17.04.1986
Sameinað þing: 77. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 4044 í B-deild Alþingistíðinda. (3720)

Almennar stjórnmálaumræður

Guðrún Agnarsdóttir:

Herra forseti. Góðir áheyrendur. Árið 1986 var valið sem alþjóðlegt friðarár á vegum Sameinuðu þjóðanna. Það þótti vel viðeigandi í tilefni af 40 ára afmæli þeirrar stofnunar þar sem varðveisla friðar var einmitt megintilgangurinn með stofnun Sameinuðu þjóðanna í lok síðari heimsstyrjaldarinnar.

Enn lifir tæpur fjórðungur þessa friðarárs þegar þeir atburðir hafa gerst sem stefna heimsfriði í verulega hættu. Hinar vítaverðu loftárásir Bandaríkjamanna á Líbýu hafa vakið ótta og andúð meðal almennings og ráðamanna flestra Evrópuþjóða þótt þær virðist njóta stuðnings heima fyrir. Bandaríkjamenn virðast trúa því að með illu megi illt út reka, en virðast ekki, þrátt fyrir dýrkeypta reynslu sína í Víetnam, muna eða skilja að skæruhernaður og hryðjuverkastarfsemi verða trauðlega brotin á bak aftur með loftárásum. Þeir virðast heldur ekki muna eftir því að ofbeldi leiðir af sér ofbeldi.

Sú stigmögnun, sem margir óttuðust, er þegar orðin og fáir trúa því að hryðjuverkamönnum hafi verið gefin sú ráðning sem dugar, hve fegnir sem menn vildu þó vera lausir við voðaverk þeirra. Miklu líklegra er að þeir færist í aukana og sæki í sig veðrið til hefnda. Aðgerðir Bandaríkjamanna eru því líklegar til að draga á eftir sér slóða, sem enginn veit hvar endar. Bandamenn Líbýumanna, Sovétríkin, og Bandaríkin eru farin að senda hvort öðru tóninn og heimsbyggðin horfir kvíðin á fjöregg sitt í höndum tröllanna.

Atburðir síðustu sólarhringa vekja upp fjölda hugsana og spurninga sem mig langar að víkja að í máli mínu hér vegna þess hve mikilvægar þær eru. Hvernig stendur á því að stórveldi eins og Bandaríkin lætur öfgafullan einræðisherra smáþjóðar mana sig til svo óábyrgra og hættulega skammsýnna aðgerða? Það hlýtur að leiða hugann að hæfni núverandi ráðamanna til að gegna því forustuhlutverki sem þeir hafa og jafnframt að því hvers konar ráðgjafa Bandaríkjaforseti hefur valið sér.

Þessar loftárásir voru gerðar þvert gegn vilja helstu ráðamanna Evrópuríkja utan Breta. Það leiðir hugann að því hvert neitunarvald og sjálfræði bandalagsþjóðir stórvelda hafa þegar til kastanna kemur. Verður tekið tillit til óska þeirra og eindregins vilja ef upp kemur sú staða að ráðamönnum stórveldis hugkvæmist að beita kjarnorkuvopnum?

Hin óbilgjarna stefna stórveldanna í kjarnorkumálum hefur leitt til þess að margar þjóðir velta því fyrir sér hver framtíð þeirra verði innan bandalaga við kjarnorkuveldin. Austur-Evrópuþjóðir eiga fárra kosta völ í þessum efnum. En sú skoðun er ríkjandi meðal almennings víða í Vestur-Evrópu að jafnvel þótt þjóðir þeirra séu fylgjandi aðild að bandalagi við Bandaríkin þá muni þær ekki una því að kjarnorkuvopn verði staðsett í löndum þeirra. Þrátt fyrir þessa skoðun hefur kjarnorkuvopnum verið komið fyrir í sumum þessara landa, t.d. Bretlandi, Vestur-Þýskalandi og nú síðast Hollandi, með því að beita þrýstingi á stjórnvöld og gegn kröftugum mótmælum, bæði almennings og margra stjórnmálamanna.

