10.04.1986
Neðri deild: 75. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3657 í B-deild Alþingistíðinda. (3345)

405. mál, heilbrigðisfræðsluráð

Flm. (Guðrún Agnarsdóttir):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um heilbrigðisfræðsluráð, sem er 405. mál þessa þings á þskj. 749 en flm. eru Guðrún Agnarsdóttir og Kristín Halldórsdóttir. Ástæðan fyrir flutningi þessa frv. er fyrst og fremst sú að flutningsmönnum þykir nauðsynlegt að samræma og skipuleggja betur en nú er það brýna verkefni sem heilbrigðisfræðsla er og gefa því vel skilgreinda lagalega stoð sem tryggir henni þann sess og þá fjármögnun sem henni sannarlega ber.

Velflestar hinna efnaðri þjóða heimsins, þar á meðal Íslendingar, verja miklu fjármagni til að viðhalda og fullkomna stöðugt flóknara kerfi tæknivæddrar heilbrigðisþjónustu. Sem betur fer hefur það leitt til þess að hægt er að greina og jafnvel lækna æ fleiri sjúkdóma. Þó er fjármunum jafnframt beint í vaxandi mæli að því að lengja líf dauðvona sjúklinga án þess þó að lífslengd þeirra sé aukin að marki eða að líf þeirra verði bærilegra. Tæknivæðing hefur líka leitt af sér aukna notkun tækni án þess að nægilegrar gagnrýni hafi gætt eða að gætt hafi verið að því hvort tækninotkunin sé í samræmi við þau markmið sem heilsugæslan setur sér.

Stofnunum heilbrigðisþjónustunnar hefur fjölgað og þær stækkað, starfslið aukist og kostnaður margfaldast. Heilbrigðisþjónusta er hjá velflestum velferðarþjóðfélögum fjárfrekasti útgjaldaliður ríkissjóðs þeirra og hefur orðið stjórnvöldum vaxandi áhyggjuefni. Ef miðað er við hlutfall af þjóðarframleiðslu hefur þessi kostnaður hækkað hérlendis úr 3% árið 1950 í rúm 8% árið 1982. Þó að þetta hlutfall hafi verið um 10% s.l. 34 ár er þó ekki um að ræða raunhækkun frá árinu 1982 heldur hækkun sem verður fyrst og fremst vegna minni þjóðarframleiðslu.

Ef við lítum t.d. á skiptingu kostnaðarins 1980 milli hinna ýmsu þátta heilbrigðisþjónustunnar þá var hann á þessa leið: Sjúkrahús 52%, hjúkrunarheimili og þess háttar 13%, læknisþjónusta, tannlækningar og lyf 23%, stofnframkvæmdir 6%, en heilsugæslustöðvar ekki nema 6% þannig að það má glögglega sjá af þessari kostnaðarskiptingu hvert meginfjármagn heilbrigðisþjónustunnar rennur.

Menntun flestra heilbrigðisstétta miðar fyrst og fremst að því að greina og bregðast við sjúkdómum, beinist m.ö.o. mun meira að björgunarstarfi eða viðgerðarþjónustu en heilbrigðisfræðslu eða heilsuvernd. Þó hafa á s.l. árum vaknað efasemdir um það hvort þessi forgangsröð sé rétt og viðleitni ýmissa aðila innan sem utan heilbrigðisþjónustunnar hefur beinst að því að leggja meiri áherslu á heilbrigðisfræðslu og ýmsar fyrirbyggjandi aðgerðir í því skyni að draga úr þörf fyrir hina dýru viðgerðarþjónustu. Má í því sambandi geta þess að Íslendingar eru aðilar að Alma-Ata yfirlýsingunni sem fjallar um frumheilsugæslu og er birt með þessu frv. sem fskj. Sú yfirlýsing er í samræmi við meginstefnu Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar frá 1977 um heilbrigði öllum til handa árið 2000. Í framhaldi af því hafa Íslendingar gerst aðilar að samvinnuáætlun Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar og Evrópuþjóða um varnir gegn langvinnum sjúkdómum og var samningur undirritaður af heilbr.- og trmrh. fyrir hönd ríkisstjórnar Íslands 10. febrúar 1984.

Með langvinnum sjúkdómum er hér átt við t.d. hjarta- og æðasjúkdóma, krabbamein, slys, geðræna sjúkdóma, þar með talin áfengis- og fíkniefnaneysla, auk ýmissa annarra sjúkdóma.

