15.04.1986
Sameinað þing: 75. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3863 í B-deild Alþingistíðinda. (3527)

407. mál, utanríkismál

Guðrún Agnarsdóttir:

Herra forseti. Ég vil þakka meðnm. mínum í hv. utanrmn. fyrir gott samstarf í vetur og formanni fyrir sanngjarna fundarstjórn og greiðar upplýsingar. Á starfstíma nefndarinnar á þessu þingi urðu mannaskipti í embætti utanrrh. er Matthías Á. Mathiesen tók við af Geir Hallgrímssyni. Um leið og ég þakka fyrrv. utanrrh. samstarfið óska ég núv. utanrrh. farsældar í starfi og þakka jafnframt þá skýrslu sem hann hefur gefið um utanríkismál og hér er til umræðu.

Þessi yfirgripsmikla skýrsla var lögð fram nú fyrir réttri viku og umræða um hana fer fram nú á síðustu dögum þingsins. Ég tel að viðfangsefni þessarar skýrslu sé svo mikilvægt og varði okkur svo miklu að óviðunandi sé að undirbúningur og umfjöllun um hana skuli nær drukkna í önnum þingloka. Því geri ég það hér að tillögu minni að tryggt verði að umræður um skýrslu utanrrh. skuli jafnan fara fram nokkru áður en þingi lýkur. Að vísu má segja að í ár gegni öðru máli en vanalega þar sem þingi lýkur óvenju snemma. Þó skiptir meginmáli að þessar umræður og undirbúningi undir hana sé ævinlega ætlaður nægur og rúmur tími.

Þessi umræða hér í dag fer fram í skugga þeirra voðaatburða sem gerðust á alþjóðavettvangi í nótt þegar Bandaríkjamenn gerðu loftárásir á Líbýu. Sú staðreynd að maður eins og Muammar Gaddafi getur manað stórveldi til slíkra aðgerða hengir vonir manna um heimsfrið á bláþráð. Þessar árásir voru gerðar þvert gegn vilja helstu ráðamanna í ríkjum Efnahagsbandalags Evrópu utan, að því er virðist, Margarétar Thatcher, forsrh. Bretlands, og kom kannske fáum á óvart. Og einnig eftir að Gaddafi hafði hótað árásum á herstöðvar Bandaríkjamanna í Evrópu sem geyma kjarnorkuvopn, jafnvel þótt það kostaði þriðju heimsstyrjöldina, var haft eftir honum í fréttum. Og eftir því sem ég hef þegar fregnað þá hafa Líbýumenn endurgoldið þessa árás í nótt með því að skjóta á fjarskiptastöð Bandaríkjamanna á Ítalíu.

Þetta er bara fyrsta dæmið sem sýnir hversu óábyrg ákvörðun þetta var, og röng. Slík viðbrögð ber ekki bara að harma, hæstv. utanrrh., heldur gagnrýna mjög harðlega og fordæma því að slík árás mun leiða til meiri átaka. Íslensk stjórnvöld eru gjarnan sein til að taka afstöðu á alþjóðavettvangi í friðar- og afvopnunarmálum og gera sér far um að móðga ekki og ganga hægt um dyr. Þau vilja fremur slá mynt til að minna á friðinn, eins og kom fram í máli hæstv. forsrh. þegar ég bar fram fsp. um aðgerðir á alþjóðlegu friðarári. Þau vilja fremur slá mynt til að minna á friðinn en taka einarðlega afstöðu á alþjóðavettvangi þegar það skiptir máli. Því var það að við misstum af lestinni meðan við veltum fyrir okkur orðalagi sem engan mundi styggja og vorum ekki meðal þeirra Evrópuþjóða sem reyndu að mynda fyrirstöðu gegn þeim árásum sem nú hafa verið gerðar. Þó var mál þetta rætt í hv. utanrmn. í gær, þar sem till. var borin fram um að stjórnvöld myndu lýsa andúð sinni gegn slíkri árás og þar hvatti ég til þess að hæstv. ráðh. hraðaði aðgerðum þannig að íslenska ríkisstj. gæfi út yfirlýsingu áður en til átaka kæmi. En það varð ekki.

Þessir atburðir leiða hugann að því hve viðkvæmt öryggi okkar jarðarbúa er. Hve mjög við erum í raun háð hvert öðru og hve afdrifaríkar aðgerðir í einum heimshluta eða landi geta orðið fyrir jarðarbúa alla á skömmum tíma. Það leiðir enn fremur hugann að því að öryggi eins ríkis getur í reynd ekki verið á kostnað annars ríkis. Öryggi okkar er í raun sameiginlegt. Þess vegna er sú sérhyggna hagsmunaþrönga utanríkisstefna, sem rekin hefur verið af flestum þjóðríkjum hingað til, orðin úrelt og við verðum að leita nýrra aðferða, nýrra leiða til þess að tryggja sameiginlegt öryggi jarðarbúa allra. Það eru sífellt fleiri hættur og vandamál sem steðja að okkur sem virða engin landamæri sem dregin eru af mönnum. Kjarnorkuváin ógnar okkur öllum með margslungnum og áður óþekktum afleiðingum. Skelfilegur uppblástur jarðvegs og gróðureyðing sem veldur endurteknum hungursneyðum og eyðir hægt og sígandi ræktanlegu landi af yfirborði jarðar. Súrt regn berst með veðrum úr reykháfum skeytingarlausra iðnaðarríkja og drepur trjágróður og líf í vötnum víðsfjarri upptökum sínum. Þannig mætti lengi telja. Dæmin eru mýmörg. Nógu mörg til að réttlæta það að við nemum staðar, stöldrum við í þessu óðagoti efnishyggjunnar og andvaraleysisins og finnum okkur önnur mörk og mið, aðrar aðferðir til samskipta og aðrar umgengnisvenjur um þessa jörð sem er bústaður okkar allra. Við höfum ratað í ógöngur en það er fyrst og fremst hegðun okkar mannanna sem hefur leitt okkur þangað og nærir rætur þess vanda sem við glímum við. Breytt hegðun okkar getur leitt okkur út úr þessu sjálfskaparvíti og breytt hugsun í utanríkismálum er mikilvægur áfangi í þeim efnum, og ég mun víkja að því síðar.

