15.04.1986
Sameinað þing: 74. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3819 í B-deild Alþingistíðinda. (3508)

313. mál, öryggisbúnaður fiski- og farskipahafna

Samgrh. (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Með bréfi dagsettu 15. nóv. 1982 skipaði samgrn. fimm manna nefnd til að kanna öryggisbúnað fiski- og farskipahafna samkvæmt þeirri þál. sem hér er vitnað til. Samkvæmt skipunarbréfi skyldu störf nefndarinnar miða að því að benda á kunnar eða hugsanlegar slysagildrur við hafnarmannvirki og landgang skipa og báta og benda á við hvaða hafnir landsins og á hvaða sviði sé helst og brýnust þörf úrbóta, að kanna aðbúnað til björgunar og slysavarna við hafnir landsins og gera tillögur um leiðir til úrbóta í ofangreindu efni sjómönnum og öðrum sem um hafnir fara til aukins öryggis.

Í svari sem ég gaf hér á Alþingi fyrir ári við fsp. um sama efni frá sama fyrirspyrjanda kom m.a. eftirfarandi fram um störf nefndarinnar:

Í viðræðum nefndarmanna hefur sérstök áhersla verið lögð á nýtingu hafnarsvæða, frágang og merkingu skipa, aukinn öryggisbúnað við hafnir og síðast en ekki síst varðandi ýmsan slíkan búnað um borð í skipunum sjálfum, t.d. landganga og allan frágang við þá.

Nefndin skrifaði hafnarstjórum og hafnarvörðum um land allt þar sem hún leitaði samstarfs, bað um ábendingar og sendi jafnframt spurningalista í 11 liðum sem hún óskaði svars við. Fulltrúi Hafnamálastofnunar lagði fram athyglisverða skýrslu um flotbryggjur fyrir smábátahafnir. en notkun þeirra fer ört vaxandi í nágrannalöndum okkar og hefur nefndin rætt mjög ákveðið þetta atriði.

Þá kynntu nefndarmenn sér greinargóða úttekt í máli og myndum um frágang og fleira á hafnarmannvirkjum sem gerð var á árinu 1978. Nefndarmenn eru sammála um að nauðsynlegt sé að þeir geti skipt með sér verkum eftir landshlutum, gert úttekt samkvæmt fyrirliggjandi upplýsingum og heimsótt ýmsar hafnir til samanburðar á frágangi hafnarmannvirkja til samráðs við hafnarstjóra og hafnarverði um ábendingar til úrbóta þar sem þörf krefur.

Einnig fór nefndin fram á sérstaka fjárveitingu til að vinna áfram að verkefni sínu. Í svari mínu hér á Alþingi tók ég fram að reynt yrði að verða við þessari beiðni, en nokkru síðar átti ráðuneytisstjóri samgrn. viðtal við formann nefndarinnar og staðfesti að fjárskortur skyldi ekki verða í vegi fyrir því að nefndin gæti lokið störfum og höfðum við þá ákveðna fjárveitingu í huga sem nota skyldi til öryggismála sjómanna.

Það er ljóst að þessu verki þarf að ljúka og ég hef ætlað mér að endurskipuleggja nefndina með það í huga að Hafnasamband sveitarfélaga fengi aðild að henni. Það var e.t.v. frá upphafi misgáningur að hafa sambandið ekki með inni í myndinni þegar nefndin var skipuð 1982 og vafalaust hægt að vinna þetta verk á miklu fljótvirkari og einfaldari hátt með beinni aðild þess að nefndinni.

Rétt er að það komi fram hér að í hafnalögum, sem afgreidd voru á Alþingi vorið 1984, er tekið inn í lögin það nýmæli að stofnkostnaður við slysavarnir verði styrkhæfur um 75%. Þetta ákvæði er að mínu mati mikils virði fyrir bættar slysavarnir í höfnum landsins og til komið í kjölfar almennra umræðna um þetta efni sem m.a. má rekja til þál. þeirrar sem hér var áður rædd.

Ég harma að þessi nefnd skuli ekki hafa lokið sínum störfum og það er á engan hátt stjórnvöldum eða ráðuneyti að kenna að svo er. Það er því nauðsynlegt eftir þennan langa tíma. sem liðinn er frá því að hún hóf störf, að endurskipulagning eigi sér stað og ég hef rætt það við ráðuneytisstjóra samgrn. að gera breytingar á nefndinni í þessa átt og ýta mjög ákveðið undir að nefndin ljúki störfum eins fljótt og kostur er á.