Vígbúnaðarkapphlaupið byggir á sömu forsendum og það hefur ævinlega gert og nýjum og betri vopnum er ætlað að bera sigur af þeim sem fyrir eru. Fleiri vopn eiga að tryggja meira öryggi. Mergurinn málsins er þó sá að þessi röksemdafærsla gildir ekki um kjarnorkuvopn. Afleiðingar af notkun aðeins örlítils hluta þeirra mun hafa tortímingu í för með sér jafnt fyrir þá sem fyrir vopnunum verða og hina sem beita þeim. Engu jafnvægi er því hægt að ná í þeim leik.

Árið 1944 orti skáldkonan Hulda hátíðarljóð í tilefni af stofnun hins íslenska lýðveldis, þar sem segir:

Með friðsæl býli, ljós og ljóð

svo langt frá heimsins vígaslóð.

42 árum síðar finnst enginn staður á þessari jörð sem gæti verið óhultur fyrir áhrifum þeirra kjarnorkuvopna sem stórveldin hafa sankað að sér. Svo miklu hefur nú verið safnað að ætla má hverju mannsbarni jafngildi 4 tonna af sprengjuefni og mætti því deyða hvern mann nokkru oftar en einu sinni ef það væri hægt.

Samt heldur söfnunin áfram og hún kostar ekkert smáræðis fé. Til hennar var sólundað á s.l. ári 800-1000 milljörðum dollara. Það er um þúsundföld upphæð íslenskra fjárlaga þessa árs. Það virðist ekki öllum nægilega ljóst hve skaðvænlegar pólitískar og efnahagslegar afleiðingar hljótast af vaxandi kostnaði við vígbúnaðarkapphlaupið. En hernaðar- og gróðahyggja gagnsýrir pólitíska hugsun um víða veröld í allt of ríkum mæli.

Sá baggi, sem kjarnorkuveldin og önnur vopnaframleiðslulönd binda sér vegna þessara útgjalda, er skoplítill miðað við þau efnahagsáhrif sem þessi fjársóun hefur í þróunarlöndunum. Halli á bandarískum fjárlögum á s.l. ári var um 200 milljarðar dollara og má reikna með svipuðu ástandi í Sovétríkjunum, en þessi stórveldi eru ábyrg fyrir meira en helmingi allra útgjalda til hermála.

Vaxandi fjárlagahalli leiðir til vaxtahækkana, sem gerir skuldastöðu þróunarríkja erfiðari. Það fé, sem eytt er til vígbúnaðar árlega, jafngildir þjóðarframleiðslu allra þeirra landa þar sem fátækari helmingur jarðarbúa býr. Þessi árlega eyðsla jafngildir allri skuld hinna fátækari þjóða við hinar efnaðri, en vaxtagreiðslur af þessum skuldum eru að kyrkja efnahagslíf margra fátækra þjóða.

Um 2 millj. manna eiga ekki kost á hreinu drykkjarvatni, en sýkingar af völdum mengaðs drykkjarvatns eru tíðasta dánarorsök ungbarna. Er talið að nokkrar milljónir barna deyi af þessum sökum á hverju ári. Jafnvirði þriggja vikna hernaðarútgjalda gæti þó útvegað heilnæmt drykkjarvatn handa öllum jarðarbúum. Fyrir áratug dóu 2 milljónir manna árlega úr bólusótt. Með því að verja 300 millj. dollara til bólusetninga tókst að útrýma þessum erkióvini mannsins á nokkrum árum. Þessar 300 millj. mundu samsvara 5 klst. hernaðarútgjöldum. Hernaðarútgjöld í hálfan dag mundu nægja til að útrýma malaríu.