Vegna þess sem ég hef þegar sagt hér langar mig að minnast á það að við þm. Kvennalista ásamt öðrum þm. höfum endurflutt till. um friðarfræðslu. Þessi till. varðar einmitt það málefni að menn breyti framferði sínu og finni upp aðrar aðferðir við að lifa saman en þeir hafa reynt hingað til. Það örlar á skilningi á þessu atriði í núv. skýrslu utanrrh. þar sem segir, með leyfi forseta, á bls. 8:

„Mikilvægt skilyrði fyrir lausn vandans - og vandinn er einmitt sá er fjallar um styrjaldir - er skilningur á því að það er ekki vopnabúnaðurinn sem ógnar heimsfriðnum heldur mennirnir sem ráða honum.“

Þessi till. um friðarfræðslu hefur verið víða flutt annars staðar og m.a. vil ég víkja að nokkrum greinum um friðarfræðslu sem hvetja til friðarfræðslu í skýrslu kvennaráðstefnunnar í Nairóbí, sem ég mun reyndar víkja að nánar síðar. Þar eru a.m.k. sex greinar sem fjalla beinlínis um mikilvægi friðarfræðslu, um mikilvægi þess að konur sinni friðarfræðslu, um mikilvægi þess að hanna heppilegt námsefni fyrir friðarfræðslu og um mikilvægi þess að bera ekki stríðsleikföng eða annan stríðsáróður að börnum. Ég ætla ekki að eyða tíma í að lesa þessar greinar nú vegna þess hve tími er naumur og margir eru á mælendaskrá en ég vísa til þeirra í þessari skýrslu, það er málsgr. 255, málsgr. 256, málsgr. 272, 273, 274 og 344.

Skattgreiðendur allra þjóða heimsins munu þurfa að greiða nærri einni trilljón bandaríkjadala til að fjármagna hernaðarútgjöld alls heimsins á árinu 1985. Ein trilljón eru þúsund milljarðar dollara, það er um þúsundföld upphæð íslenskra fjárlaga þessa árs. Bandaríkin og Sovétríkin ein munu hafa eytt a.m.k. 645 milljörðum dollara, þ.e. rúmum helming af því fjármagni sem eytt hefur verið, og bara framlag þeirra er um 1,7 milljarðar á hverjum degi. Árlegur kostnaður við rekstur bæði Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar og Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna er minni en vígbúnaðarrekstur Bandaríkjanna og Sovétríkjanna til samans á hverjum degi. Veltið því fyrir ykkur, hv. þm., þegar jafnframt er verið að ræða um fjárþröng Sameinuðu þjóðanna og stofnana þeirra.

Þær ríkisstjórnir, sem nú eru við völd í hinum ýmsu þjóðríkjum, hafa skrýtna forgangsröð. Þær verja að meðaltali 19 300 dollurum á ári á hvern hermann í löndum sínum, en aðeins 380 dollurum á hvert barn á skólaaldri. Hverjum ætla þær að erfa löndin? Hermönnum? Þessi undarlega forgangsröðun stafar einmitt af úreltri stefnu og aðferðum í utanríkismálum. Ríkisstjórnir stórveldanna halda áfram að eyða a.m.k. helmingi meira fé til hernaðarrannsókna en til annarra rannsókna. Sá baggi, sem þessi lönd binda sér vegna þess fjár sem sólundað er til vígbúnaðar, er skoplítill miðað við þau efnahagsáhrif sem þessi fjársóun hefur í þróunarlöndunum.

Það virðist ekki öllum nægilega ljóst hve skaðvænlegar pólitískar og efnahagslegar afleiðingar hljótast af vaxandi kostnaði við vígbúnaðarkapphlaupið. En hernaðar- og gróðahyggja gagnsýrir pólitíska hugsun um víða veröld í allt of ríkum mæli. Það fé sem eytt er til vígbúnaðar árlega jafngildir þjóðarframleiðslu allra þeirra landa þar sem fátækari helmingur jarðarbúa býr. Árleg eyðsla heimsins til vígbúnaðar jafngildir allri skuld hinna fátækari þjóða við hinar efnaðri. En vaxtagreiðslur af þessum skuldum eru að kyrkja efnahagslíf margra fátækra þjóða. Ef 10% af því fé sem eytt er til vígbúnaðar árlega yrði varið til að grynnka á þessum skuldum mundu þær hverfa á innan við 20 árum.

Hæstv. utanrrh. var viðskrh. áður en hann tók við embætti og þegar hann sótti fund Alþjóðabankans og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins í Seoul á s.l. hausti. Þar kom í ljós að í rómönsku Ameríku einni saman gengu 38% af samanlögðum tekjum þeirrar álfu af útflutningi til þess að greiða vexti á síðasta ári, vexti af erlendum lánum. Og þar kom einnig fram að ótti valdsmanna við skuldakreppuna var ekki einungis pólitískur, hann var enn fremur tengdur því að skuldheimtan við þessi fátæku lönd, eins og hún hefur verið rekin hingað til, grefur í raun undan því að í framtíðinni geti viðkomandi ríki framleitt sig út úr skuldakreppunni. Allir sjóðir þeirra eru tæmdir og fjárfestingar hafa skroppið saman.

Það má taka sem dæmi að lönd eins og Mexíkó, Argentína, Brasilía og Venezúela skulda einum aðila, Chase Manhattan bankanum, 6,1 milljarð dollara. Þetta svarar tvöföldum höfuðstóli þessa bankarisa.

Á þessum fundi í Seoul var spurt að því hvort menn ætluðu að koma í veg fyrir þá öflugu pólitísku sprengju sem skuldakreppan væri og koma í veg fyrir að hún færi í loftið og rifi e.t.v. með sér fjármálakerfi heimsins. Þeirri spurningu var mér vitanlega ekki svarað á þessum fundi en kannske veit hæstv. utanrrh. betur. Svo ólíkir menn að skoðunum sem Castró Kúbuforseti og ritstjóri Dagblaðsins og Vísis eru, virðast þeir þó sammála um það að eina raunsæja leiðin í þessum efnum sé að strika yfir þessar skuldir í eitt skipti fyrir öll. Mig langar að vitna hér í leiðara DV frá 14. apríl. Þar er talað um skuldasöfnun Marcosar fyrrum Filippseyjaforseta.