Snar þáttur þessarar samvinnuáætlunar er almenn fræðsla og upplýsingar svo og aukin menntun heilbrigðisstarfsfólks og kennara og aukin fræðsla í skólum.

Sú vitneskja er að verða almennari að orsakir margra þeirra sjúkdóma, sem okkur eru einna skæðastir, megi rekja til lifnaðarhátta, umhverfis og næringar svo að eitthvað sé nefnt. Meðal fátækra þjóða ríkja smit- og hörgulsjúkdómar en meðal ríkra þjóða er heilbrigðisvandinn oft afleiðing velmegunar, eins og umhverfismengun, kyrrseta, ofnotkun tóbaks, áfengis og annarra vímuefna, ásamt slæmum matarvenjum. Þessir þættir ásamt öðrum leiða svo til ýmissa þeirra sjúkdóma sem heilbrigðisþjónustan þarf nú að kljást við. Hægt er að koma í veg fyrir þessa sjúkdóma og besta vörnin gegn þeim er fræðsla, fræðsla sem virkjar einstaklingana sjálfa til að finna til ábyrgðar gagnvart eigin heilbrigði og löngunar til að viðhalda henni.

Almennri heilbrigðisfræðslu hefur verið í ýmsu ábófavant hér á landi. Heilsufræði hefur verið kennd í skólum að vísu, en þó mjög misvel, t.d. hefur fræðsla um kynlíf og getnaðarvarnir í grunnskólum víða verið vanrækt. Á þessu mun þó vonandi verða ráðin bót vegna þess að á árunum 1984-1985 hefur Ísland tekið þátt í norrænu verkefni um heilbrigðisfræðslu í grunnskólum og hefur það gengið undir nafninu SPIN-verkefnið. Markmið þess er að þróa heilbrigðisfræðslu í þátttökulöndunum og að móta sameiginlega stefnu landanna í málefnum heilbrigðisfræðslu og heilsuuppeldis. Verkefnið byggist á skilgreiningu Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar frá árinu 1948, en það gerir Alma-Ata yfirlýsingin reyndar líka. Samkvæmt henni er heilbrigði skilgreint sem fullkomin líkamleg, andleg og félagsleg vellíðan en ekki einungis það að vera laus við sjúkdóma eða veiklun. Slík heilbrigði er talin til grundvallarmannréttinda.

Viðhaldsfræðsla almennings um heilbrigðismál hefur verið handahófskennd. Stofnanir eða embættismenn á vegum hins opinbera, áhugasamir einstaklingar, félög og samtök heilbrigðra og sjúkra hafa að vísu gefið út ágætis fræðsluefni og jafnvel fylgt því eftir með kennslu eða áróðri. Er vert í þessu sambandi að lofa hið mikla og góða starf sem þegar hefur verið unnið í þessum efnum. Hins vegar hefur samræmda og skipulega fræðslu vantað og hún hefur ekki verið á ábyrgð neins ákveðins aðila heldur miklu fremur margra ólíkra aðila og þá aðeins sem hluti af miklu stærra verksviði þeirra.

Í lögum um heilbrigðisþjónustu, nr. 59 frá 1. júní 1983, er heilsuvernd skilgreind sem þjónusta er heilsugæslustöð á að veita en ein af aðalgreinum heilsuverndar er þar talin - og ég vitna, með leyfi forseta: „Heilbrigðisfræðsla í fyrirbyggjandi tilgangi.“ Og er þetta fyrsta atriðið reyndar í þeirri upptalningu.

Það er bæði eðlilegt og ágætt að heilsugæslustöðvar hafi þetta hlutverk en þær eru enn of fáar og þangað sækja fáir sem heilbrigðir eru. Því nær fræðsla þeirra ekki til alls þorra almennings.

Í lögum um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit, nr. 50 frá 29. maí 1981, er ákvæði um að veita „alhliða fræðslu og upplýsingar fyrir almenning“ um þau mál er varða hollustuhætti í umhverfi. Þetta fræðsluhlutverk er á höndum heilbrigðisnefnda og heilbrigðisfulltrúa. Fræðsluhlutverk er nánar tiltekið síðar í sömu lögum í kafla um Hollustuvernd ríkisins en þar eru ákvæði um fræðslu fyrir almenning, heilbrigðisfulltrúa og aðra þá aðila er að þessum málum starfa í landinu.

