16.04.1986
Efri deild: 77. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3944 í B-deild Alþingistíðinda. (3569)

54. mál, sveitarstjórnarlög

Sturla Böðvarsson:

Virðulegi forseti. Svo sem fram hefur komið hefur í langan tíma verið fjallað um endurskoðun sveitarstjórnarlaganna. Á vettvangi sveitarstjórna markar landsþing Sambands ísl. sveitarfélaga sameiginlega stefnu sveitarstjórna. Þar hefur verið fjallað um grundvallaratriði sveitarstjórnarlaga og mörkuð sú meginstefna að í landinu verði tvö stjórnsýslustig, þ.e. sveitarfélög og ríki, þar sem sveitarfélögin hafi svæðisbundið samstarf á grundvelli héraða og landshluta svo sem þróast hefur eftir verkefnum.

Það frv. sem hér er til lokaafgreiðslu er í meginatriðum samið af nefnd sveitarstjórnarmanna, svokallaðri endurskoðunarnefnd, en í þeirri nefnd áttu þingflokkar fulltrúa auk þess sem Samband ísl. sveitarfélaga tilnefndi fulltrúa í þá nefnd. Að gefnu tilefni vegna andstöðu Alþfl. og Alþb. er rétt að minna á að meðal nefndarmanna sem sömdu þetta frv. í meginatriðum voru oddvitar sveitarstjórnarmanna í Alþfl. Magnús H. Magnússon og í Alþb. Sigurjón Pétursson.

Frv. ber þess auðvitað merki að ótal málamiðlanir hafa verið gerðar svo meginlínur mætti leggja og koma á endurbótum á þessari mikilvægu löggjöf sem varðar grunneiningu íslenskrar stjórnsýslu. Það er löngu vitað að með breyttum tímum, breyttum verkefnum sveitarfélaga, m.a. vegna margs konar löggjafar, hefur reynst nauðsynlegt að færa sveitarstjórnarlög að þeim starfsháttum og verkefnum sem nútíminn gerir kröfu til.

Ég mun ekki við lokaafgreiðslu þessa máls ræða forsendur breytinga eða gagnrýni á frv. heldur gera nokkra grein fyrir þeim meginendurbótum sem ég tel að frv. feli í sér. Ég hirði heldur ekki um að gera úttekt á málflutningi stjórnarandstöðunnar sem mótast m.a. af því að einstakir flokkar hafa ekki mótað málefnalega afstöðu til sveitarstjórnarmála svo sem fram kom hér í deildinni við 2. umr. hjá hv. 5. landsk. þm. um afstöðu Alþfl.

Hins vegar mætti margt um málflutning stjórnarandstöðunnar segja, en ég læt það kyrrt liggja að þessu sinni. Umræður um þetta frv. hafa verið töluvert miklar og það hefur fengið góða og ítarlega umfjöllun á vettvangi sveitarstjórna og á vettvangi flestra flokkanna. Þá eru meginbreytingartillögur við frv. byggðar á ályktun flokksráðs Sjálfstfl.

Svo sem fram hefur komið fyrr í ræðu minni byggir frv. á þeirri meginstefnu að stjórnsýslustigin verði tvö. Um það hefur ekki verið mjög mikið deilt í röðum sveitarstjórnarmanna svo sem ályktanir landsþings og fulltrúaráðsfunda ár eftir ár bera með sér. Hins vegar hefur komið fram að ýmsir telja að landsbyggðin muni því aðeins styrkja stöðu sína að inn komi þriðja stjórnsýslustigið er taki við verkefnum bæði frá ríki og sveitarfélögum. Á þessa röksemd get ég ekki fallist og tel að staða landsbyggðarinnar eða einstakra landshluta muni ekki, þegar til lengri tíma er litið, ráðast af stöðu stjórnsýslunnar í landinu þó að hún hafi veruleg áhrif að sjálfsögðu.

En svo ég víki að frv. eru meðal nýmæla og endurbóta í frv. mörg atriði og ég vil nefna sex þau mikilvægustu auk lækkunar kosningaaldurs í 18 ár.

1. Ákvæði eru um lágmarkstölu íbúa í sveitarfélögum. Fellt er inn í heildarlöggjöf ákvæði er varðar sameiningu sveitarfélaga þó ekki sé þar gengið eins langt í þeim efnum og t.d. Alþfl. hefur lagt til. Fæ ég ekki séð hvernig Alþýðuflokksmenn hugsa sér að ná fram því stefnumarki sínu að sameina sveitarfélög strax þannig að 400 íbúar verði lágmarkstala hvers sveitarfélags.

