05.11.1985
Sameinað þing: 11. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 415 í B-deild Alþingistíðinda. (360)

82. mál, loðnubræðsla á Reyðarfirði

Fyrirspyrjandi (Helgi Seljan):

Herra forseti. Heldur þóttu mér nú magrar skýringar hjá þeirri stjórn sem þarna svaraði spurningum hæstv. ráðh. og ber þó svo mikla ábyrgð á þessum málum að hæstv. ráðh. segir að í raun og veru beri hann enga ábyrgð á því heldur þessi stjórn sem svarar svo að miklu leyti út í hött eins og raun bar vitni um.

Það er talað um það t.d. að þegar ljóst hafi verið að viðlegukantur kæmi ekki fyrir framan bræðsluna hafi verið farið í að panta ákveðið tæki, þurrdæluna. Ég sem heimamaður kannast alls ekki við að til hafi staðið nokkurn tíma að þessi viðlegukantur væri byggður á þessu ári, enda ekkert fjármagn til þess, og skil ekki hvaðan stjórn Síldarverksmiðja ríkisins er komin þessi speki.

Ég er ekki að átelja endurbæturnar á Siglufirði. Það tók ég skýrt fram. En það má heita með miklum undrum þegar svo mikið fjármagn er til ráðstöfunar eins og þar er að ekki skuli vera hægt að fá á eðlilegum tíma það eina tæki sem vantaði á Reyðarfjörð. Það er umhugsunarefni svo sannarlega að það skuli ekki hafa verið hægt.

Ég bendi á að vitanlega má segja að Reyðarfjörður liggi ekki vel við miðunum sem stendur. Ég get tekið undir það. En þá er kannske komið að því sem hæstv. ráðherra lét liggja að hér í orðum sínum að það sé ekki gengið nógu vel fram í að afla hráefnis og þá ábyrgð ætla ég stjórn Síldarverksmiðjanna að axla, fyrst og síðast. Það er greinilegt að þær leggja ekki, eða stjórn SR þar af leiðandi ef má taka þessi orð bókstaflega, mikla áherslu á að afla hráefnis til þessa staðar. Og hann skal því skv. þessu mæta afgangi; það er alveg ljóst.

Það hefur verið mjög í umræðunni að hálfopinbert löndunarbann flotans sé komið á í raun og veru - það hefur komið fram í fjölmiðlum m.a. - vegna mistaka og alvarlegs ágreinings um loðnumagn sem hæstv. ráðherra segir að leiðrétt hafi verið. Ekki dreg ég úr því að það hafi haft sín áhrif nú þegar löndunarbið hefur verið, þegar margsinnis hefur verið sagt frá því að um löndunarbið hafi verið að ræða annars staðar. Hér kemur auðvitað inn í ýmislegt annað, t.d. yfirborganir einstakra aðila. Það eru viðkvæm mál sem ég ætla ekki að fara út í hér, en það er rétt sem hæstv. ráðherra kom inn á að Síldarverksmiðjur ríkisins töldu sig verða að greiða hærra fyrir loðnuna heldur en verðákvörðun segir til um og það hefði því átt að koma verksmiðjunni á Reyðarfirði jafnt til góða og öðrum verksmiðjum Síldarverksmiðja ríkisins.

Vel getur verið að það eitt geti bjargað verksmiðjunni á Reyðarfirði að hún fái hráefni, að nógu mikið verði veitt af loðnu og nógu fljótt því að annað virðist ekki í augsýn frá þeim sem þar eiga að stjórna málum.