18.04.1986
Efri deild: 80. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 4110 í B-deild Alþingistíðinda. (3784)

413. mál, þjóðarátak til byggingar þjóðarbókhlöðu

Frsm. minni hl. (Sigríður Dúna Kristmundsdóttir):

Herra forseti. Aðeins fáein orð. Þessi brtt. þarf ekki mikilla útskýringa við. Hún tekur aðeins til þess að breyta fyrirsögn frv. á þann veg að hún segi réttilega til um efni þess.

Það er alveg ljóst að þetta frv. fjallar ekkert um þjóðarátak um byggingu þjóðarbókhlöðu heldur átak þeirra sem eiga eignir af ákveðinni stærð, Þess vegna er hér lagt til að fyrirsögn frv. verði: Frv. til laga um eignamannaátak til byggingar þjóðarbókhlöðu.

Ég ítreka aðeins þá skoðun mína, sem fram kom við 2. umr. málsins, að ég tel að þetta hús þjóðarinnar eigi að byggja með fjármunum þjóðarinnar allrar, að til þess eigi að veita fé beint úr ríkissjóði og annað sé ekki sæmandi þar sem um þjóðargjöf er að ræða.