Góðir áheyrendur. Hugsið ykkur alla sjúkdómana sem við kunnum læknisráð við í dag og gætum losað okkur við. Og hvað með mannvitið og fjármagnið sem flytja mætti frá hernaði yfir í rannsóknir á sjúkdómum, eins og krabbameini? Hver mundi ekki vilja losna við það?

Og hvað með hungrið, atvinnuleysið og ólæsið? Um 900 milljónir manna eru ólæsar, um 600 milljónir atvinnulausar og um 600 milljónir manna eru vannærðar eða líða hungur. Ef allur heimur er hafður í huga er 450 dollurum að jafnaði varið til mennta til hvers barns en kostnaðurinn við hvern hermann er aftur á móti 25 þús, dollarar. Þarna var skrýtin forgangsröð, góðir áheyrendur, hjá þjóðríkjum heimsins. Hverjum skyldu þau ætla að erfa löndin? Varla hermönnum.

Að baki allra þeirra talna, er ég áður nefndi, liggja grimmilegar staðreyndir um þá efnahags- og félagslegu þróun sem ríkir á okkar dögum. Útgjöld til vígbúnaðar margfaldast meðan frumþörfum milljóna manna er ekki sinnt. Eldflaug, sem ber kjarnaodd, er aðeins 6 mínútur á leið sinni frá Vestur-Evrópu til Sovétríkjanna. Venjuleg afríkönsk húsmóðir þarf að ganga margar klukkustundir til að sækja drykkjarhæft vatn.

En hverjir eru það sem velja slíka forgangsröð? Eru það stjórnmálamenn? Ekki nema að litlu leyti. Hópur enskra vísindamanna telur að í raun og veru séu það fyrst og fremst hergagnaframleiðendur og herforingjar sem taki úrslitaákvarðanir um hönnun og smíð vígbúnaðar á Vesturlöndum og þetta er áætlaður hópur sem ekki telur nema um 800 manns. Líklegt er að svipað gildi í Sovétríkjunum.

Stjórnmálamennirnir standa oft frammi fyrir gerðum hlut eftir að miklu fé hefur verið varið til rannsókna og tilrauna og eru neyddir til að samþykkja hverja áætlunina á fætur annarri. En fjármagnið, sem viðheldur vígbúnaðarkapphlaupinu, það kemur frá skattgreiðendum, frá fólkinu sjálfu.

Er þessi þróun í samræmi við vilja fólksins? Er það vilji fólksins að kosta meiru á hermennina en börnin? Er það vilji fólksins að búa við hið brothætta öryggi kjarnorkuváarinnar? Því trúi ég ekki, enda sýna niðurstöður skoðanakannana að svo er ekki.

Á þessari öld hefur mönnum orðið það æ ljósara að þjóðir heimsins mynda eina heild. Öryggi allra þjóða er sameiginlegt og engin ein þjóð getur nú á dögum tryggt sér öryggi umfram aðrar eða á kostnað annarra. Því er sú sérhyggna hagsmunaþrönga utanríkisstefna, sem ríkt hefur víða um heim, úrelt og hættuleg og við verðum að beita nýjum hugmyndum og leita nýrra leiða við að tryggja sameiginlegt öryggi og hugsa í miklu víðara samhengi en við höfum áður gert með hagsmuni allra jarðarbúa í huga.

Vaxandi fjöldi þjóða gerir sér grein fyrir nauðsyn þess að þrýsta á stórveldin til að knýja fram vilja hjá þeim og aðgerðir til að draga úr vígbúnaði og stöðva frekari vopnasmíð. Öll stjórnvöld svara þrýstingi og stórveldin munu svara þrýstingi frá bandamönnum sínum og nágrönnum en einungis ef sá þrýstingur er nógu mikill. Þess vegna er það hlutverk smáþjóðar eins og Íslendinga, sem æskja friðar og vilja bægja frá kjarnorkuvá, að láta þennan vilja sinn og skoðanir skorinort og ótvírætt í ljós, þær skoðanir sem meiri hluti Íslendinga hefur lýst í skoðanakönnunum og hafa reyndar komið fram í samþykkt Alþingis um afvopnunarmál á s.l. vori.