2. Mjög ítarleg ákvæði og nauðsynleg eru um skyldur og réttindi sveitarstjórnarmanna og fjármál sveitarfélaga auk þess sem ítarleg ákvæði eru um nefndir og ráð og tengsl þeirra við sveitarstjórnir sem er afar mikilvægt atriði. Auðvitað er hér ekki um að ræða þætti er varðar beint lífsafkomu ákveðinna landshluta, en engu að síður er hér um að ræða mikilvæg atriði sem varða stjórnun sveitarfélaga.

3. Heimild er til að kjósa nefnd til að fara með afmörkuð málefni í hluta sveitarfélaga. Hér er um að ræða valddreifingu og nýmæli sem heimila að ákveðin verkefni sem að mati sveitarstjórna eru best komin í höndum þeirra sem á viðkomandi svæði búa verði í höndum sérstakrar nefndar. Má ætla að þetta ákvæði verði nýtt ef um sameiningu ákveðinna sveitarfélaga verður að ræða. Skv. 58. gr. frv. má ákveða að slík nefnd verði kjörin í almennum kosningum í sveitarhlutanum. Er hér tvímælalaust um að ræða mikilvægan þátt er varðar minni sveitarfélögin ekki síður en hin stærri.

4. Með frv. er gerð sú breyting að réttarstaða allra sveitarfélaga er gerð hin sama. Með samþykkt brtt., sem var kynnt í deildinni nú fyrir stuttu, mundi þetta mikilsverða ákvæði ekki ná fram að ganga. Svo sem hv. þm. þekkja hafa hreppar ekki verið í raun fjárráða og hafa þurft leyfi sýslunefndar til lántöku yfir ákveðnum mörkum og á sama hátt varðandi kaup og sölu fasteigna, auk þess sem sýslunefndir hafa í raun haft ótakmarkaða skattlagningarheimild á hendur sveitarfélögunum. Með frv. er sjálfstæði sveitarfélaganna staðfest en skv. 6. gr. skulu sveitarfélögin hafa sjálfstæða tekjustofna og sjálfsforræði á gjaldskrám eigin fyrirtækja og stofnana svo að reka megi þau með eðlilegum hætti.

5. Ákvæði eru um samstarf sveitarfélaga sem marka tímamót. Megináhersla er lögð á hvert eitt sveitarfélag, en samstarf verði frjálst og óþvingað svo sem þróast hefur víða um einstök verkefni. Ég tel að með þessum hætti verði ekki á nokkurn hátt gengið á hlut litlu sveitarfélaganna og tel ég að samstarf, bæði á héraðsgrundvelli og landshlutagrundvelli eins og það hefur þróast á undanförnum árum, hafi sannað það. Það samstarf verður nú á grundvelli héraðsnefnda eða byggðasamlaga sem munu styrkja litlu sveitarfélögin til átaka við það mikilsverða verkefni að bæta búsetu í landinu. Það verður ekki gert með tilstyrk annarra en heimamanna sem kjörnir eru til þeirra verka.

6. Ákvæði eru í frv. um samráð ríkis og sveitarfélaga og gerð samstarfssáttmála. Að vísu hefur nú þegar verið komið á slíkum samstarfssáttmála, sem á eftir að þróast og verða gildari en hann hefur þegar orðið, en það mun verða þegar sveitarstjórnir hafa styrkt stöðu sína á grundvelli nýrra laga.

Það hefur komið fram í máli sumra hv. þm. að þeir telja að frv. gangi of skammt meðan aðrir telja að of langt sé gengið í breytingum og óttast hag hinna minni sveitarfélaga þegar sýslunefndir hætta störfum. Um það vil ég segja að að engin hætta er á ferðum, síður en svo, um grundvallarbreytingar verður hins vegar einungis að ræða á sviði sveitarstjórna og til eflingar byggðanna að þessu frv. verði fylgt eftir með nýrri tekjustofnalöggjöf fyrir sveitarfélögin og róttækri uppstokkun á hinum beinu samskiptum ríkis og sveitarfélaga. Á ég þar einkum við að verkefnum verði með þeim hætti skipt að hrein og glögg skil verði um framkvæmdir og fjármálalega ábyrgð milli ríkis og sveitarfélaga.

Að lokum vil ég minna á að hversu góð löggjöf sem sett verður um stjórnsýslu ræður hún ekki úrslitum um stöðu landshlutanna. Þar mun t.d. ráða úrslitum löggjöf um stjórnun veiða, stefna í skattamálum, löggjöf um húsnæðismál, stefna lánastofnana og afstaða þeirra til einstakra atvinnugreina og landshluta. Á þeim sviðum munu úrslit ráðast hjá landsbyggðinni og þá allri þjóðinni þegar fram líða stundir.