11.04.1986
Neðri deild: 77. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3699 í B-deild Alþingistíðinda. (3381)

368. mál, selveiðar við Ísland

Hjörleifur Guttormsson:

Herra forseti. Þetta frv. til l. um selveiðar er nú komið til 2. umr. eftir að hv. sjútvn. hefur haft það til skoðunar og skjótrar afgreiðslu, svo sem dagsetningar segja til um, og innan nefndarinnar virðist vera nokkurn veginn samstaða um að mæla með samþykkt þess þó að einn nefndarmaður skrifi undir með fyrirvara sem hann þó ekki hefur gert grein fyrir. Þessi nokkurn veginn samhljóða kór sjútvn. þessarar hv. deildar kemur okkur ekkert á óvart sem höfum fylgst með þessu máli á fyrri þingum. Þar hefur verið samstaða um þetta mál hjá flestum nefndarmanna, en einn nefndarmaður í sjútvn., hv. 4. landsk. þm. Guðmundur Einarsson, hefur á fyrri þingum skilað séráliti varðandi þetta mál og mælt þar sterklega í mót í nál. sem fyrir liggja frá fyrri þingum. Hann er ekki hér á þingi nú heldur varamaður fyrir hans hönd þannig að hans viðhorf koma ekki fram við þessa umræðu hér. En eins og fram hefur komið eru þó margir hv. þm. hér í deild sem andmæla þessu frv. og raunar fleiri en var á hinu síðasta þingi sem sumpart stafaði af fjarveru manna þá tímabundið.

Það er nú svo að eftir að menn hafa haft mál til meðferðar á fyrri þingum og telja sig hafa skoðað það af gaumgæfni væntanlega er þess ekki svo mjög að vænta að það komi hér annað hljóð í strokkinn þegar málið kemur hingað í þriðja sinn. Þess er miklu frekar að vænta að menn hafi fest þær í ákveðnu fari og mér sýnist að hv. nefndarmenn í sjútvn. hafi nokkurn veginn lokað á þær röksemdir sem fram hafa komið við fyrri umræðu þessa máls, þeim mjög svo vel rökstuddu athugasemdum sem þar liggja fyrir, og standi við sitt fyrra álit. Þessu verður ekki breytt, álitið liggur hér fyrir, en hitt er auðvitað jafnósmekklegt af hálfu einstakra talsmanna nefndarinnar að bregða þeim sem hér ræða þetta mál um að taka fyrir sitt leyti ekki tillit til þeirra sjónarmiða, hvað þá þegar þeir bregða mönnum um að koma í veg fyrir að málið fái þinglega afgreiðslu. Það hefur áður komið fram að mál þetta kom ekki inn í þingið fyrr en um síðustu mánaðamót sem ætti náttúrlega eitt út af fyrir sig að vera nægilegt til þess að það fái að hvíla hið þriðja sinn þegar ráðherra þessara mála, eða réttara sagt sá ráðherra sem frv. leggur fram, sýnir ekki meiri áhuga á því að gefa þinginu eðlilegt ráðrúm til að fjalla um málið.

Ég ætla, herra forseti, að víkja í upphafi míns máls að fáeinum atriðum úr máli hæstv. sjútvrh. þó að hann sé ekki í þingsal, enda mun hann hafa þurft að sinna öðrum verkum nú um skeið og geri ég ekki athugasemd við það. En ég vil vegna samhengis nefna ein 2-3 atriði sem ég vil benda á úr hans málflutningi hér áðan við umræðuna, en tek það eftir aðstæðum upp við framhald þessarar umræðu eða 3. umr. ef fram fer um málið.

Hæstv. sjútvrh. færði það fram sem sérstök rök fyrir því að mál þetta eigi að falla undir sjútvrn. að selurinn sé sjávardýr. Hv. 1. þm. Norðurl. v. Pálmi Jónsson hefur þegar tekið hæstv. sjútvrh. í smákennslustund að þessu leyti og þarf ég í rauninni þar engu við að bæta. Hann sýndi fram á að selurinn er bæði á sjó og landi og kæpir á landi. Á stundum hefur það verið látið ráða úrslitum í sambandi við flokkun dýra hvar upphaf þeirra sé. Þetta er stundum notað í sambandi við laxinn að telja hann ferskvatnsfisk. Þótt hann ali aldur sinn um skeið í sjó hrygnir hann í fersku vatni. Það hygg ég að hafi með öðru verið notað sem röksemd fyrir því að fella veiðar á laxi og meðferð á laxi undir landbúnaðarhagsmuni og landbrn. Með ósköp svipuðum rökum mætti því snúa þessu við sem hæstv. ráðh. er hér að halda fram. Hitt er þó gildari röksemd fyrir þeirri brtt. sem hv. 1. þm. Norðurl. leggur hér fram, að miðað við núverandi skipan ráðuneyta sé eðlilegt að landbrn. hafi yfirumsjón allra mála er selveiðar varða, að hagnýting á sel hefur frá alda öðli fallið í hlut bænda landsins og er svo enn og það eina sem kallar á að kveðja til sjávarútvegsaðila eru þeir þættir og það samhengi sem menn eru að gera skóna að sé til staðar á milli sela og sníkjuorma í fiski.