„Dæmi Marcosar er aðeins stærsta dæmið af mörgum tugum um framferði alþjóðabanka í þriðja heiminum. Annað dæmi er Chile sem var í peningasvelti á lýðræðistíma Allendes en hefur verið að drukkna í lánsfé síðan Kissinger kom geðsjúklingnum Pinochet til valda.

Eitt sorglegasta dæmið er Argentína, sem drukknaði í lánsfé á valdatíma her- og lögregluforingja sem haldnir voru stelsýki og kvalalosta, en hefur verið fryst af alþjóðabönkunum síðan lýðræðisstjórn komst þar til valda. Argentínumenn bera ekki ábyrgð á skuldunum. Einhverra hluta vegna virðast vestrænir bankastjórar halda að peningar séu vel varðveittir hjá glæpamönnum, sem ryðjast með ofbeldi til valda í þriðja heiminum, en illa geymdir hjá stjórnum sem starfa í umboði borgaranna eins og tíðkast á Vesturlöndum. Staðreyndin er hins vegar sú að þeir sem ráða ríkjum í skjóli hers og lögreglu fara verr með fé en hinir sem hafa umboð.“

Þessi efnahagsvandamál þróunarríkjanna eru enn önnur afleiðing af úreltri utanríkisstefnu. Halli á fjárlögum Bandaríkjanna var nær 200 millj. dollara á s.l. ári. Mig langar að minnast á ummæli sem ég því miður gat nú ekki fundið tilvitnun í, en var vitnað til í fréttum í fyrri viku. Þá var talað um ummæli sem David Stockman, sem hafði verið fjárhagsráðgjafi Reagans Bandaríkjaforseta, viðhafði í bandarísku tímariti. Hann bar kvíðboga fyrir því hversu lélega ráðgjafa Bandaríkjaforseti hefði og hann óttaðist mjög um ákvarðanir Bandaríkjaforseta vegna þess hve lélega ráðgjafa hann hefði sér við hönd.

Sérhver milljarður dollara, sem bætist við hernaðarútgjöldin, eykur fjárlagahallann. Það leiðir svo aftur til vaxtahækkana sem gera skuldastöðu þróunarríkjanna verri og mörg þeirra geta ekki staðið í skilum með vextina eina hvað þá afborganir af lánunum.

Ein af réttlætingum fyrir vígbúnaðarsmíð hefur gjarnan verið að af henni verði efnahagslegur ávinningur, hún veiti atvinnu og leiði til hagvaxtar. Nefnd á vegum Sameinuðu þjóðanna, skipuð sérfræðingum frá ýmsum ríkisstjórnum, komst að þeirri niðurstöðu á árinu 1981 að eyðsla til hernaðar væri efnahagslega óarðbær, hún leiddi ekki til hagvaxtar heldur þvert á móti hefði áhrif til verðbólgumyndunar og kæmi í veg fyrir fjárfestingu til arðbærrar nýsköpunar. Með því að draga til sín hæfileikafólk á sviði vísinda dregur hún úr framförum og afrakstri vísinda og tækni á öðrum sviðum.

Samkvæmt könnun, sem gerð var í Bandaríkjunum árið 1982 á vegum ráðs um forgangsröðun í efnahagsmálum, „council on economic priorities“ á ensku, skapar hver milljarður, sem Pentagon eyðir til hermála, 28 þús. störf sem ekki eru tengd hernaði. En ef sama fjármagni væri varið t.d. til menntamála mundi það leiða til 71 þús. nýrra starfa. Ef sama fjármagni yrði varið í fataiðnaði mundi það leiða til helmingi fleiri starfa en það gefur nú við smíði landsækinna eldflauga, þ.e. eruise-eldflauga, og geimferja.

Ráðið komst einnig að þeirri niðurstöðu að 50 til 150 þús. ný störf hlytust af því í Bandaríkjunum ef því fjármagni, sem nú er eytt í kjarnorkuvígbúnað, yrði beint til borgaralegs reksturs.

Að baki allra þessara talna liggja grimmilegar staðreyndir þeirrar efnahagsþróunar sem ríkir á okkar dögum. Útgjöld til vígbúnaðar margfaldast meðan frumþörfum milljóna manna er ekki sinnt. Eldflaug, sem ber kjarnaodd, er aðeins sex mínútur á leið sinni frá Vestur-Evrópu til Sovétríkjanna. Venjuleg afríkönsk húsmóðir þarf að ganga margar klukkustundir til að sækja drykkjarhæft vatn. Þetta, hv. þm. - þeir eru ekki margir eftir hér inni - stafar af úreltri hugmyndafræði, óviðunandi verðmætamati og þessu verðum við að breyta. Að þeim orðum sögðum leiðum við hugann að hlutverki smáþjóða á alþjóðavettvangi, smáþjóða eins og Íslendinga. Hvaða hlutverk við höfum til þess að reyna að breyta þessum staðreyndum.

Það er liðin sú tíð að Íslendingar voru nýlenduþjóð og örlög hennar ráðin af herraþjóð sem hafði mál hennar í hendi sér. Eða er ekki svo? Í raun má segja að kjarnorkuveldin drottni yfir örlögum annarra þjóða og hafi öryggi þeirra í hendi sér. Og stórveldunum hefur í raun sjálfum verið falið að forða veröldinni frá kjarnorkuvá. Samningamenn þeirra hafa setið löngum stundum að viðræðum en án mikils árangurs. Í reynd hefur kjarnorkuvopnum fjölgað á meðan úr nokkrum hundruðum í 50 þúsund. Í stað þess að stöðva framleiðslu kjarnavopna eða draga úr fjölda þeirra sem fyrir er hafa samningar í raun snúist um það að ákvarða tegundir og fjölda þeirra vopna sem smíða má.

