05.11.1985
Sameinað þing: 11. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 411 í B-deild Alþingistíðinda. (354)

72. mál, jöfn staða og jafn réttur karla og kvenna

Fyrirspyrjandi (Salome Þorkelsdóttir):

Herra forseti. Það var vissulega ánægjuleg tilviljun að 19. júní s.l. voru samþykkt ný lög á Alþingi um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla en einmitt þann dag minntust konur um allt land þess að 19. júní 1915, eða nákvæmlega 70 árum fyrr, öðluðust íslenskar konur full stjórnmálaleg réttindi, þ.e.. kosningarrétt og kjörgengi til Alþingis. Þessi lög komu í stað laga um jafnrétti kvenna og karla frá árinu 1976.

Í þessum nýju lögum er nýmæli að finna m.a. í 22. gr. laganna en skv. henni skal félmrh. leggja fyrir ríkisstjórnina framkvæmdaáætlun til fjögurra ára í senn þar sem kveðið skal á um aðgerðir sem fyrirhugaðar eru til að ná fram jafnrétti kynjanna. Við gerð hennar, þ.e. framkvæmdaáætlunarinnar, skal höfð hliðsjóð af áætlun jafnréttisráðs, sbr. 2. tölul. 15. gr. laganna sem fjallar um verkefni jafnréttisráðs. 2. tölul. hljóðar svo, með leyfi forseta, þ.e. verkefni jafnréttisráðs eru skv. 2. tölul.:

„Að vera stefnumótandi aðili í jafnréttismálum hér á landi. Skal ráðið vinna framkvæmdaáætlun til fjögurra ára í senn og leggja fyrir félmrh. Þar skal kveðið á um aðgerðir til að koma á jafnrétti kynjanna.“

Fyrirspurn mín er á þskj. 77 og hljóðar svo, með leyfi forseta:

1. Hefur framkvæmdaáætlun til fjögurra ára um aðgerðir, sem fyrirhugaðar eru til að ná fram jafnrétti kynjanna, verið lögð fram í ríkisstjórn?

2. Hvenær er þess að vænta að ráðherra leggi áætlunina fyrir Alþingi til umræðu?"