Annað atriði var það náttúrufræðilegs eðlis sem hæstv. sjútvrh. gataði allilla á í sínu máli og raunar var vakin athygli á af hv. 4. þm. Norðurl. e. Steingrími J. Sigfússyni. Það var þegar hæstv. ráðh. ætlaði að upplýsa okkur hér í þingdeildinni um að ef ekki yrði gripið til takmarkana varðandi fjölgun sela muni stofninum fjölga um 6% á ári hverju. Það var ekkert annað. Og þó að hann eftir smáábendingu frá hv. 4. þm. Norðurl. e. drægi ögn í land varðandi þessa staðhæfingu sína var honum þó þarna full alvara og stendur eftir þessi sérkennilega staðhæfing hæstv. ráðh. um fjölgun á selnum og fer ég nú að skilja að honum stafi allnokkur ógn af skepnu þeirri sem hann sér vaxa um 6% árlega, kannske út í hið óendanlega, og fari nú að þrengjast um. (ÓÞÞ: Hvenær skyldi upphafið að þessum 6% hafa verið?) Það er nú spurningin líka. En þetta dæmi, sem hæstv. ráðh. kemur hér fram með og stenst ekki barnabókarlærdóminn, er býsna einkennandi fyrir málflutning manna hér í sambandi við selinn og ýmislegt náttúrufræðilegt samhengi sem menn ætla að tengja honum. Flest er þetta reist á brauðfótum þó að þessi staðhæfing hæstv. ráðh. taki steininn úr og er fyllilega maklegt að hún verði landsfleyg.

Hæstv. ráðh. vildi í máli sínu draga úr ugg þeirra sem hafa varað við að sjútvrn. yfirtaki þessi mál og var að gera því skóna að ef þetta frv. yrði að lögum mundi ráðuneytið, sem hann nú stýrir, sjá til þess að friður haldist utan við nytjuð sellátur á sama hátt og væru lög þessi ósett. Þetta er út af fyrir sig góðra gjalda vert, ef menn gerðu ráð fyrir því að ráðherrann og ráðuneytið væru í stakk búin til að standa við þessa fullyrðingu sína miðað við að haldið sé áfram þeim aðgerðum sem ráðuneytið hefur beitt sér fyrir og falið hringormanefnd að stýra. Ég hlýt að draga í efa að það sé í reynd á færi sjútvrn. að tryggja umrædda vernd, t.d. á Breiðafirði, sem hér er verið að gera ráð fyrir, og þarf áreiðanlega allnokkuð til að koma til að unnt sé að hindra þá skotveiði sem margir vænta að komi í kjölfarið á samþykkt þessa frv.

Varðandi ummæli hæstv. ráðh. um hlut ríkisstjórnar dr. Gunnars Thoroddsens varðandi þetta mál ætti að vera tiltölulega skammt fyrir hann að leita upplýsinga hjá formanni Framsfl., fyrrv. hæstv. sjútvrh., nú forsrh., um það hvernig staðið hafi verið að málum í sambandi við undirbúning og framlagningu þessa frv. í lok ferils þeirrar ríkisstj. Hv. L þm. Norðurl. v. hefur raunar þegar að því vikið í sínu máli og svarað því og ég þarf þar ekkert um að bæta.

Ég vil þá í framhaldi af þessu benda á það, sem varðar vinnubrögð hv. sjútvn. varðandi þetta mál, að hér er greint frá því að aðeins eitt erindi hafi borist nefndinni, sem var frá bráðabirgðastjórn Landssamtaka áhugamanna um selveiðar, en síðan bárust fleiri erindi. Það var ekki haft fyrir því af frsm. hv. nefndar að kynna þau erindi sem síðan hafa borist honum í hendur. Raunar var það svo að til nefndarinnar var sent svo mér er kunnugt erindi, áður en umræddur fundur var haldinn, stílað á sjútvn. og boðsent hingað í Alþingi, en skilaði sér aldrei inn á fund nefndarinnar vegna einhverrar slysni. Þetta erindi er bréf frá prófessor við Háskóla Íslands, sem ég vitnaði nokkuð til við 1. umr., frá prófessor Arnþóri Garðarssyni sem starfar við Líffræðistofnun Háskólans og er dýrafræðingur að mennt og kennir þau fræði við Háskólann. Sá ágæti prófessor fékk ákveðna kveðju úr ræðustól þingsins frá hv. þm. Guðmundi H. Garðarssyni og ætla ég ekki að fara að endurtaka þau svigurmæli sem þá féllu í garð fjarstadds sérfræðings, en ég ætla hins vegar, herra forseti, með leyfi, að lesa þetta stutta erindi sem prófessor Arnþór Garðarsson sendi sjútvn. en ekki hefur verið til skila haldið. Það er dags. 7. apríl 1986 og fagna ég því sérstaklega að hv. þm. Guðmundur H. Garðarsson er kominn í þingsal til að hlýða á þetta bréf.