Hollustuvernd ríkisins er ung stofnun og hefur átt við erfiðleika að etja vegna þess að deildir hennar eru dreifðar í Reykjavík. Verksvið hennar er vítt og minna hefur orðið úr fræðsluhlutverki hennar en skyldi þar sem önnur verkefni hafa tekið mikinn tíma og fjármagn hefur skort.

Í ýmsum lögum eru svo ákvæði um fræðslu um tiltekin efni, t.d. um kynlíf og barneignir, lög nr. 25 frá 22. maí 1975, um tóbaksvarnir, nr. 74/1984 o.s.frv. Enn fremur segir í lögum um heilsuvernd í skólum, nr. 61 frá 8. júní 1957, með leyfi forseta:

„Í reglugerð skal ákveðið um ... heilbrigðisfræðslu í skólum ...“

Fræðsla um heilbrigðismál er afar víðtækt viðfangsefni og heyrir þar undir hvað eina það sem stuðlar að heilsuvernd og getur komið í veg fyrir slys og sjúkdóma. Heilbrigðisfræðsla hefur verið skilgreind sem sérhver fræðsla er hefur það markmið að einstaklingar taki sjálfviljugir þátt í því að auka heilbrigði sína. Slík fræðsla og sú vitneskja og leiðbeining, sem hún veitir, heyrir til mannréttinda. Hennar er æ meiri þörf í flóknu lífsmunstri tækniþjóðfélaga þar sem óhollusta steðjar að í margvíslegu gervi.

En fræðslan ein sér nægir þó ekki til þess að tryggja það að einstaklingarnir geti tekið ábyrgð á eigin heilsugæslu. Þeim verður jafnframt að vera það kleift efnahagslega og félagslega að velja sér lifnaðarhætti í samræmi við þá heilbrigðisfræðslu sem stunduð er. Stjórnvöld hafa því mikilvægu hlutverki að gegna í þessum efnum. Þau verða að vera vel meðvituð um hagsmuni heilbrigðisfræðslu þegar þau móta stefnu sína og taka ákvarðanir og gæta þess jafnframt að allir þættir stjórnsýslunnar séu samvirkir til að ná markmiði um heilbrigðisfræðslu því að í raun er heilbrigðisfræðsla og heilsuvernd ekki á færi eins ráðuneytis sem slíks. Heilbrrn. eitt getur ekki staðið undir því víðtæka viðfangsefni sem heilsuvernd er. Þar þurfa allir hinir ólíku þættir stjórnsýslunnar að koma að.

Í seinni tíð hefur frumkvæði heilbrigðra einstaklinga til heilsuverndar og heilsuræktar farið vaxandi og aukinnar meðvitundar gætir um mikilvægi heilbrigðra lífshátta. Það er því sennilegt að jákvæð viðhorf og áhugi á heilbrigðisfræðslu séu að aukast meðal almennings, skólayfirvalda og heilbrigðisyfirvalda. Slík fræðsla er þó enn of tilviljanakennd og háð framtakssemi fárra áhugasamra aðila sem hafa of lítil innbyrðis tengsl.

Það er skoðun flutningsmanna að brýnt sé að samræma og skipuleggja aukna heilbrigðisfræðslu á Íslandi og því sé nauðsynlegt að stofna heilbrigðisfræðsluráð sem er að sjálfsögðu einn af mörgum þáttum sem þarf að taka á til þess að ná þeim markmiðum sem ég gat um áðan.

Ég vil lesa, með leyfi forseta, greinar þessa frv. og athugasemdir við þær. Í 1. gr. segir:

„Ríkið starfrækir stofnun sem nefnist heilbrigðisfræðsluráð.“

Og í athugasemd við þá grein segir:

„Samræmda og skipulega fræðslu um heilbrigðismál vantar hérlendis. Heilbrigðisfræðsla hefur ekki verið aðalviðfangsefni eða á ábyrgð neins ákveðins aðila“ - eins og ég gat um áðan - „heldur margra ólíkra og þá aðeins sem hluti af miklu stærra verksviði þeirra. Skortur á fjármagni til aðalstarfsemi þessara aðila hefur allt of oft leitt til þess að fræðsluhlutverkið hefur orðið út undan.

