16.04.1986
Neðri deild: 81. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3979 í B-deild Alþingistíðinda. (3644)

387. mál, þjónustu- og endurhæfingastöð sjónskertra

Guðrún Helgadóttir:

Herra forseti. Það er kannske of djúpt í árinni tekið hjá hv. frsm. að nefndin hafi klofnað um þetta mál. Svo stórt mál er þetta ekki að það orðalag eigi við. En okkur hv. þm. Guðrúnu Agnarsdóttur þótti að hér mætti betur gera og til lengri framtíðar en sú till. gerir ráð fyrir sem hæstv. ráðh. lagði fram.

Hv. þm. Guðmundur Bjarnason hefur reyndar þegar rakið hvað hér er á ferðinni, en ef ég mætti, herra forseti, lesa 2. gr. í lögum um þjónustu- og endurhæfingarstöð sjónskertra hljóðar hún svo:

„Ráðherra skipar yfirlækni að fengnum tillögum stöðunefndar skv. lögum nr. 59 frá 1983, um heilbrigðisþjónustu. Aðrir starfsmenn skulu ráðnir af stjórn stöðvarinnar.“

Síðar kemur seinni hluti greinarinnar sem er að okkar mati dálítið annarlegur. Þar stendur, með leyfi forseta: „Ráðherra er heimilt að semja við augndeild sjúkrahúss að annast læknisþjónustu á vegum stöðvarinnar og yrði yfirlæknir augndeildar jafnframt yfirlæknir stofnunarinnar.“

Í fyrsta lagi er dálítið kyndugt að hafa það í lagagrein að ráðherra sé heimilt að semja við eina sjúkrastofnun um samstarf við aðra. Slíkt á eiginlega tæplega að þurfa. Það gefur auga leið að sjónstöðin hlýtur að leita til augndeildarinnar á Landakotsspítalanum með allar meiri háttar aðgerðir vegna þess einfaldlega að þær eru ekki annars staðar gerðar.

Síðan gerist það einfaldlega að þegar sjónstöðin tekur til starfa er yfirlækni augndeildar falið að annast jafnframt þetta starf á sjónstöðinni. Það kemur fljótlega í ljós að hann annar því engan veginn og telur ekki að hann komist yfir bæði þessi störf og felur þess vegna samstarfsmanni sínum á augndeildinni að taka við þessu starfi. Þetta eru aftur á móti dálítið óvenjulegar aðferðir við að ráða starfsmenn og ekki að undra þó að Augnlæknafélagi Íslands þætti vald þess virðulega yfirlæknis orðið allverulegt. Það stendur þess utan, eins og lögin eru núna, að jafnframt verði yfirlæknir augndeildar yfirlæknir stofnunarinnar. Þá þótti hæstv. ráðherra rétt að sú lína félli í öllu falli út.

Ég vona að þetta sé nú ekki allt of flókið. Málið er einfaldlega þannig að Augnlæknafélaginu og raunar Læknafélagi Íslands líka þykir eðlilegast að þarna sé staða auglýst og maður ráðinn til að stjórna þessari stöð og vera yfirlæknir hennar. Ég vil benda á að engum hefur nokkurn tíma dottið í hug að ekki sé sérstakur yfirlæknir sem stjórnar heyrnar- og talmeinastöðinni.

Við hv. þm. Guðrún Agnarsdóttir vildum hreint ekki tefja framgang þessa máls. Við skiljum mætavel að hæstv. ráðherra er að laga svolítið til þetta klúður sem upp er komið. En einfaldast er að allur síðari hluti 2. gr., þ.e. 2. málsgr., falli niður. Þá er þetta mál leyst, samstarfssamningur úr gildi fallinn og ekkert á móti því að auglýsa stöðuna eins og lög gera ráð fyrir.

Að lokum vil ég aðeins vitna í bréf frá Augnlæknafélagi Íslands sem skrifað er til heilbr.- og trn. 10. apríl s.l., með leyfi forseta:

„Stjórn Augnlæknafélags Íslands leggur eindregið til að lögum um þjónustu- og endurhæfingarstöð sjónskertra verði breytt þannig að 2. málsgr. 2. gr., þar sem stjórn sjónstöðvarinnar er heimilað að semja við augndeild sjúkrahúss varðandi læknisþjónustu, verði öll felld niður.“

Ég og hv. þm. Guðrún Agnarsdóttir erum hjartanlega sammála því að þetta væri best fellt út úr lögunum og við leggjum til við hv. deild að svo verði gert. Ég get ekki séð að þetta geti verið hæstv. ráðherra, sem ég sé ekki að sé hér viðstödd, mjög á móti skapi og hef rætt það lítillega við hana. Okkur fannst það ekki mikið tilfinningamál en ég sakna þess raunar að heyra ekki hennar skoðun á því máli.

Fallist menn ekki á þessa till. okkar hv. þm. Guðrúnar Agnarsdóttur þá munum við ekki tefja framgang þessa máls, við teljum það nú ekki svo stórkostlegt. En vissulega held ég að lögin væru betri eftir þessa breytingu.