„Efni: Frumvarp til laga um selveiðar við Ísland, 368. mál.

Undirritaður leyfir sér hér með að koma á framfæri við sjútvn. Nd. Alþingis nokkrum athugasemdum er varða frv. til l. um selveiðar. Frv. þetta felur í sér að öll málefni er selveiðar varða eru færð til sjútvrn. sem að vísu er gert að hafa samvinnu við landbrn. um framkvæmd, sbr. 3. gr., og auk þess samráð við Náttúruverndarráð, Hafrannsóknastofnun, Fiskifélagið og Búnaðarfélagið. Þetta meginatriði frv. gæti virst meinlaust en er að margra dómi til þess fallið að framlengja og löghelga ýmsar umdeildar aðgerðir svonefndrar hringormanefndar, sbr. hjálagða ritfregn (Náttúrufræðingurinn, 55. árg., bls. 46-48, 1985) um ritið „Selir og hringormar“ sem Landvernd gaf út, en ritfregnin kom nýlega við sögu á Alþingi í umræðu um selveiðifrv. Það skal fúslega viðurkennt að ýmis atriði, sem þar er vakin athygli á og varða umhverfisvernd og starfsaðferðir, eru í eðli sínu huglæg og verður hver að meta þau fyrir sig.

Í upphafi ræðu sjútvrh., er hann flutti frv. til l. um selveiðar við Ísland í Nd. 2. apríl 1986, kom fram að tilgangur lagafrv. er að leysa hringormavandamálið, en hann segir orðrétt: „Hringormur er sífellt vaxandi vandi í sjávarútvegi og brýnt að þetta mál verði afgreitt hið fyrsta.“ Sú skoðun ýmissa alþm. að auknar selveiðar leiði til þess að minna verði um hringorm og jafnvel til þess að kaup fiskvinnslufólks hækki kemur og berlega fram í umræðum um frv. Því miður eru þessar hugmyndir ekki studdar neinum marktækum mælingum eða rannsóknum og þar að auki bendir ekkert til þess að þær fái staðist fræðilega.“

Ég vek athygli á þessum ummælum prófessors Arnþórs Garðarssonar í bréfi frá 7. apríl 1986 eftir að hann hefur kynnt sér fyrst orð sem hér féllu hjá þm. við 1. umr. málsins. Og áfram segir prófessor Arnþór í þessu erindi til sjútvn.:

„Ég tel skylt að vekja athygli á því að líffræði hringorms og samband hans við hýsla sína (sem eru selir, þorskur og krabbadýr) er langt frá því að vera nægilega vel þekkt til þess að hægt sé að benda ákveðið á hagkvæmar, vistfræðilegar aðferðir til þess að draga úr hringormavandanum. Til þess að leysa þann vanda virðist miklu líklegra til árangurs að reyna að bæta aðferðir við að hreinsa orma úr fiski. Menn verða að gera sér ljóst að hér getur verið um kostnaðarsamar og tímafrekar undirstöðurannsóknir að ræða sem vinna þarf án óeðlilegs þrýstings hagsmunasamtaka. Full ástæða er til að vara við ómarkvissum aðgerðum, eins og svonefndri fækkun sela, sem hafa einungis kostnað í för með sér.

Virðingarfyllst,

Arnþór Garðarsson.“

Þetta var erindi prófessors Arnþórs, stutt og skorinort og ótvírætt, ótvíræð skoðun sem hann þar lýsir, og tel ég rétt að hv. þm. Guðmundur H. Garðarsson og fleiri, þar á meðal hv. sjávarútvegsnefndarmenn, gaumgæfi þetta erindi og sjái sóma sinn í því helst að taka þetta sjónarmið prófessors Arnþórs fyrir á fundi í nefndinni því að það var komið hingað til Alþingis áður en fundurinn var haldinn þó að það hafi ekki borist inn á fund nefndarmanna vegna einhverra mistaka.

