18.04.1986
Efri deild: 79. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 4110 í B-deild Alþingistíðinda. (3780)

413. mál, þjóðarátak til byggingar þjóðarbókhlöðu

Helgi Seljan:

Herra forseti. Með fjárlögum yfirstandandi árs sýnir ríkisstj. sitt rétta andlit, sitt raunverulega álit og rausn í framlögum til fjölmargra góðra framkvæmda, þar á meðal þjóðarbókhlöðunnar. Yfir eitt horn þessarar ömurlegu ásýndar er nú með vafasömum vinnubrögðum reynt að breiða skrautblæju. Yfir heildarmyndinni hvílir enn neyð niðurskurðarins. Með næstu fjárlagagerð gefst hæstv. ríkisstj. kostur á að sýna sinn rétta hug til þessarar framkvæmdar, sem og annarra ekki síður brýnni. Samþykkt þessa frv. breytir engu þangað til. Horfandi á niðurskorin nauðsynjaverk í öllum áttum get ég ekki stutt þessa sérkennilegu og ótímabæru aðgerð. Með tilliti til þessa greiddi ég atkvæði með því að vísa frv. til ríkisstj. Því greiði ég ekki atkvæði.