05.11.1985
Sameinað þing: 12. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 432 í B-deild Alþingistíðinda. (369)

23. mál, aukafjárveitingar

Kjartan Jóhannsson:

Herra forseti. Iðnrh. hélt alllanga ræðu. Inntakið í þeirri ræðu var í rauninni þetta: Ég, Albert Guðmundsson, er bandamaður stúkunnar, IOGT, íþróttahreyfingarinnar, Lionsklúbbanna, kvennanna og Guðs almáttugs. Þetta var inntakíð í ræðu hæstv. iðnrh. Þm. hafa verið vondir við konurnar, við íþróttahreyfinguna, við stúkuna og við kirkjuna. Þeir hafa skammtað of naumt. Skömmtuðu þeir naumar en það fjárlagafrv. sem fjmrh. lagði fram á sínum tíma? Ég bara spyr. Ég held að þessi einkunnagjöf til þingmannanna sé ekki sanngjörn.

Iðnrh. sagði líka að aldrei áður hefði þetta verið birt. Ég veit nú ekki betur en að fjáraukalög verði að leggja fram hér á þingi og samþykkja og þeirri lagakvöð hafi ævinlega verið fylgt. Ég veit ekki hvort þm. hafa verið svo hæverskir hér á árum áður að þeir hafi aldrei borið fram neinar fsp. um aukafjárveitingar, en ef það hefur ekki verið hefur hæverska þeirra verið mikil. En það hefur þeim ævinlega verið frjálst að gera. Vitaskuld. Þeir hafa þá væntanlega ekki talið ástæðu til þess.

Ég ætla ekki að halda hér langa ræðu, herra forseti, aðeins gera eina athugasemd vegna þess að hæstv. iðnrh. gerði að umtalsefni að ég hefði minnst á Þroskaþjálfaskólann. Hann sagði: Þroskaþjálfaskólinn kemur ekki til fjmrh. nema hann sé í vandræðum. En það kemur fram í svari við fsp. að það var ekki Þroskaþjálfaskólinn sem var í vandræðum. Það var sá sem hann leigir af. Kostnaðaraukinn er vegna nýs húsaleigusamnings. Þær fjárhæðir sem þar um ræðir renna til þess sem leigir húsnæði til Þroskaþjálfaskólans.

Aðalatriðið er vitaskuld að það verður ekki annað ráðið af þessari umræðu en að a.m.k. allir þm., hæstv. iðnrh. og ég trúi hæstv. núverandi fjmrh. séu sammála um að um aukafjárveitingar eigi að vera skýrar reglur, þær reglur þurfi að setja og mál þarfnist endurskoðunar af þeim sökum.

Hv. þm. Guðrún Helgadóttir sagði að fjmrh. væri líklega í hlutverki prinsins sem hefði komið til þess að kyssa Þyrnirósu. Ég veit það ekki. En það var líka saga til af gullasnanum sem þurfti ekki annað en að hrista sig og þá hrundu gullpeningarnir úr báðum endum. Kannske er hann hvort tveggja.