Ég vek líka athygli á að sjútvn. hefur á fyrri stigum aldrei haft fyrir því að leita álits Líffræðistofnunar Háskóla Íslands né heldur Náttúrufræðistofnunar Íslands varðandi þetta efni. Þar eru meira á hægra brjósti hagsmunaaðilar í fiskiðnaði svo sem sjá má af upptalningu þeirra sem veitt hafa álit að beiðni sjútvn. varðandi þetta mál á fyrri þingum.

Herra forseti. Ég hlýt að tengja þetta erindi frá prófessor Arnþóri Garðarssyni við það mál sem talsmaður sjútvn., hv. 5. þm. Norðurl. v., hafði hér yfir og hafði borist honum í hendur eftir að sjútvn. hélt fund 8. apríl s.l. frá Sambandi fiskvinnslustöðvanna. Það var talin ástæða til að lesa það mál hér upp og var sannarlega ekki vanþörf á að festa það í þingtíðindi svo dæmalaust sem það erindi er í margri grein.

Þegar ég fjallaði um þetta mál hér við 1. umr. eftir að hafa hlýtt á mál þeirra hv. þm. Guðmundar J. Guðmundssonar og Guðmundar H. Garðarssonar lýsti ég því svo að það færi um mig ákveðinn hrollur við að heyra þann málflutning og mig mundi ekki undra þó að ég ætti eftir að heyra samhljóða samþykktir frá þessum hv. þm. og þeim hagsmunasamtökum sem þeir eru talsmenn fyrir utan veggja Alþingis eftir að hafa hlýtt á málflutning þeirra og þarf ekki að rekja það sem þar kom fram annað en minna á að þar var látið skína í væntingar um að hægt væri að hækka laun í fiskvinnslu í landinu um þriðjung, a.m.k. 1/4, ef hægt væri að ná fram þeirri fækkun á sel sem þessir hv. þm. binda svo miklar vonir við til lausnar á hringormavandanum. Þá var mér ekki kunnugt um það, sem síðan hefur verið upplýst af talsmanni sjútvn., að hagsmunaaðilar hafa þegar gert sína samþykkt og sent áskorun til ríkisstjórnar landsins, sameinaðir, með undirskrift á sama blaði:

„Verkamannasamband Íslands, Samband fiskvinnslustöðvanna og Vinnumálasamband samvinnufélaganna“ - Ég les úr þessari stuttu áskorun hagsmunaaðila með leyfi forseta. - „skora á ríkisstjórn Íslands að hún beiti sér fyrir því að allra tiltækra ráða verði leitað til þess að draga úr því mikla tjóni sem selormur veldur í íslenskum sjávarútvegi og efnahagslífi landsmanna. Aukning á selormi í fiski veldur nú þegar gífurlegum kostnaðarauka í fiskvinnslunni og heldur niðri lífskjörum í landinu.

Reykjavík, 26. febr. 1986“

og síðan undirrita þetta f.h. Verkamannasambands Íslands m.a. hv. þm. Guðmundur J. Guðmundsson og f.h. Sambands fiskvinnslustöðvanna Ólafur B. Ólafsson, ef ég fæ rétt lesið, og f.h. Vinnumálasambands samvinnufélaganna Árni Benediktsson. Hér vantar í kórinn Vinnuveitendasamband Íslands af einhverjum óskiljanlegum ástæðum, nema Samband fiskvinnslustöðvanna tali fyrir það stórveldi í Garðastræti.

Og hvaða dagur er nú þessi 26. febrúar 1986? Jú, það var þegar undirritaðir voru kjarasamningar milli aðila vinnumarkaðarins, en af einhverjum ástæðum gleymdist að láta það fylgja hér inn á Alþingi og upplýsa þjóðina um leið og þetta var kynnt, a.m.k. fór það fram hjá mér, að þessi gagnmerka áskorun hefði verið samþykkt og undirrituð af aðilum þennan sama dag. Nú hefur því verið til haga haldið og er hér tengt áskorun til Alþingis af hálfu Sambands fiskvinnslustöðvanna, sérstakri áskorun, að frv. sem hér er til umræðu verði samþykkt. Það var ekki seinna vænna að koma þessu erindi á framfæri. Nú er ég alveg hættur að undrast þann samhljóm sem fram kom í ræðum þessara hv. þm. við 1. umr. málsins og á ég þá aðeins eftir að sjá hvernig þeir standa að málum í framhaldinu verði þetta frv. lögfest og það lagaskjól gefið til atlögu til fækkunar sela í landinu sem þessir hv. þm. eru sannfærðir um að leysi hringormavandann og blésu á allar efasemdir þar að lútandi í ræðum sínum við 1. umr. málsins. Það gefur að sjálfsögðu auga leið að menn sem eru búnir að finna sannleikann í þessum efnum með jafnótvíræðum hætti og þessir aðilar og hagsmunasamtök þeirra, sem þeir tala fyrir í áskorun til ríkisstj., munu að sjálfsögðu fylgja þessu efni eftir af öllu sínu afli verði þetta frv. að lögum. Þeir hafa séð fyrir því að við erum búnir að sjá inn í hugskot þeirra, einnig þessara hv. þm. við 1. umr. málsins, og þá gætu menn nú farið að biðja fyrir sér, þeir fáu sem lifa í Breiðafjarðareyjum, hæstv. félmrh., og ýmsir sem eru við strendur Breiðafjarðar og hafa fylgst með selnum þar á liðnum árum og öldum og hafa áhuga á því að nytja hann.

