18.04.1986
Efri deild: 79. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 4086 í B-deild Alþingistíðinda. (3748)

396. mál, framleiðsla og sala á búvörum

Landbrh. (Jón Helgason):

Hæstv. forseti. Örfá orð vegna nokkurra atriða í ræðu hv. 1. þm. Reykv. sem ræddi um vitlaust frv. Þetta frv. var samið í mjög nánu samstarfi milli fjmrn. og landbrn. og þannig er það til komið.

Hv. þm. gat ekki skilið annað en hér væri um íþyngingu fyrir íslenska neytendur að ræða, enda þótt ég hafi lýst því yfir að þessu gjaldi, sem þarna er að forminu til látið renna í ríkissjóð, verður varið til að greiða niður neysluvörur sem framleiddar eru hér innanlands og lækkar þá þeirra verð á móti. Kartöflusala er ekki bundin við svæði, eins og hv. þm. hélt fram. Hins vegar er augljóst mál að ef þarf að flytja þær annaðhvort héðan frá Suðurlandi og norður eða af Norðurlandi og suður hækkar auðvitað mjög verð á þeim. Að því leyti veldur það mismun á verði.

Hv. 1. þm. Reykv. furðaði sig á því af hverju væri verið að fjalla um landbúnaðarvörur á einhvern annan hátt en aðrar vörur, en eins og flestir munu væntanlega vita gilda allt aðrar reglur um viðskipti með landbúnaðarvörur milli landa en með iðnaðarvörur. Það þýðir ekki fyrir okkur að ætla að flytja út landbúnaðarvörur til Efnahagsbandalagslandanna t.d. Þar eru tollar og algert innflutningsbann sem við verðum að komast hjá með sérstökum samningum ef við ætlum að koma okkar vörum þangað inn. Það ætti að vera skiljanlegt að þarna er um gerólíka hluti að ræða.