Það er í samræmi við þær skoðanir sem Íslendingar hljóta að styðja tillögu Mexíkó, Svíþjóðar og fleiri ríkja á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna um frystingu kjarnorkuvopna, eins og hin Norðurlöndin gerðu, en ekki að sitja hjá eins og síðast var gert.

Það er sömuleiðis í samræmi við yfirlýstar skoðanir meiri hluta þjóðarinnar í skoðanakönnunum að styðja hugmyndir um kjarnorkuvopnalaus svæði og því er eðlilegt að Íslendingar taki fullan þátt í og stuðli að umræðum um þau mál á Norðurlöndum.

Góðir áheyrendur. Ég hef kosið að verja meginhluta máls míns hér í kvöld til að ræða um ástand mála á alþjóðavettvangi. Það er fyrst og fremst vegna þess að ærið tilefni hefur gefist til þess, en einnig vegna þess hve mikilvæg þessi mál eru og sjaldan rædd í almennum stjórnmálaumræðum á Alþingi.

Af nógu er þó að taka á innanlandsvettvangi og vegna þess sem ég áður sagði um frið og öryggi má geta þess að misrétti og skortur á jöfnuði eru afgengar orsakir fyrir ófriði og ofbeldi. Þó að við hyggjum að alþjóðamálum og fordæmum það hrópandi misrétti, sem þar blasir við, skulum við gæta okkar því að misréttið fer vaxandi á Íslandi.

Nú síðast var það lögfest í kjölfar nýgerðra kjarasamninga. Eitt það alvarlegasta við þá samninga var að engin tilraun var gerð til að hrófla við tekjuskiptingunni í þjóðfélaginu. Það var þvert á móti staðfest að hér skuli ríkja láglaunastefna sem skipar fjórðu hverri fjölskyldu undir fátæktarmörk. Slíkt er óþolandi og óverjandi frá siðferðilegu sjónarmiði, en auk þess er það ákaflega dýrkeypt fyrir efnahag þjóðarinnar. Við höfum ekki efni á því að leiða svo stóran hóp manna í fátækragildru. Þetta er þeim mun ófyrirgefanlegra af því að öll ytri skilyrði eru svo hagstæð og hefðu í raun leyft að mun betur væri gert.

Aðgerðir þessarar ríkisstj. í efnahagsmálum og úrræða- og aðgerðaleysi hennar í húsnæðismálum hafa leitt stóran hóp manna í gapastokk, þar sem ríkir örvænting, félagsleg upplausn og persónuleg ógæfa. Samt hefur þetta fólk ekkert gert annað en að reyna að koma yfir sig húsnæði.

Sú neyðarþjónusta, sem sett hefur verið á laggirnar, hefur sumum hjálpað en er hvergi nærri nóg, enda er um þriðjungur, sem þangað leitar, nú að koma í annað sinn.

Húsnæði tilheyrir frumþörfum og telst til mannréttinda, ekki bónbjarga. Það er skömm þessarar stjórnar að hafa leyft misréttinu að hreiðra um sig og skjóta rótum í þjóðfélaginu án þess að gera nokkra alvarlega tilraun til að koma í veg fyrir það. Það verður hennar versta skömm og hún á sér engar málsbætur, hún hefur umboð þjóðar sem er sú sjötta ríkasta í heimi.

„Systir góð, sérðu það sem ég sé?" spurði Jónas Hallgrímsson og benti frænku sinni á bleika grastó í fjallinu. Þangað fóru þau svo í grasaferð og fylltu alla bagga sína en nóg var samt eftir. Það er enn nóg af grösum á Íslandi handa okkur öllum en við verðum að skipta þeim jafnara.

Ég þakka áheyrnina. Góða nótt.