Ég vil segja það að sumum finnst e.t.v. að hér sé á ferðinni að öðrum þræði gamanmál eða umræða þar sem hægt sé að hafa mál í flimtingum, en hér er að mínu mati um alvörumál að ræða varðandi hættuna á mjög verulegum mistökum og ófarnaði og það er þess vegna sem ég mæli þessi orð úr ræðustóli Alþingis. Menn verða að taka mark á áskorunum af þessu tagi frá hagsmunaaðilum sem þegar eru búnir að brjóta sér leið með vissum hætti fram hjá lögum í rauninni með stofnun hringormanefndar og þeim tilburðum sem hún hefur haft uppi. En fái þeir lagaþakið og lendi í stól sjútvrh. einhver maður sem sé álíka sannfærður og þessir hv. þm. er ekki að spyrja að leikslokum. Við skulum virða fyrir okkur ákvæði 6. gr. laganna og þær ótvíræðu heimildir til sjútvrh. til að gefa fyrirmæli til fækkunar á sel ef honum býður svo við að horfa. Þrátt fyrir þá varnagla sem þar eru slegnir í öðrum greinum er það engin trygging. Það er reglugerðarheimild varðandi þessa grein. Hv. 4. þm. Suðurl. gat þess áðan að það væri gengið svo langt í 6. gr. að það þyrfti leyfi Náttúruverndarráðs til að veiða sel. Hvar? Hann gat þess. Á friðlýstum svæðum. Honum þótti ástæða til að geta þess sérstaklega hversu sanngjörn ákvæðin væru að það þyrfti meira að segja að spyrja Náttúruverndarráð og leita samþykkis þess til að fækka sel á friðlýstum svæðum. En skyldu þau nú vera svo ýkja mörg sem taka til selalátra í landinu, þau friðlýstu svæði?

Nú vil ég ítreka það, sem margoft hefur komið fram í mínu máli í umræðum um þetta efni, að ég hef sannarlega ekkert á móti því. . . Það er eðlilegt að hv. þm. reyni að fá sér aðeins í nefið ókeypis. Ég hef ekkert á móti því. (GHG: Við gerum það stundum nafnarnir.) Ég hef ekkert á móti því að menn snússi sig. (GHG: Heldur mönnum vakandi.) Ja, ekki veitir af að sá kærleikskornum á milli ofan í samþykktir og áskoranir. (GHG: Hefur áður verið gert.) Það hef ég trú á.

Ég hef ítrekað lýst því úr þessum ræðustól í umræðum um þetta efni að ég hef svo sannarlega ekkert á móti því að leitast sé við að hafa stjórnun á selastofnum við Ísland og ég tel það vera eðlilegt markmið að halda selastofninum í vissu jafnvægi miðað við heildarhagsmuni. Ég mundi síst mæla gegn því að tengja þessi efni og umræður um þetta við hringormavandann að svo miklu leyti sem þekking leyfir mönnum að gera það, núverandi þekking á málum. En hérna eru menn beinlínis að ganga á mót skynsamlegri skipan þessara mála. Menn eru að hætta hér mjög miklu til. Menn eru að vinna að því að setja hér lög sem geta leitt til magnaðs ófriðar í landinu um þessi efni og beinlínis komið í veg fyrir að hægt sé að hafa með eðlilegum hætti stjórn á selastofnum við landið og ná fram ásættanlegum markmiðum í því efni. (GHelg: Hefur verið nógu vel stjórnað?) Selveiði við Ísland hefur kannske ekki verið stjórnað eins og æskilegast væri hin síðustu ár, m.a. vegna þess að það hefur orðið stórfelld breyting á markaðsaðstæðum, en ég held að þær breyttu aðstæður og það gauf sem hringormanefnd hefur staðið fyrir hafi þó í raun ekki leitt til þeirra breytinga á fjölda sela við Ísland sem hæstv. sjútvrh. var að láta að liggja, hvorki varðandi hin síðustu ár hvað þá þessi 6% fjölgun sem hann gerir ráð fyrir fram í óvissa framtíð að verði á selastofninum við landið. Það er sjálfsagt ein skýringin á þeirri ákefð að fá þessa lögfestingu hér að hæstv. sjútvrh. sér fyrir sér að selum fjölgi um 6% árlega.