Það er flestum orðið löngu ljóst að ríkisstjórnir, sem leyfa smíð nokkurra nýrra kjarnavopna á hverjum degi, eru ólíklegar til þess að taka forustu í því að koma í veg fyrir kjarnorkuvá. Vaxandi fjöldi þjóða gerir sér grein fyrir nauðsyn þess að þrýsta á stórveldin til að knýja fram vilja hjá þeim og aðgerðir til að draga úr vígbúnaði og stöðva frekari vopnasmíð. Öll stjórnvöld svara þrýstingi og stórveldin munu svara þrýstingi frá bandamönnum sínum og nágrönnum en einungis ef sá þrýstingur er nógu mikill. Þess vegna er það hlutverk smáþjóðar, eins og annarra þjóða sem æskja friðar og vilja bægja frá kjarnorkuvá, að láta þennan vilja sinn skorinort og ótvírætt í ljós.

Herra forseti. Það er enginn þingmaður staddur hér utan herra forseti sjálfur og ég. (Forseti: Já, það verður ekki gert við því, við höldum áfram fundinum. Við höfum ekki ráð á því að skipa þingmönnum að vera til staðar en fundurinn stendur yfir og umræðum er haldið áfram.)

Það er ekki sæmandi hlutverk að vera talhlýðinn jábróðir sem ævinlega varast það að styggja stóra bróður. Við eigum að rétta úr hrygglengjunni og vera óhrædd við að láta skoðanir okkar í ljós, þær sjálfstæðu skoðanir sem þessi þjóð hefur, eins og komið hefur fram í skoðanakönnunum og í reynd í samþykkt Alþingis um afvopnunarmál frá s.l. vori. Það er t.d. í samræmi við þær skoðanir sem Íslendingar hefðu átt að styðja tillögu Mexíkó, Svíþjóðar og fleiri ríkja á síðasta allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna eins og hin Norðurlöndin gerðu, en ekki að sitja hjá.

Það er sömuleiðis í samræmi við yfirlýstar skoðanir meiri hluta þjóðarinnar í skoðanakönnunum að styðja við hugmyndir um kjarnorkuvopnalaus svæði. Því er eðlilegt að stjórnvöld taki þátt í og stuðli að viðræðum um þetta málefni, þannig að slíkum svæðum verði komið á.

Það er því bæði sjálfsagt og mjög æskilegt að smáþjóð eins og Íslendingar láti til sín heyra á alþjóðavettvangi og styðji þar við þau mál sem mega verða til þess að efla frið og leiða til afvopnunar og stjórnvöld gegni þar því fulltrúahlutverki sem þeim ber fyrir íslenska þjóð.

Hin óbilgjarna stefna stórveldanna í kjarnorkumálum hefur leitt til þess að margar þjóðir velta því fyrir sér hver framtíð þeirra verði innan bandalaga við kjarnorkuveldin. Og komið hefur fram sú skoðun að ýmsar þjóðir muni ekki una því að fylgja þeim að málum ef þau krefjast þess að bandalagslönd þeirra verði að taka við kjarnorkuvopnum sem aðilar að bandalagi við þau, eins og Helen Clark þingmaður og formaður utanríkismálanefndar þingsins á Nýja-Sjálandi hefur sagt nýlega. Sama skoðun hefur komið fram víða í Evrópu, bæði meðal almennings og stjórnmálamanna, þ.e. að jafnvel þótt þjóðir þessar séu fylgjandi því að vera í bandalagi við stórveldi eins og t.d. Bandaríkin þá muni þau ekki una því að kjarnorkuvopn verði staðsett í löndum þeirra. Og þar sem slíkum vopnum hefur verið komið fyrir hefur það gerst þvert ofan í kröftug mótmæli, bæði almennings og margra stjórnmálamanna.

Mig langar til þess að bera fram spurningu í þessu sambandi til hæstv. utanrrh. ef hann er hér. Í samþykkt Alþingis er talað um að kjarnorkuvopn verði ekki leyfð í íslenskri lögsögu, hvorki á landi, lofti né í hafi. Hvernig ætlar hæstv. utanrrh. að framfylgja þessu, hvaða tök hefur hann í raun á því eða hans embætti eða íslensk stjórnvöld almennt að fylgjast með því hvort kjarnorkuvopn eru staðsett í íslenskri lögsögu, hvort flugvélar, sem millilenda á Keflavíkurflugvelli, kunni að bera kjarnorkuvopn, hvort kafbátar, sem koma að landinu, kunni í raun að bera kjarnorkuvopn? Hvaða aðferðum getur hæstv. utanrrh. beitt?

Sú skoðun á sér vaxandi fylgi á þjóðþingum í Evrópu og víðar að nauðsynlegt sé að snúa við þessari óheillavænlegu þróun sem orðin er í vígbúnaðarmálum og hafa ýmsir ráðamenn átt frumkvæði að mikilsverðum aðgerðum. Má sem dæmi nefna frumkvæði sex þjóðarleiðtoga frá fimm heimsálfum, sem áður var getið, þeirra Raúls Alfonsin Argentínuforseta, Rasehids Gandhi forseta Indlands, Miguel de la Madrid Mexíkóforseta, Júlíusar Nyerere forseta Sambandslýðveldis Tanzaníu, Andreasar Papandreu forsætisráðhera Grikklands og Olofs Palme forsætisráðherra Svíþjóðar sem var öllum friðelskandi einstaklingum og þjóðum harmdauði er hann var myrtur fyrir nokkrum vikum. Þessir stjórnmálamenn eru og voru allir meðlimir alþjóðlegra þingmannasamtaka sem beita sér fyrir friðar-, afvopnunar- og þróunarmálum og hafa unnið þarft starf í þeim efnum, m.a. með bréfum reynt að hvetja leiðtoga stórveldanna til aukins samstarfs um afvopnunarmál og reynt að glæða vilja þeirra í þeim efnum. Jafnaðarmenn á Norðurlöndum hafa haft frumkvæði að því að hefja umræður meðal allra stjórnmálaflokka á Norðurlöndum um kjarnorkuvopnalaust svæði á Norðurlöndum og var haldinn fundur um það efni í Kaupmannahöfn í nóv. s.l. Þar tóku til máls meira en 70 þingmenn og lýstu skoðunum sínum. Nú stendur til að halda þessum umræðum áfram og m.a. vísa málinu til meðferðar í nefnd embættismanna sem muni kanna möguleikana á því að koma á slíku svæði og gera um það tillögur til stjórnmálamanna. Ég tel mjög mikilsvert að við styðjum þessa hugmynd og verðum áfram þátttakendur í þessum umræðum.

