17.10.1985
Sameinað þing: 4. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 62 í B-deild Alþingistíðinda. (38)

Stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana

Sigríður Dúna Kristmundsdóttir:

Herra forseti. Góðir áheyrendur. Nú hefur forsrh. enn á ný flutt þingi og þjóð stefnuræðu sína. Og þótt nýmæli hafi ekki verið á hverju strái í þeirri ræðu, né þeirri viðbótarstefnuræðu sem Þorsteinn Pálsson flutti hér áðan, þá er ástæða til að staldra við og íhuga gang mála. Því þótt stefnuræður breytist ekki ýkjamikið frá ári til árs, þá gerist samt ýmislegt á vegum ríkisstjórnarinnar. Og ýmislegt hefur svo sannarlega gerst síðan síðasta stefnuræða forsrh. var rædd hér á hæstv. Alþingi fyrir hartnær ári síðan.

Fyrst er að minnast þess að eftir margvíslegar yfirlýsingar um aðgerðir í efnahags- og atvinnumálum í síðustu stefnuræðu hélt ríkisstj. að sér höndunum fram eftir vetri og fram á vor. Þá var eins og hún vaknaði af þyrnirósarsvefni og hingað inn á hæstv. Alþingi var á vordögum skellt viðamiklum frv. sem afgreiðast áttu í einu snarhasti. Ekki höfðu þessi ógnvænlegu vinnubrögð eða ýmislegt í innihaldi málanna verið boðað í stefnuræðunni góðu haustið áður. En það virtist ekki vefjast fyrir ríkisstj., enda gleymdist stefnuræðan fljótlega aftur. Og sennilega var það eins gott því margt af því sem síðan hefur verið að gerast á vegum ríkisstj. var alveg örugglega ekki í stefnuræðunni heldur. Ekki voru aðferðir fyrrverandi fjmrh. við sölu á hlutabréfum ríkisins í Flugleiðum þar. Ekki kjötmálið margumrædda, eða sú nýbreytni að ráðherra fari þess á leit við aðila úti í bæ að vera kærður fyrir dómstólum landsins. Áframhaldandi misgengi kaupgjalds og verðlags, sem á venjulegu máli þýðir að allt hækkar meira en kaupið, var heldur ekki í stefnuræðunni, né var þar að finna nokkra vísbendingu um að nauðsynlegt gæti verið fyrir stefnu ríkisstj. að ráðherrar Sjálfstfl. endasentust á milli stóla í upphafi nýs þings.

Fullvíst má því telja að sú stefnuræða sem hér var áðan flutt gefur ekki nema takmarkað til kynna hvaða aðgerðum þessi ríkisstj. mun í raun standa fyrir á næstu vikum og mánuðum, allra síst þegar nýafstaðin stólaskipti hæstv. ráðherra bætast við til að auka á óvissuna. Sú lipurð og sá stöðugleiki sem æskilegur og nauðsynlegur er í stjórn landsins er einfaldlega ekki fyrir hendi hjá þessari ríkisstj.

Um eitt er þó stefnuræða forsrh. nokkuð áreiðanleg heimild. Hún sýnir okkur glögglega hvers konar gildi það eru sem nú eru ráðandi við stjórn landsins. Og þar sitja í öndvegi sem fyrr hin köldu og karlmannlegu gildi talnanna. Í stefnuræðu forsrh. er talað út frá tölum en ekki manneskjum.

Nú hvarflar ekki að mér að gera lítið úr nauðsyn þess að kunna skil á helstu þjóðhagsstærðum og sem flestum hlutfallstölum. En það er eins og forsrh. hafi gleymt því að efnahagsmál snúast ekki aðeins um sjálfar tölurnar og stærðirnar í þjóðarbúskapnum, heldur um það hvað þessar tölur og stærðir þýða fyrir líf og starf þess fólks sem landið byggir, fyrir ofur venjulegt, hversdagslegt líf í landinu, og ofur venjulegar mannlegar þarfir. Hvað þýðir það t.d. í mannlegum stærðum þegar forsrh. boðar í ræðu sinni að kaupmáttur kauptaxta verði á næstu mánuðum heldur lægri en á fjórða ársfjórðungi 1983? Það þýðir ósköp einfaldlega að fyrir þá sem vinna skv. kauptöxtum heldur vinnuþrælkunin áfram. Yfirvinna, eftirvinna og aukavinna til þess að hafa í sig og á og fyrir afborgunum af skuldunum. Í mannlegum stærðum getur þetta þýtt minnkandi sjálfsvirðingu vegna þess að vinnuframlagið er lítils metið og vegna þess að ekki tekst að standa í skilum þrátt fyrir ómælda vinnu. Þetta getur þýtt minnkandi samvistir hjóna eða sambýlisfólks, minnkandi samvistir foreldra og barna, og stundum neyðarástand hvað börnin varðar, því hvar eiga þau að vera á meðan verið er að vinna? Þetta getur þýtt öryggisleysi, kvíða, angist. Og við vitum öll hvert framhaldið getur orðið.