Ég held að mjög skorti á einfaldar upplýsingar eins og það hvaða breyting hefur orðið í reynd á fjölda sela við Ísland hin síðustu ár. Hér var vitnað til orða breiðfirsks bónda úr Skáleyjum í ræðu hv. 1. þm. Vesturl. Ég hef af því spurnir úr mínu kjördæmi, af söndunum suðaustanlands, að þar hafi alls ekki verið um að ræða fjölgun á sel, sem hafi skilað sér þar í látur eða legið á söndum uppi, heldur þvert á móti t.d. á síðasta ári. Svona tiltölulega einföldum atriðum er ekki einu sinni haldið til haga í þessari umræðu og er ég þó ekki að segja að það liggi neitt óyggjandi fyrir til eða frá um þau efni. Og ég spyr hv. 5. þm. Norðurl. v.: Tekur hann ekkert mark á fræðimönnum sem eiga að þekkja til þessara mála og senda erindi til sjútvn. 7. apríl (StG: Þeir fá meiri vigt í frv. en þeir hafa haft.) og segja: Því miður eru þessar hugmyndir ekki studdar neinum marktækum mælingum eða rannsóknum og þar að auki bendir ekkert til þess að þær fái staðist fræðilega. Það hefur verið komið á framfæri við Alþingi margháttuðum aðvörunum fyrir utan þetta álit fræðimanns sem ég hef kynnt hér, manns sem ég veit að hefur ekkert á móti því að leitast sé við að hafa stjórn á dýrastofnum, síður en svo, og get ég vitnað til ýmissa ummæla og álitsgerða sem frá honum hafa komið, t.d. varðandi rjúpnastofninn í landinu, það umdeilda mál.

Við höfum fengið hér, herra forseti, álitsgerð frá hlunnindaráðunauti Búnaðarfélags Íslands, Önnu Guðrúnu Þórhallsdóttur, og þó að hv. 5. þm. Norðurl. v., frsm. sjútvn., hafi getið um að það hafi borist nefndinni og hún komið á fund nefndarinnar, það mun reyndar hafa verið svo að hún kom á fund nefndarinnar en síðan er dagsett degi seinna skriflegt álit sem hér hefur borist og ég vil vegna samhengis í þessari umræðu. . . (StG: Það er ekki rétt. Hún afhenti bréfið á fundinum.) Já, þá er það leiðrétt. - Ég vil vegna samhengis í þessa umræðu leyfa mér að lesa þetta bréf, sem ekki er langt, yfir þannig að það liggi hér fyrir, með leyfi forseta:

„Til hv. alþingismanna, Alþingishúsinu við Austurvöll, 101 Reykjavík. Málefni: Frv. til laga um selveiðar við Ísland.

Þann 24. mars s.l. var frv. til l. um selveiðar lagt á ný fram á Alþingi. Frv. þetta er nú lagt fram í þriðja sinn og er lítið breytt frá því á vordögum 1985 er það var síðast lagt fram. Í umræðu þeirri sem snúist hefur um frv. hefur meira verið rætt um sum ákvæði frv. en önnur. Skal sú umræða ekki tíunduð hér, en látið nægja að benda á ályktun Búnaðarþings frá 1984 á meðfylgjandi skjali. Hins vegar virðist undirritaðri nokkur ákvæði frv. ekki hafa hlotið næga umfjöllun í fyrri umræðum og vill því benda á eftirfarandi atriði:

Réttur landeiganda til látra sinna er með elstu ákvæðum íslenskra laga. Í tilskipun um veiði á Íslandi frá 1849, 15. gr., sem enn er í gildi, er ákvæði um friðlýsingu og friðhelgi látra og bann við selaskotum. Í ákvæði þessu nær bann við skotveiðum hálfa danska mílu út frá látrum eða 3,7 km. Þetta bann er ítrekað árið 1855 þegar með konungsbréfi öll skotveiði er bönnuð á Breiðafjarðarsvæðinu. Bann við skotveiðum er síðan lögfest árið 1925 og eru þau lög enn í gildi.

Ástæður fyrrgreindra ákvæða eru öllum augljósar er til þekkja. Selur í látrum er mjög viðkvæmur fyrir utanaðkomandi truflunum. Skotsvæði í nálægð látra hrekur selinn úr látri og hefur í för með sér eyðileggingu þeirra þar eð hann í mörgum tilvikum snýr ekki aftur.

