15.04.1986
Sameinað þing: 74. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3811 í B-deild Alþingistíðinda. (3496)

393. mál, stuðningur við loðdýrabændur

Fyrirspyrjandi (Hjörleifur Guttormsson):

Herra forseti. Ég hef ásamt hv. 2. þm. Austurl. Helga Seljan leyft mér að beina svofelldri fsp. til hæstv. landbrh.: „Til hvaða aðgerða ætla stjórnvöld að grípa til stuðnings loðdýrabændum vegna verðfalls á skinnum og annarra erfiðleika?

Hefur verið athugað í því sambandi:

1. að fresta greiðslu vaxta og afborgana af lánum frá Stofnlánadeild landbúnaðarins,

2. að leiðrétta gengismun vegna afurðalána og breyta afurðalánaskuldum í föst lán,

3. að koma upp verðjöfnunarsjóði vegna sveiflna á afurðaverði,

4. að greiða ríkisframlög út á loðdýrahús sem byggð voru fyrir 1985,

5. að endurgreiða söluskatt og aðflutningsgjöld vegna loðdýrahúsa sem byggð voru fyrir 1985?"

Eins og kunnugt er hafa menn vænst mikils af loðdýrarækt til þess að mæta erfiðleikum í hefðbundnum landbúnaði. Það eru því slæm tíðindi að erfiðlega gengur í þessum nýju búgreinum og á það ekki síst við um refabændur. Mér er kunnugt um að á Austurlandi, þar sem nokkuð er um refarækt, eru erfiðleikarnir miklir. Ég get nefnt hér sem dæmi að reiknað hefur verið út sem meðaltalskostnaður á nokkrum refabúum á Héraði að rekstrarkostnaður á árinu 1985 án afskrifta og launa nemi 2208 kr. á framleitt skinn, en fyrirsjáanlegt virðist að skinnaverð verði aðeins á bilinu 1400 -1450 kr. pr. skinn á yfirstandandi uppboðsári.

Það eru því afar miklir erfiðleikar sem við blasa hjá þeim sem við þessar búgreinar fást, þó að ég vilji ekki fullyrða um hvernig staðan sé að meðaltali yfir landið í heild, og það er óhjákvæmilegt að af opinberri hálfu verði gripið til ráðstafana til að fleyta þeim sem ráðist hafa í fjárfestingar í þessum nýju búgreinum yfir erfiðasta hjallann í von um að bjartara sé fram undan.

Ég inni því hæstv. landbrh. eftir því hvað stjórnvöld hyggjast gera í þessum efnum, hvert er viðhorf til ábendinga m.a. þeirra sem tilteknar eru í fsp.