Útgjöld ríkisins vegna heilbrigðismála hafa farið vaxandi á s.l. áratugum. Þessi kostnaðaraukning hefur fyrst og fremst orðið í rekstri sjúkrahúsa og annarra stofnana heilbrigðisþjónustunnar“ - og vil ég þá vitna til þeirra talna sem ég hafði hér áðan. „Hins vegar hefur í raun orðið hverfandi lítil hækkun á framlagi ríkisins til heilbrigðisfræðslu þrátt fyrir þá vitneskju að miklu hagkvæmara sé að koma í veg fyrir sjúkdóma en að lækna þá. Það er því löngu orðið tímabært að taka afdráttarlaus skref til að snúa þessari þróun við og leggja ríkari áherslu á heilbrigðisfræðslu en áður. Slík áherslubreyting krefst þess að heilbrigðisfræðsla sé ótvírætt á ábyrgð einhvers eins aðila eða stofnunar sem hefur ekkert annað hlutverk með höndum. Þannig er tryggara að þessu brýna viðfangsefni verði sinnt sem skyldi. Ágæt starfsemi hefur nýlega verið skipulögð hérlendis af hálfu heilbrigðisyfirvalda vegna samvinnuáætlunar Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar og Evrópuþjóða um varnir gegn langvinnum sjúkdómum fram til aldamóta.

En verkefni fyrir heilbrigðisfræðslu eru nær óþrjótandi og akurinn svo lítt plægður í þessum efnum að það er rúm fyrir margar hendur á plógi og nauðsynlegt að heilbrigðisfræðsla eigi sér vel skilgreinda lagalega stoð sem tryggi henni þann sess og þá fjármögnun sem henni ber.“

Í 2. gr. frv. segir:

„Heilbrigðisfræðsluráð skal annast heilbrigðisfræðslu sem miðar að því að koma í veg fyrir sjúkdóma og slys. Það skal samræma og skipuleggja heilbrigðisfræðslu fyrir almenning í landinu í samvinnu við stjórnendur heilbrigðis-, skóla- og félagsmála og önnur stjórnvöld. Það skal enn fremur koma á samvinnu milli allra þeirra sem annast heilbrigðisfræðslu.

Heilbrigðisfræðsluráð skal vera miðstöð þekkingaröflunar. miðlunar og sérkunnáttu á öllum sviðum heilbrigðisfræðslu þannig að ráðgjöf sé þar alltaf tiltæk fyrir heilbrigðis- og skólayfirvöld, áhugamannafélög og alla þá sem fást við heilbrigðisfræðslu.“

Í athugasemdum um 2. gr. segir:

„Rannsóknir s.l. ára hafa leitt í ljós að margir þeir sjúkdómar, sem mönnum eru skæðastir, eiga rót sína að rekja til lifnaðarhátta og umhverfis og eru orsakir þeirra fjölþættar. Með því að breyta lifnaðarháttum og umhverfisþáttum er hægt að koma í veg fyrir marga sjúkdóma. Heilbrigðisfræðsla varðar því flesta þætti mannlegs lífs og hana þarf að skipuleggja í náinni samvinnu við marga aðila. Því þykir eðlilegt að stjórnendur heilbrigðis-, mennta- og félagsmála eigi sérstaklega náið samstarf við skipulagningu slíkrar fræðslu þar sem þeir málaflokkar tengjast svo beint viðfangsefnum heilbrigðisfræðslu.“

En eins og ég sagði áður: Fræðslan ein sér nægir þó ekki til þess að tryggja það að einstaklingurinn taki ábyrgð á eigin heilsugæslu. Honum verður jafnframt að vera það kleift efnahagslega og félagslega að velja sér lifnaðarhætti í samræmi við þá heilbrigðisfræðslu sem stunduð er og honum er ætlað að fylgja. Það er því nauðsynlegt að stjórnvöld séu vel meðvituð um hagsmuni heilbrigðisfræðslu þegar þau taka ákvarðanir og móta stefnu sína. Jafnframt er mikilvægt að allir þættir stjórnsýslunnar séu samvirkir til að ná markmiðum heilbrigðisfræðslu. Margir ólíkir aðilar hafa haft með höndum heilbrigðisfræðslu á s.l. árum og er vaxandi áhugi meðal almennings á heilbrigðu líferni og þörf fyrir slíka fræðslu. Það er því mikilvægt að tiltæk séu nauðsynleg kennslugögn og ráðgjöf í þessum efnum, bæði fyrir opinbera aðila, áhugamannafélög og aðra þá sem fást við heilbrigðisfræðslu.