Í frv. því sem nú liggur fyrir Alþingi er friðhelgi látra skert verulega með því að færa friðhelgina úr hálfri danskri mílu eða 3,7 km í 115 metra (netalögn). Ljóst má vera þeim, er um málið hugsa, að með skerðingu þessari er réttur landeigenda til látra sinna í raun að engu gerður. Með 2. málsgr. 4. gr. frv. til laga um selveiðar við Ísland er í reynd verið að taka selveiðihlunnindi frá landeigendum.

Undirrituð bendir á að selveiðihlunnindi sem og önnur hlunnindi eru tekin með í fasteignamati og skattskyld. Selveiðihlunnindi eru því samkvæmt lögum verðmæti og eign landeigenda. Bent skal sérstaklega á dóm Hæstaréttar frá 17. nóv. 1967 þar sem selveiðinytjar eru talin eign sem varin er af 67. gr. stjórnarskrárinnar. Með skerðingarákvæðum 4. gr. frv. til laga um selveiðar við Ísland er því í raun gengið á eignarrétt landeigenda á selveiðinytjum sínum.

Í lögum um lax- og silungsveiði (Stjórnartíðindi 76 1970) er að finna ákvæði (85. gr.) um að fullar bætur skuli koma fyrir þegar vegna hagsmunaárekstra bændur missi selveiðinytjar sínar. Friðlýsing látra (skv. 15. gr. tilskipunar um veiði á Íslandi frá 1849) er ekki talin nauðsynleg til að til bóta komi (skv. fyrrnefndum dóm Hæstaréttar frá 17. nóv. 1967).

Á undanförnum árum hafa fjölmargir bændur og landeigendur mátt líða skerðingu og jafnvel fullan missi selveiðihlunninda sinna vegna hagsmunaárekstra við sjávarútveginn án þess að fá nokkrar bætur fyrir. Í frv. til laga um selveiðar við Ísland eru engin ákvæði um bótagreiðslur til landeiganda vegna missis selveiðinytja sem orsakast af hagsmunaárekstrum við sjávarútveginn. Með hliðsjón af 85. gr. laga um lax- og silungsveiði (Stjórnartíðindi 76/1970) verður að teljast eðlilegt og sanngjarnt að slíkt ákvæði væri að finna í framangreindu frv.

Á undanförnum mánuðum hefur mjög verið þrengt að bændum og eiga margir hverjir í vök að verjast við að halda búum sínum og búsetu. Hlunnindi ýmiss konar skipta því bændur mun meira máli nú en verið hefur og hefur áhugi þeirra á nýtingu hlunninda sinna aukist verulega á undanförnum mánuðum. Selskinn hafa ekki verið í háu verði á undanförnum árum, en ýmislegt bendir nú til að það sé að breytast og markaðir að opnast á ný. Með þau verðmæti í huga, sem lágu og geta legið í hefðbundnum nytjum af sel, er enn mikilvægara að halda rétt og skynsamlega á málum. Með skerðingarákvæðum um rétt landeigenda til látra sinna er mikil hætta á að landeigendur missi sín selveiðihlunnindi í hendur utanaðkomandi skotmanna sem hvorki hafa til að bera áhuga né þekkingu á verkun skinnanna.

Á undanförnum tveimur árum hefur verið bent á fjölmörg atriði í frv. til laga um selveiðar við Ísland er betur mættu fara. Hér að framan hefur verið bent á enn eitt atriði sem að dómi undirritaðrar hefur ekki komið nógu skýrt fram áður. Nauðsynlegt er að koma á heildarlöggjöf um sel og selveiðar sem og aðrar veiðar á Íslandi. Hins vegar verður ekki séð að frv. það sem hér er fjallað um leysi meiri vanda en það skapar, svo marga vankanta sem á því er að finna. Staldra verður við og bæta úr áður en lengra er haldið.

Undirrituð vonast til að hv. alþm. taki framangreind atriði til athugunar og hafi þau í huga við umfjöllun og afgreiðslu frv. til laga um selveiðar við Ísland.

Virðingarfyllst,

Anna Guðrún Þórhallsdóttir

hlunnindaráðunautur.“

Þetta er það erindi sem hún hefur komið á framfæri við hv. alþm. og því fylgir ályktun Búnaðarþings frá 1984 svo og uppkast að lögum samtaka áhugamanna um selveiðihlunnindi. Þeir áhugamenn um selveiðihlunnindi sem þar er vitnað til hafa verið að undirbúa samtök og haldinn var stofnfundur þeirra í nóvember 1985, en fyrirhugað mun vera að stofna samtök þessi formlega um næstu helgi ef ég er rétt upplýstur um þau efni.