Það kom glögglega fram víða í skýrslu utanrrh. hve náið samstarf Norðurlöndin hafa haft á alþjóðavettvangi, t.d. á vettvangi Sameinuðu þjóðanna. Það hefur einnig komið fram að Norðurlöndin njóta virðingar sem hópur, hópur velviljaðra upplýstra velferðarríkja, og geta þannig haft töluverð áhrif. Það er því beinlínis skylda þeirra að beita sér sameiginlega og taka frumkvæði að því að knýja á stórveldin um afvopnun, leita nýrra leiða í utanríkis- og öryggismálum til þess að rjúfa þann vítahring sem leiðir vaxandi fjármagn og brothætt öryggi jarðarbúa hring eftir hring og reyndar í spíral stigmögnunar án þess að við verði spornað.

Nú síðast er þessari stigmögnun ætluð leið út í geiminn. Forsendur þeirrar áætlunar og vísindalegar líkur á því að hún sé framkvæmanleg eru vægast sagt hæpnar og ræddi ég geimvarnaáætlun Reagans Bandaríkjaforseta í löngu og ítarlegu máli við umræður um skýrslu utanrrh. í fyrra og vísa ég til máls míns þar.

Sú hugmyndafræði, sem að baki þessari áætlun liggur, er hin sama gamla úrelta sem leitt hefur okkur þær ógöngur sem við höfum ratað í nú, þ.e. að óviðráðanleg vopn verði einungis hamin með nýjum vopnum. Með illu skal illt út reka. En menn skyldu ekki gleyma því að hönd í hönd við þann málshátt gengur annar og hann gildir jafnt um geimvopn og Gaddafi, ofbeldi leiðir af sér ofbeldi.

Ég fékk ekki svar á s.l. ári frá hæstv. fyrrv. utanrrh. um afstöðu hans og ríkisstj. til þessarar draumórakenndu og barnalegu en hættulegu áætlunar. Nú stendur í skýrslu utanrrh. skýrum stöfum afstaða stjórnvalda í þessum efnum. Það hefur áður verið vitnað ítarlega til þessa kafla og ég mun ekki endurtaka hann allan. En ég verð þó að segja að mér finnst fjarskalega barnalegt að láta sér detta í hug að ef niðurstöður geimvarnarannsókna bendi til að geimvarnakerfi geti stefnt heimsfriðnum í hættu, beri risaveldunum að sjá til þess að geimvarnaáætlanir verði aldrei að veruleika. Mér finnst þetta þvílík óskhyggja að ég undrast að það skuli vera sett í skýrslu af þessu tagi. Ég hélt að mennirnir þyrftu ekki annað en að kanna sögu hernaðar, þó það væri ekki nema nokkra tugi ára aftur í tímann. Það hafa aldrei verið smíðuð vopn sem hafa ekki einhvern tíma verið notuð og vopnin eru í raun smíðuð til þess að ógna með þeim, ef ekki nota þau.

Ef áætlun, sem kostar jafnmikið fé, jafnhrikalegt fjármagn og þessi geimvarnaáætlun eða stjörnustríðsáætlun, er lokið og talið verði að hún geti stofnað heimsfriðnum í hættu dettur nokkrum manni í hug að það verði hætt við hana, henni verði pakkað ofan í kassa og hún geymd? Kjarnorkuvopnin eru með okkur og það hefur ekki hvarflað að nokkrum manni á s.l. áratugum að reyna að fækka þeim í reynd, það hefur ekki örlað á pólitískum vilja til þess arna.

En þetta var nú bara barnalegt og það er allt í lagi að mínu mati. Verra og miklu verra þykir mér þar sem sagt er að vert sé að hafa í huga að „geimvarnaáætlun Bandaríkjamanna gerir ráð fyrir stórstígum framförum á sviði tækni og vísinda og má þar nefna upplýsinga-, efna-, orku-, leysigeisla- og kerfistækni. Síðan kemur- og ég vitna áfram, með leyfi forseta:

„Geri Bandaríkjamenn öðrum þjóðum kleift að taka þátt í áætluninni er ljóst að Íslendingar geta, ekki síður en aðrir - Er betra að syndga í góðum félagsskap? Er það það sem þetta er að segja, ef það eru fleiri þá er það allt í lagi? - notið góðs af samvinnunni.“

Mig langar til að spyrja: Hvað er í raun meint með þessu? Á að krækja sér í svolítið fjármagn til þess að fjármagna íslenskan atvinnurekstur, til þess að byggja upp íslenskt hugvit? Hvað er eiginlega meint með þessu?

En hæstv. utanrrh. er ekki sá eini sem vill njóta góðs af samvinnunni. Bæði ráðamenn og vísindamenn í Evrópu hafa séð sér leik á borði að krækja í eitthvað af því gífurlega fjármagni sem renna mun til geimvarnaáætlunarinnar. Þar koma margir siðprúðir menn að matarholunni og vilja fá bita. Þeir koma þangað m.a. til að selja hugvit sitt og þeir virðast ekki hafa minnstu áhyggjur af því að hugvit þeirra og afurðir þess verði notað í hernaðarlegum tilgangi. Þeir eru kannske bara að selja tölvu eða forrit, blásaklaust forrit. Þeim virðist sama hvort hernaðarmálastofnun, menningarmálastofnun, matvælastofnun eða vísindastofnun kaupir af þeim hugvit. Eða hvað? Hvar draga þeir línuna? Mundu þeir selja Gaddafi? Einhverjir selja honum vopn og vígbúnað. Mundu siðprúðir vísindamenn, t.d. á Íslandi, selja honum hugvit sitt sem síðan yrði nýtt í hernaðarlegum tilgangi?

