. upplýsingum frá Tryggingastofnun ríkisins, sem hefur vörslu tannverndarsjóðs, var bráðabirgðarekstrarreikningur sjóðsins frá janúar til september 1985 þannig, að framlag úr sjóðnum frá sjúkratryggingadeild var 1 190 330 kr. Gjöld voru þannig, að til heilbr.- og trmrn. vegna útgáfustarfsemi fóru 500 000, til tannlæknadeildar Háskóla Íslands vegna rannsókna og tækjakaupa 299 668 kr. eða samtals úthlutað úr sjóðnum 799 668 kr. Tekjur umfram gjöld áður en vextir eru reiknaðir voru því í byrjun október 390 662 kr. Ákvarðanir hafa ekki enn verið teknar um það hvernig fé sjóðsins verður varið að öðru leyti á þessu eða næsta ári.