Í 3. gr. frv. segir:

„Heilbrigðisfræðsluráð skal ráðleggja um forgang viðfangsefna í heilbrigðisfræðslu á grundvelli bestu upplýsinga sem fyrir liggja hverju sinni. Heilbrigðisfræðsluráð skal stuðla að rannsóknum og könnunum til að tryggja að nýjar upplýsingar og tölfræðilegar niðurstöður séu ávallt fyrir hendi. Heilbrigðisfræðsluráð skal afla upplýsinga um framfarir á læknis-, farsóttar-, félags- og sálfræðilegu sviði og hagnýta þær í þágu starfsemi sinnar. Enn fremur skal ráðið reyna að meta árangur starfsemi sinnar með hliðsjón af framförum á þessum sviðum.“

Í athugasemdum við 3. gr. segir:

„Nauðsynlegt er að heilbrigðisfræðsla á hverjum tíma sé byggð á sem réttustum og bestum upplýsingum. Það er því nauðsynlegt fyrir heilbrigðisfræðsluráð að fylgjast vel með framförum á mörgum ólíkum sviðum sem varða viðfangsefni hennar. Enn fremur skal ráðið takast á hendur og styðja rannsóknir og kannanir hérlendis sem gefa upplýsingar og haldbærar niðurstöður um ástand mála á þeim sviðum sem heilbrigðisfræðsla nær til. Ráðið skal gefa út niðurstöður slíkra rannsókna eða kannana þegar það á við. Nauðsynlegt er að heilbrigðisfræðsluráð reyni að meta hvern árangur starf þess ber með því að fylgjast með sjúkdómatíðni, breytingum á lífsháttum (sem dæmi má taka reykingar) og fleiru því sem hafa má til viðmiðunar.“

Í 4. gr. frv. segir:

„Heilbrigðisfræðsluráð skal standa að kynningu á einstökum málefnum er varða heilbrigðisfræðslu í samvinnu við heilbrigðisyfirvöld eða aðra aðila eftir því sem við á. Það skal sjá um að safna upplýsingum, gera dreifirit, auglýsingaefni og efni til flutnings í hljóðvarpi eða sjónvarpi í kynningarskyni, svo og til annarrar starfsemi ráðsins. Ráðið skal enn fremur láta slík gögn af hendi við aðra þá er heilbrigðisfræðslu annast.“

Í athugasemdum um 4. gr. stendur:

„Útbúa þarf fjölbreytt og gott námsefni og annað efni til dreifingar og auglýsinga um heilbrigðismál. Notkun myndbanda fer vaxandi til atþreyingar og kennslu og miklu varðar að sækja megi gott fræðsluefni um heilbrigðismál í eins konar gagnabanka sem hefur jafnframt það hlutverk að útbúa slíkt námsefni og safna því saman frá öðrum eða halda yfirlit yfir það sem á boðstólnum er. Rétt þykir að heilbrigðisfræðsluráð gegni þessu hlutverki og sé í nánu samstarfi við skólaþróunardeild, Námsgagnastofnun, menntastofnanir, áhugamannafélög og aðra þá er heilbrigðisfræðslu sinna.“

Í 5. gr. segir:

„Heilbrigðisfræðsluráð skal stuðla að þjálfun starfsfólks til að sinna heilbrigðisfræðslu og leiðbeina um hana. Jafnframt skal það gefa út rit sem á erindi til þeirra er starfa við heilbrigðisfræðslu.“

Og í athugasemdum um þessa grein segir:

„Í lögum um Hollustuvernd ríkisins segir í 7. málsgr. 13. gr.: „Stofnunin skal, svo sem þurfa þykir, beita sér fyrir námskeiðum til að fræða þá aðila er að þessum málum (mál er varða hollustuhætti) starfa í landinu.“

Í 8. málsgr. sömu greinar segir enn fremur: „Stofnunin skal sjá um að menntun og fræðslu fyrir heilbrigðisfulltrúa verði komið á og hefur um það samráð við þær deildir Háskóla Íslands sem annast kennslu er því tengist og aðra sérfróða aðila.“