Ríkir kannske engin siðfræði eða siðferðileg ábyrgð í heimi vísindanna? Vitanlega eru vísindi ekkert annað en eitt af því marga sem manneskjur hafa fyrir stafni og tengd allri manneskjunni, takmörkunum hennar, lífi, ábyrgð og stöðu í samfélagi manna. Og það er ekki hægt að rjúfa þau úr tengslum. Þau eru hvergi tárhrein og ferðast ekki í neinu tómarúmi. Þau eru afurð mannsandans sem er samofin líkama mannsins sem á samskipti við aðrar lifandi verur.

Það lítur ekki út fyrir að tillaga okkar þingmanna Kvennalistans, um bann við hönnun og framleiðslu hergagna eða hluta þeirra hér á landi, njóti fylgis allra þeirra sem sitja í utanrmn. Hún er samt að meginefni til samhljóða þeirri tillögu, um bann við dreifingu kjarnorkuvopna, sem Íslendingar eru þegar aðilar að, Non-Proliferation Treaty. En einhverra hluta vegna treystust ekki menn til að samþykkja þessa tillögu. E.t.v. ráða þarna einmitt þær sömu hvatir og eru einna drýgstar til að reka vígbúnaðarkapphlaupið áfram í reynd, en það eru efnahagshagsmunir. - [Fundarhlé.]

Herra forseti. Ég hafði reyndar lokið meginhluta máls míns þegar hlé var gert á umræðu en átti þó eftir í raun að fjalla nokkuð um þá skýrslu sem hér er til umræðu.

Ég fagna því að hæstv. utanrrh. skuli ætla að leggja þá áherslu, sem hér kemur í ljós, á það að sinna í auknum mæli viðskiptahagsmunum Íslendinga erlendis og nota utanríkisþjónustuna sem farveg til þess að sinna þeim málum. Á þessu hefur lengi verið brýn þörf og er það mjög jákvætt ef hann getur tvinnað saman fyrri reynslu sína úr viðskrn. og þá reynslu sem hann fær nú af þessu embætti til þess að auka og efla markaðsöflun okkar Íslendinga erlendis. Á því er mikil þörf.

Sömuleiðis tek ég undir að það þarf að gæta vel að stöðu okkar gagnvart Efnahagsbandalagi Evrópu, einkum hvað varðar aðild annarra þjóða að fiskveiðiréttindum á fiskislóðum okkar og að afla nýrra markaða í Asíu, eins og kemur fram í þessari skýrslu.

Varðandi ráðstafanir utanrrh. um innra öryggi þjóðarinnar, þá mun ég fara fram á það að öll umfjöllun um þau mál verði gerð í náinni samvinnu við utanrmn. og henni leyft að fylgjast með þeim málum.

Ég hef þegar tekið á ýmsum þeim málum sem fjallað er um í skýrslunni í ræðu minni áðan. Ég vil þó leggja áherslu á það sem ég gerði líka þá og stendur reyndar í skýrslunni - ég tek eindregið undir það:

„Samskipti austurs og vesturs eru ekki einkamál risaveldanna. Þótt afstaða smáþjóðar til afvopnunarmála skipti ekki sköpum varðandi heimsfriðinn megum við ekki liggja á liði okkar í þessum mikilvægustu málum mannkyns. Okkur ber að marka sjálfstæða afstöðu og hafa áhrif til góðs.“

Þetta vona ég að hæstv. utanrrh. treysti sér til þess að standa við í reynd en ekki að hér liggi einungis fyrir fallega orðuð tillaga um afvopnunarmál sem allir segjast samþykkja og hún sé síðan ekkert annað en orðin tóm og eftir henni sé ekki farið. Þá verður hún lítils virði.

Ég hef áður minnst á geimvopnaáætlunina og ætla ekki að eyða fleiri orðum að henni. En mig langar til þess að ræða það sem segir á bls. 11, með leyfi forseta, um umfjöllun tillögu þeirrar um frystingu kjarnavopna sem borin var fram á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna af Mexíkó, Svíþjóð og fleiri þjóðum. Sú ráðstöfun að sitja hjá við atkvæðagreiðslu um þessa tillögu á síðasta allsherjarþinginu er óviðunandi að mínu mati og hlýtur að þurfa að breytast.

Í umræðu um þessi mál á þinginu á s.l. hausti spurði ég hæstv. utanrrh. hver væru þau atriði í þessari tillögu sem gerðu það að verkum að hann treysti sér ekki til þess að standa við hana eða samþykkja hana. Ég hef í raun ekki fengið nógu gott svar við því. Þau svör að nægjanlegt eftirlit sé ekki fyrir hendi, að raunhæft eftirlit sé ekki fyrir hendi með þeirri frystingu sem þar er farið fram á, það eru rök sem ekki standast tæknilega. Ég veit að það eru til jarðskjálftamælar sem hægt er að koma upp og geta greint allar tilraunir sem gerðar eru með kjarnorkuvopn. Ég veit að bandarískir sérfræðingar, sem hafa unnið við hernaðarmálaráðuneyti, eru jarðfræðingar eða jarðskjálftafræðingar að mennt, hafa látið hafa eftir sér - og stjórnmálamenn ýmsir hafa leitað ráðgjafar þeirra um þessi atriði - að fyrir liggi tæknilegir möguleikar á því að hafa eftirlit með slíkum tilraunum.

Mér finnast því þessar mótbárur vera fyrirsláttur einn og benda til þess að það sé í raun og veru ekki pólitískur vilji til þess að standa að tillögu um frystingu kjarnavopna vegna þess að einhver vilji halda áfram að gera tilraunir með kjarnorkuvopn. Ég vil fara fram á það við hæstv. utanrrh. að hann svari afdráttarlaust: Hver eru raun þau atriði í þessari tillögu sem gera það að verkum að ekki er hægt að samþykkja hana? Ég kem ekki auga á þau sjálf.