Það var kosin bráðabirgðastjórn þessara samtaka í nóvember og gert ráð fyrir að stofnfundur verði haldinn fyrir vetrarlok og það mun einmitt vera um komandi helgi sem þessi samtök halda sinn stofnfund. Erindi þessara samtaka hefur verið sent alþm. öllum að ég hygg, a.m.k. hefur það borist mér í hendur, og þar er að finna mjög sterkar viðvaranir við því frv. sem hér er til umræðu. Ég ætla ekki að taka tíma hér til þess... (GHelg: Frá hverjum, má ég heyra?) Þetta er frá landssamtökum áhugamanna um selveiðihlunnindi. Ég vil aðeins lesa niðurlag þessa bréfs, með leyfi forseta, þar sem segir:

„Við viljum eindregið andmæla allri viðleitni til að taka selveiðina úr höndum bænda og að afnema verndun selalátra sem ástæðulausu gerræði og þjóðhagslega neikvæðu. Að lokum skal hér áréttað“, segir í þessu erindi sem er dagsett 4. apríl 1986, „að full þörf er á lögum um sel og selveiðar sem séu skýrari en þau sundurleitu ákvæði sem í gildi eru. Hins vegar teljum við alls ekki hafa nógu vel til tekist með því umdeilda frv. sem fyrir liggur og því megi ekki gera það að lögum. Vinna þarf þetta mál að nýju frá grunni og taka þá fullt tillit til staðreynda sem dregnar hafa verið fram í umfjöllun um selamálið að undanförnu.“

Þetta segir í erindi frá áhugasamtökunum sem draga fram ýmis atriði, sum svipaðs eðlis og hlunnindaráðunautur Búnaðarfélags Íslands svo sem eðlilegt er, og taldi ég nauðsynlegt að vekja athygli manna á þessum erindum og hefði verið ástæða til þess fyrir hv. sjútvn. að gaumgæfa þessi erindi og önnur varnaðarorð sem fallið hafa um þetta mál. Því miður er því ekki að heilsa, eins og sjá má af áliti nefndarinnar.

Hér liggja fyrir tvær brtt. við þetta mál. Önnur er frá hv. 1. þm. Norðurl. v. og er hún raunar í nokkrum tölusettum liðum. Ég er samþykkur þeim till. sem þar koma fram svo langt sem þær ná, svo og þeirri brtt. sem hv. 1. þm. Vesturl. hefur lagt fram og mælt hér fyrir. Ég tel hins vegar að jafnvel að þeim breytingum samþykktum séu svo miklir ágallar á þessu máli öllu og málatilbúnaði að ég mundi hika við að gjalda þessu frv. jáyrði þó svo að þessar breytingar yrðu á því gerðar þó ég viðurkenni að þær væru báðar til bóta.

Ég vænti þess að enn sé færi á því að hv. þingdeild átti sig á því í hvern ófarnað stefnir með samþykkt þessa frv. sem nú er knúið á um undir lok á störfum þessa þings. Og ég vænti þess að hv. þingdeildarmenn að meiri hluta nái áttum í þessu máli og komi í veg fyrir að þessi löggjöf verði samþykkt í því formi sem þetta frv. hér liggur fyrir. Ég tel nauðsynlegt, eins og fram hefur komið, og einnig frá fleiri ræðumönnum um þetta mál hér, að endurskoða þessi efni frá grunni með það fyrir augum að ná viðunandi stjórnun varðandi selveiðar við landið og þeirri verndun sem æskileg er í tengslum við stjórnun á selveiðum og vinna þannig að málinu að líklegt sé að um það geti tekist sæmilegur friður svo sem nauðsynlegt er í máli sem þessu. En menn skulu hugsa sér hvernig mál geta þróast ef fram verður gengið með þeim hætti sem sumir þeir sem rætt hafa þetta mál hér hafa látið í skína að nauðsynlegt væri. Ég ætla ekki að þessu sinni að draga þá mynd skýrar upp en fram hefur komið, en taldi nauðsynlegt við 2. umr. að rifja upp nokkur atriði varðandi þetta mál og alveg sérstaklega draga þar inn nýja þætti sem borist hafa til þm. varðandi málið og sumir hverjir hafa ekki náð til sjútvn. áður en hún lauk sínu starfi.

Það er enn þá færi á að ræða þetta mál. M.a. geri ég ráð fyrir að þurfa að eiga orðastað við hæstv. sjútvrh. síðar við umræðu um þetta hér í deildinni þar eð hann gat ekki verið viðstaddur ræðu mína. Ég sá ekki ástæðu til að gera kröfu til þess að hann væri hér við að þessu sinni, svo sem eðlilegt er við mál sem þetta, vegna þess að færi er á því að ræða um þetta mál hér frekar.