Mergurinn málsins er að þessar mannlegu stærðir verða að vera með þegar efnahagsdæmi þjóðarinnar er reiknað, annars er það ekki marktækt. En þessar stærðir eru vandfundnar í því dæmi sem forsrh. lagði fyrir þjóðina hér áðan í stefnuræðu sinni.

En það er fleira sem vantar í ræðuna. Nú í lok kvennaáratugar Sameinuðu þjóðanna er þar ekki svo mikið sem eitt orð að finna um málefni íslenskra kvenna, ekki heldur í fylgiskjölum með ræðunni þar sem gerð er grein fyrir málefnum einstakra ráðuneyta. Ef manneskjurnar sem landið byggja virðast stundum vera eitthvað ógreinilegar í augum forsrh., þá virðist sá helmingur þeirra, sem er konur, vera honum nokkurn veginn ósýnilegur. Nú vill svo til að á síðasta þingi voru bæði samþykkt ný jafnréttislög og fullgiltur var alþjóðasamningur um afnám allrar mismununar gagnvart konum. Til þess að hér megi ríkja raunverulegt jafnrétti og öll mismunun gagnvart konum verða úr sögunni, eins og þessar samþykktir kveða á um, þarf fleira að koma til en fögur orð á skjalapappír sem síðan rykfalla uppi í hillu. Til þurfa að koma raunverulegar markvissar og víðtækar aðgerðir. En þess sér hvergi stað í þeirri ríkisstjórnarstefnu sem hér hefur verið kynnt.

Og hvernig er ástandið í efnahagsmálum kvenna? Hvernig er ástandið á því sviði þjóðarbúskaparins? Ef við lítum fyrst til heimavinnandi kvenna og á heimilisstörfin almennt, því heimilisstörfin hverfa ekki þótt konur fari út að vinna, þá eru þau einfaldlega hvergi til í þjóðhagsreikningum. Þau koma hvergi fram sem framleiðsla eða sem verðmætasköpun. Sú vinna sem unnin er launalaust inni á heimilum landsins virðist vera reikningsmeisturunum ósýnileg. Hún er ekki til sem verðmæti í reikningshaldi þjóðarinnar. Og það er ekki nóg með að þetta skekki alla raunverulega þjóðhagsreikninga, þ.e. ef það er ætlunin að þjóðhagsreikningar taki til allrar verðmætasköpunar í þjóðfélaginu, heldur fylgir þessu að heimavinnandi konur bera einnig skertan hlut frá borði hvað félagsleg réttindi varðar. Hér er því hvort tveggja á ferðinni í senn, annars vegar vanreiknuð þjóðarverðmæti og hins vegar hrópandi óréttlæti gagnvart þeim sem heimavinnandi eru. Þetta verður að leiðrétta. En ekki er orð um það í stefnu þessarar hæstv. ríkisstj.

Snúum okkur þá að vinnumarkaðnum, útivinnumarkaðnum, ef svo má segja. Hann er þó sýnilegur með venjulegum augum og er tekinn með í þjóðhagsáætlun. Hvað blasir þar við í efnahagsmálum kvenna? Jú, þar sjáum við konurnar í miklum meiri hluta í öllum lægst launuðu störfunum. Við sjáum kynbundið launamisrétti hvert sem við lítum. Á árinu 1983 voru meðallaun karla nærri 52% hærri en meðallaun kvenna. Og nú berast þær fréttir frá kjararannsóknarnefnd að munurinn á launum karla og kvenna í sömu starfsgreinum haldi áfram að vera ótrúlega mikill. Einnig að launaskriðið svonefnda hafi að mestu sniðgengið konurnar. Það ætti því enginn að vera í vafa um það lengur að hverjum hefur verið harðast gengið í kjaraskerðingum undanfarinna ára.

En hvað ætlar þá þessi hæstv. ríkisstj., sem í fyrra samþykkti ný jafnréttislög og fullgilti alþjóðasamning um afnám allrar mismununar gagnvart konum, - svona rétt til að klóra í bakkann - hvað ætlar hún að gera við þessu himinhrópandi óréttlæti? Ekki orð, ekki eitt einasta orð um það í ræðu forsrh., né í þeim fylgiskjölum sem með ræðunni fylgja.

Herra forseti. Góðir áheyrendur. Það misrétti og það vanmat á ákveðnum þjóðarverðmætum sem ég hef hér gert að umtalsefni er ekki nýtt af nálinni. Það er ekki tilkomið í tíð þessarar ríkisstj. einnar, en það hefur eflst og margfaldast í skjóli hennar. Sú stefnuræða sem við heyrðum hér áðan gerir ekkert annað en að staðfesta að á meðan þessi ríkisstj. situr að völdum mun eigi linna í bráð. - Ég þakka áheyrnina.