Þrátt fyrir þessi ákvæði þykir nauðsynlegt að hvetja til og leiðbeina um þjálfun fyrir þá sem stunda heilbrigðisfræðslu, bæði kennara, áhugamenn og aðra en heilbrigðisfulltrúa. Rétt þykir að heilbrigðisfræðsluráð hafi fergöngu um slíkt. Ágætt tímarit, Heilbrigðismál, er gefið út af Krabbameinsfélagi Íslands og sinnir því mikilvæga hlutverki að miðla fróðleik um heilbrigðismál og hollustuhætti til almennings. Til greina kemur að heilbrigðisfræðsluráð verði aðili að útgáfu þessa tímarits eða taki jafnvel við útgáfu þess þegar fram líða stundir og ætti það að styrkja starfsemina.“

Í 6. gr. frv. segir:

„Ráðið skal kalla saman samstarfshópa til að vinna að ákveðnum málefnum og leita ráðgjafar sérfræðinga um einstök mál. Laun starfshópa og ráðgjafa skulu ákveðin í samræmi við reglur þóknananefndar hverju sinni.“

Og í athugasemdum um þessa grein segir:

„Gert er ráð fyrir því að fagleg vinna til undirbúnings heilbrigðisfræðslu um sérstök málefni sé unnin af sérfróðum aðilum í hvert sinn. Sömuleiðis verði leitað ráðgjafar sérfræðinga þegar með þarf. Þessum aðilum skulu greidd laun fyrir vinnu sína í samræmi við reglur þóknananefndar.“

Í 7. gr. kveður nánar á um skipan heilbrigðisfræðsluráðs og þar segir:

„Í heilbrigðisfræðsluráði eiga sæti 21 fulltrúi sem heilbrrh. skipar til fjögurra ára í senn. Eftirfarandi aðilar tilnefna einn fulltrúa hver: Áfengisvarnaráð, Félag heilsugæsluhjúkrunarfræðinga, Félag heilsugæslulækna, Félag íslenskra sjúkraþjálfara, félmrn., Fósturfélag Íslands, Geðverndarfélag Íslands, Hið íslenska kennarafélag, Hjartavernd, Kennarasamband Íslands, Krabbameinsfélag Íslands, Landlæknir, Læknadeild Háskólans, Manneldisráð, menntmrn., Ríkisútvarpið, Samtök aldraðra, Sálfræðideild skóla, Slysavarnafélag Íslands, Tannlæknafélag Íslands, Umferðarráð. Ráðið skal funda a.m.k. fjórum sinnum á ári. Störf í heilbrigðisfræðsluráði eru ólaunuð, en fulltrúar skulu sækja fundi sér að kostnaðarlausu. Fulltrúar ráðsins velja úr sínum hópi þriggja manna framkvæmdanefnd. Heilbrigðisfræðsluráð skal ráða framkvæmdastjóra og starfsfólk eftir þörfum. Starfsemi ráðsins skal kostuð af ríikinu, þar með talin laun framkvæmdastjóra og annars starfsfólks. Framkvæmdanefnd sér um að framkvæma áætlanir heilbrigðisfræðsluráðs í samvinnu við framkvæmdastjóra og annað starfsfólk ráðsins.“

Í athugasemdum um þessa grein segir:

„Hlutverk heilbrigðisfræðsluráðs er fyrst og fremst að móta stefnu og ákveða forgangsröðun í málefnum heilbrigðisfræðslu og sjá til þess að heilbrigðisfræðslu sé sinnt. Heilbrigðisfræðsluráði er því fyrst og fremst ætlað að koma með hugmyndir og ákveða hvaða viðfangsefni í heilbrigðisfræðslu séu brýnust í hvert sinn. Ekki er reiknað með því að heilbrigðisfræðsluráð þurfi að funda mjög oft á ári og eru störf fulltrúa í ráðinu ólaunuð, en skulu vera þeim að kostnaðarlausu þannig að ferðir á fundi séu greiddar ef þurfa þykir.

Þó að störf heilbrigðisfræðsluráðs varði málaflokka sem snerta svið flestra ráðuneyta þykir eðlilegt að það heyri undir heilbrrh. sem skipar það til fjögurra ára í senn. Vandasamt er að velja heppilegan fjölda fulltrúa í slíkt ráð en mikilvægt er að tryggja það að mörg ólík sjónarmið eigi aðgang að stefnumótun og ákvörðunartöku í þessum efnum. Til þess að tryggja slíka valddreifingu er nauðsynlegt að hafa þennan hóp fjölskipaðan. Meginstarf við framkvæmd heilbrigðisfræðslu verður í höndum þriggja manna framkvæmdanefndar sem fulltrúar ráðsins velja úr sínum hópi og framkvæmdastjóra er ráðið velur einnig. Er þeim ætlað að fylgja eftir hugmyndum ráðsins.