Hvað varðar jafnvægi í vígbúnaði og fælingarstefnu þá hef ég svo oft áður talað um það hér úr þessum stól að ég ætla ekki að eyða mörgum orðum að því. En í raun og veru þá er það mikið til af kjarnorkuvopnum að það er löngu, löngu, löngu búið að ná því jafnvægi sem hægt væri að ímynda sér að hægt væri að ná með þeim, það er möguleiki á að drepa hvern mann mörgum sinnum. Þannig að það er ekki um að ræða jafnvægi. Það getur ekki verið röksemd fyrir frekari söfnun þessara vopna.

Hvað varðar þriðju endurskoðunarráðstefnu aðildarríkja samningsins um að dreifa ekki kjarnavopnum, þ.e. NPT eða Non-Proliferation Treaty, þá er tekið fram að fjórða endurskoðunarráðstefnan verði haldin að fimm árum liðnum um þennan samning. En þá langar mig til þess að spyrja hæstv. utanrrh.: Hvernig verður unnið að þessu máli í þau fimm ár þar til næsta ráðstefna verður haldin til þess að fá fleiri ríki til að samþykkja þennan samning? Og ég fagna því að það skuli þó vera það ítarleg úttekt á hinum ýmsu samningum og ráðstefnum sem haldnar hafa verið um öryggismál eins og raun ber vitni í þessari skýrslu, en ég vek jafnframt athygli á því að síðan í síðustu heimsstyrjöld hafa verið um 40 samþykktir, samningar eða samkomulög, sem varða afvopnun og öryggismál, sem tekin hefur verið afstaða til og verið staðfestar. Um það bil fjórðungur þessara samninga snertir á einhvern hátt kjarnavopn. Enginn þeirra samninga hefur þó leitt til þess að eitt einasta kjarnorkuvopn væri eyðilagt eða tekið úr umferð. Það er t.d. um að ræða a.m.k. 8 samninga sem nú eru í gildi og við erum aðilar að. Vandamálið er kannske fyrst og fremst að reyna að framfylgja þeim samningum sem við þegar höfum gert og standa við þá og ekki síst þá stórveldin eða kjarnorkuveldin. Það segir hér á bls. 13, með leyfi forseta, í umræðu um kjarnorkuvopnalaust svæði. Ég hef áður rætt það í máli mínu áðan og mun ekki fara ítarlegar út í það, en ég get ekki fallist á það sem stendur hér:

„Vettvangur umræðu um kjarnavopnalausa Norður-Evrópu eða Norðurlönd er fyrst og fremst innan Atlantshafsbandalagsins.“

Ég get ekki tekið undir þetta. Það hlýtur að vera fyrst og fremst innan Norðurlandanna meðal Norðurlandaþjóða. Þau hljóta að hafa sjálfræði til að ákveða hvort þau vilji verða kjarnorkuvopnalaus og þá með hvaða skilyrðum. Það getur ekki verið fyrst og fremst hlutverk Atlantshafsbandalagsins að ræða slíkt. Mér finnst fáránlegt að þetta skuli standa þarna.

Það er fjallað um aðgerðir vegna alþjóðlegs friðarárs á bls. 16 og ég bar fram fsp. á þinginu til hæstv. forsrh. um þær aðgerðir og þær áætlanir sem stjórnvöld hefðu gert í tilefni af friðarári. Mér fannst svör hans mögur. Mér fundust aðgerðirnar vera seint á ferðinni og vera litlar í raun og veru. Það kom reyndar ekki fram í máli hans að stjórnvöld hefðu lagt tillögur fyrir Félag Sameinuðu þjóðanna á Íslandi í sambandi við þetta ár. Því vildi ég spyrja hæstv. utanrrh., því það er talað um það hér, hvaða tillögur lögðu stjórnvöld fyrir Félag Sameinuðu þjóðanna í þessu sambandi? Og í raun, hvenær á að fara að gera eitthvað í tilefni af þessu ári? Við gerðum ekkert í tilefni af þessu ári í gær áður en þau átök fóru fram sem nú eru í hraðri framvindu. Það var ekkert gert til þess að sýna friðarvilja í gær. Kannske skipta meira máli aðgerðir stjórnvalda og afstaða þeirra heldur en minningarathafnir sem hafa mjög lítið gildi til að minnast friðar.

Á sömu síðu, bls. 16, er rætt um fjármál Sameinuðu þjóðanna. Vegna þeirrar gagnrýni sem ég hafði uppi um úrelta stefnu og leiðir í utanríkismálum hinna ýmsu þjóðríkja vil ég benda á leið til úrlausnar, eina af mörgum leiðum, og hún er sú að efla þær alþjóðastofnanir sem vinna að því að tryggja sameiginlegt öryggi allra jarðarbúa en beinast ekki fyrst og fremst að þeim sérhagsmunum sem öryggi eins lands getur krafist á kostnað annars. Þess vegna mundi ég vilja leggja til að Ísland beitti sér af öllu afli fyrir því að einhverju af því mikla fé sem rennur til vígbúnaðar verði beint til starfsemi Sameinuðu þjóðanna til að gera þær að öflugri stofnun en þær eru í dag og hæfari til þess að sinna hlutverki sínu.

Ég vil líka spyrja utanrrh., því að hér stendur í þessum kafla um Sameinuðu þjóðirnar að skipuð hafi verið 18 manna nefnd til að gera tillögur um lausn fjárhagsvanda Sameinuðu þjóðanna og aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna muni kalla 40. allsherjarþingið saman til framhaldsfunda e.t.v. í apríl eða maí til að ræða hið alvarlega ástand sem ógnar nú sjálfum starfsgrundvelli Sameinuðu þjóðanna, eins og segir, með leyfi forseta: Hvað getur hæstv. utanrrh. sagt okkur nánar af þessu máli? Munu fastafulltrúar okkar á þingi Sameinuðu þjóðanna taka þátt í þessum fundum og getur utanrmn. vænst þess að fá fregnir af þeim málum?