Starfsemi ráðsins skal kostuð af ríkinu og fær framkvæmdanefnd greidd laun fyrir fundi og önnur störf sem unnin eru í þágu ráðsins. Ríkið greiðir einnig laun framkvæmdastjóra og annars starfsfólks ráðsins.

Ljóst er að þörf fyrir heilbrigðisfræðslu er brýn og mikið starf óunnið á þeim vettvangi. Ætla má að nokkurn tíma taki að byggja upp starfsemi heilbrigðisfræðsluráðs og er því óvíst hver umsvif þess verða í fyrstu. Til þess að reyna að gera sér nokkra grein fyrir þeim kostnaði sem fylgja mundi stofnun heilbrigðisfræðsluráðs má taka mið af Rannsóknaráði ríkisins til samanburðar. Rannsóknaráði ríkisins eru ætlaðar tæpar 9 millj. kr. á fjárlögum 1986. Þar starfa á skrifstofu sjö manns með framkvæmdastjóra. Auk launakostnaðar þeirra er innifalið í rekstrarkostnaði Rannsóknaráðs laun fyrir starfshópa, útgáfa skýrslna, upplýsingaþjónusta, fundahöld, erlend samskipti og margt fleira. Búast má við að kostnaður við stofnun heilbrigðisfræðsluráðs verði a.m.k. helmingi minni en sú upphæð sem ætluð er til reksturs Rannsóknaráðs.“

Ef einhverjum skyldi vaxa þessi kostnaður í augum þegar fjármagna á slíka starfsemi vil ég benda á það, sem ég sagði áðan um mikilvægi þessarar starfsemi, þ.e. heilbrigðisfræðslu til heilsuverndar, og ég vil jafnframt minna á það, sem ég sagði einnig, að það væru um 8 - 10% af útgjöldum ríkissjóðs sem rynnu til heilbrigðisþjónustunnar. Má t.d. nefna að ef við lítum á heildartölu þeirra útgjalda eða fjárfestinga sem urðu í heilbrigðiskerfinu á árunum 1974-1984 er um að ræða rúma 3 milljarða, næstum 31/2 milljarð. Það eru sem sagt 3445 millj. sem gera á ári um 344 millj. kr. og þetta er á verðlagi miðað við janúar 1985. Ég vil vekja athygli á þessum upphæðum þegar við erum að ræða um þann kostnað sem mundi hljótast af stofnun slíks heilbrigðisfræðsluráðs.

Í 8. gr. segir:

„Heilbrigðisfræðsluráð sendir heilbrrn. í lok hvers árs skýrslu um störf ráðsins.“ Þessi grein þarfnast engra skýringa.

Í 9. gr. segir:

„Ráðherra setur ráðinu starfsreglur að fengnum tillögum ráðsins.“

Og í athugasemdum um hana segir: „Rétt þykir að ráðið geri sjálft tillögur um það hvernig það hyggist starfa og sendi ráðherra þær.“

Og í 10. gr. segir svo:

„Lög þessi öðlast þegar gildi.“

Ég ætla ekki að hafa þessi orð fleiri, en bið hv. þm., sem því miður eru ekki margir í salnum að hlusta á þessa umræðu, að lesa frv. og kynna sér þetta mál, jafnframt að líta í fskj. sem eru annars vegar Alma-Ata yfirlýsingin sem hefur verið þýdd af þeim fulltrúum Íslands sem sátu þá ráðstefnu þegar þessi yfirlýsing var samþykkt, en það voru Páll Sigurðsson ráðuneytisstjóri í heilbrrn., Skúli G. Johnsen borgarlæknir og Örn Bjarnason formaður Hollustuverndar sem snöruðu þessari yfirlýsingu yfir á íslensku. Hins vegar er fskj. með frv. grein eftir Pál Sigurðsson ráðuneytisstjóra úr Læknablaðinu sem nefnist Forvörn og greining langvinnra sjúkdóma og eftirlit með þeim. Sú grein lýsir nánar samvinnuverkefni Alþjóðaheilbrigðismálastofnunar og nokkurra aðildarþjóða.

Að umræðu lokinni vil ég leggja til að þessu frv. verði vísað til hv. heilbr.- og trn. Nd.