Varðandi Alþjóðavinnumálastofnunina, sem hér er talað um, vildi ég fá að spyrja hæstv. utanrrh. eða hæstv. félmrh. ef hann er viðstaddur um atriði sem samþykkt var á 68. þingi Alþjóðavinnumálastofnunarinnar í Genf, það var 1982. Þar var gengið frá samþykkt, sem er nr. 158, um uppsögn starfs af hálfu atvinnurekenda. Þessi samþykkt mundi kalla á nokkrar breytingar á íslenskri löggjöf ef Ísland á að staðfesta hana af sinni hálfu en Ísland hefur ekki gert það. Þau atriði sem helst má nefna í þessu sambandi eru afmörkun á heimild til tímabundinna ráðninga, að óheimilt sé að segja upp starfsmanni nema gild ástæða sé til þess í sambandi við hæfni eða hegðun eða rekstrarlegar ástæður leiði til þess, að ekki megi segja starfsmanni upp starfi vegna hegðunar hans eða afkasta án þess að honum sé fyrst gefinn kostur á að verja sig gegn þeim aðfinnslum sem fram eru bornar, nema um sérstaklega alvarlegt brot sé að ræða, og síðan segir í samþykktinni með hvaða hætti viðkomandi starfsmaður geti leitað réttar síns. Það mætti tína fleiri atriði til úr þessari samþykkt sem ég mun ekki gera hér, en það má líka fullyrða að ef þessi samþykkt væri staðfest af Íslands hálfu væri stigið stórt framfaraskref í réttindamálum launafólks hér á landi og því vil ég spyrja hæstv. utanrrh. eða félmrh. ef hann er staddur hér hvort farið hafi fram athugun á þessari samþykkt með það fyrir augum að hún verði staðfest af Íslands hálfu og hvort félmrh. eða utanrrh. muni beita sér fyrir því að þessi samþykkt verði staðfest því að hún skiptir miklu máli fyrir réttindi vinnandi fólks.

Í kaflanum um ECOSOC, Efnahags- og félagsmálaráðið, er rætt um samning þann sem við staðfestum á þingi á s.l. ári um afnám alls misréttis gegn konum. Því miður er þessi samningur enn þá einungis orðin tóm. Ég hef ekki orðið vör við það né aðrar þingkonur Kvennalistans að eftir honum væri farið þegar væri staðið að málum hér né heldur það að ríkisstj. hafi haft eitthvert frumkvæði um að standa við þann samning.

Ég mun ekki hafa mörg orð um þessa skýrslu frekar. Ég vil þó minnast á það að á 40. allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna var Ísland meðal þeirra þjóða er fordæmdu viðskiptabannið sem hafði verið sett á Nicaragua af Bandaríkjunum, „enda var það og er skoðun ríkisstj.", segir þar, „að slíkar aðgerðir séu lítt vænlegar til árangurs auk þess sem þær torveldi friðarumleitanir Contadora-ríkjanna á svæðinu.“ Ég vil vekja athygli hæstv. utanrrh. á því að þarna tók hann sjálfstæða ákvörðun gegn þeirri ákvörðun sem Bandaríkin höfðu tekið um málið og ég vil hvetja hann til þess að sýna slíkt sjálfstæði í mannréttindamálum, í friðarmálum og afvopnunarmálum af frekari tilefnum.

Ég mun ekki eyða frekari orðum að kaflanum um þróunarsamvinnu því að hv. þm. Sigríður Dúna Kristmundsdóttir mun ræða um þann kafla auk annarra atriða í þessari skýrslu. Ég vil þó harma það, og mér þykir það skammarlegt, að við skulum enn ekki hafa náð nærri því marki sem við höfum skuldbundið okkur til að láta í té til þróunaraðstoðar. Það vantar jafnmikið og áður á það að við höfum náð því marki sem er ekki nema 0,7% af þjóðarframleiðslu sem við ætlum okkur að verja til þessara mála en það sem við raunverulega látum í té er minna en 0,1%. Það er hreinlega skammarlegt og það eru engar þær efnahagsástæður eða aðstæður á Íslandi sem réttlæta slíkt. Við skulum ekki gleyma því að við erum sjötta ríkasta þjóð í heimi hvað varðar þjóðarframleiðslu.

Hvað varðar kaflann um öryggis- og varnarmál á Íslandi mun ég ekki verja frekari tíma í umfjöllun um hann. En ég vil segja það að það er og hefur verið ævinlega afstaða Kvennalistans að hernaðarbandalög og vopn muni ekki leysa vandamál manna. Við erum andvígar þeim. Við viljum ekki styrkja þau. Við teljum ekki að öryggi Íslands sé betur komið með því að styrkja hernaðarbandalög. Ég vil vísa til þess sem ég sagði áðan að öryggi allra jarðarbúa er sameiginlegt og byggist hvorki á vopnum né hernaðarbandalögum.

Að öðru leyti vil ég taka undir það sem ég sagði upphaflega. Það er í skugga válegra atburða sem við stöndum og ræðum þessi mál hér. Ég spáði því í tali mínu áðan að þær aðgerðir sem Bandaríkjamenn hefðu gripið til, loftárásir á Líbýu, mundu draga á eftir sér slóða, ofbeldi mundi leiða af sér frekara ofbeldi. Það hefur komið á daginn að bara meðan við stöndum hér og ræðum þessi mál hefur framvinda mála orðið nokkuð hröð. Líbýumenn hafa þegar endurgoldið þessa loftárás Bandaríkjamanna með því að skjóta á skotmörk á Ítalíu og Bandaríkjamenn hafa að öllum líkindum hafið aðra loftárás á Líbýumenn. Þetta eru ógnvænlegar staðreyndir og við sáum það í fréttum í hléinu áðan að þær vekja almennan ugg meðal allra þeirra sem leitað var álits hjá, ráðamanna og almennings víða um heim. Ég vænti þess að utanrrh. taki skelegga afstöðu í þessu máli, lýsi yfir vilja sínum og að þingið samþykki ályktun um þessi mál í kjölfar þessarar umræðu.