18.04.1986
Neðri deild: 86. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 4138 í B-deild Alþingistíðinda. (3823)

285. mál, lögverndun á starfsheiti kennara og skólastjóra

Hjörleifur Guttormsson:

Herra forseti. Ég stend að nál. menntmn., sem mælir með samþykkt þessa frv., og það án fyrirvara. Ég hef talað fyrir þessu máli efnislega, sem hér er til umræðu, m.a. sem flm. að frv. á síðasta þingi um sama efni, og ég vænti þess að Alþingi beri gæfu til að afgreiða þetta frv. og lögfesta það fyrir þinglok. Ég tel eðlilegt að menn skiptist á skoðunum um svo mikilsvert mál eins og hér er gert og það er ljóst að skoðanir eru skiptar og menn taka afstöðu til þessa máls, einnig þeir sem ætla að styðja það, með fyrirvörum sumir hverjir og við það er auðvitað ekkert að athuga. Aðalatriðið er hver verður efnisleg niðurstaða og hvernig verður haldið á málinu af framkvæmdavaldinu eftir að frv. hefur verið lögfest.

Ég tel að sumt af því sem hefur verið sagt í umræðunni til þessa stafi af misskilningi á efnisatriðum frv. Það sem fram kom í máli hv. 1. þm. Norðurl. v. var að hluta til, að ég hygg, af slíkum misskilningi sprottið því að það er ekki stefnan með þessu frv., eins og ég hef skilið efni þess, að ryðja burt á einu bretti fjölda manns sem starfar í skólum landsins án þess að hafa til þess fyllstu réttindi skv. ákvæðum frv. Bæði er það að í frv. eru undanþáguákvæði í ákvæði til bráðabirgða, aðlögunarákvæði svo sem eðlilegt er í máli sem þessu og sem veita svigrúm til að vinna að farsælli framkvæmd þessara ákvæða. En það reynir líka á framkvæmdavaldið, yfirstjórn menntamála og fjármála í landinu, hvernig til tekst í þessum efnum því að það er ekki sama hvernig greitt er fyrir því að sá fjöldi fólks sem nú starfar við kennslu í grunnskólum og framhaldsskólum geti aflað sér tilskilinna réttinda. Það skiptir miklu máli að fyrir því sé greitt með öllum tiltækum ráðum af hálfu framkvæmdavaldsins. Ég held að það sé rangt að ræða um þetta mál þannig að það snúi öndvert við því fólki sem starfar í skólum án fyllstu réttinda. Með því að lögfesta þau ákvæði hin nýju sem eru í þessu frv. er hugmyndin, a.m.k. í mínum huga, sú að lyfta kennarastarfinu, auka veg þess og virðingu og gera það þar með eftirsótt, bæði fyrir nýja kennara og starfandi kennara, að taka á sig þá ábyrgð sem kennarastarfi fylgir og afla sér til þess tilskilinna réttinda að lögum.

Það er verið að ræða um þessi mál hér og ætla ég, herra forseti, ekki að fara þar vítt yfir svið, en það er verið að ræða um þessi mál hér eins og allt sé í stakasta lagi í skólum landsins, eins og hér sé verið að stíga einhver óheillaspor, eins og komist var að orði af þeim sem talaði áðan, með lögfestingu þessa frv. En hvernig er ástandið í skólunum, hvernig hefur það verið undanfarin ár? Það er ekki bara áhyggjuefni kennarastéttarinnar í landinu. Það er áhyggjuefni landsmanna allra. En það er mat kennarastéttarinnar, a.m.k. að yfirgnæfandi meiri hluta, að eitt af þeim ráðum til þess að bæta þar úr sé að kveða á með þeim hætti sem hér hefur orðið samkomulag um milli fulltrúa menntmrh. og samtaka kennara, vissulega engan veginn gengið að ýtrustu óskum kennarasamtaka um þessi efni heldur málamiðlun sem ég tel augljóslega vel ásættanlega og þannig frá gengið að engin óeðlileg áhætta sé tekin í þessu stóra máli.

Það er kyndugt, þegar menn eru að ræða um alvörumál af þessu tagi og leita leiða til að bæta það hörmulega ástand sem ríkir víða um land í sambandi við það hvernig skólar eru mannaðir, hvernig ástandið er í þeim efnum, að menn skuli vera hér að hafa hlutina nánast í flimtingum út frá því hvort þessi eða hinn alþm., sem gripið hefur í kennslustörf á liðinni tíð, hafi til þess réttindi að samþykktu þessu frv. Ætli þeim sé ofætlan að setjast á skólabekkinn og afla sér þeirra réttinda sem á kann að vanta, sem vildu leggja það fyrir sig, eftir að þeir hverfa af vettvangi hér á Alþingi?

Hitt er svo annað mál og ég tel það alveg umræðuvert hvernig staðið er að verndun ákveðinna starfa og starfsréttinda í þjóðfélaginu í heild sinni. Ég hef ekkert á móti því að þau efni séu athuguð á vegum framkvæmdavaldsins eins og hér er verið að mæla fyrir, en það er ekki það sem hér er til umræðu. Umræðuefnið er að skjóta einhverjum stoðum undir starfið í skólum landsins og bæta úr því mikla ófremdarástandi sem þar hefur ríkt. Það er ekki bundið við kennara eina sem rætt er um að ýta undir menntun og væntanlega almennt séð hæfni til að gegna störfum. Þar er rætt um svipaðar úrlausnir og hjá öðrum stéttum sem bera allt of skarðan hlut fyrir sín þýðingarmiklu störf. Ég minni bara á fiskverkunarfólkið í landinu, fólkið sem starfar að fiskvinnslu í landinu. Það hefur verið samið um það ekki alls fyrir löngu í kjarasamningum að gera því fólki kleift að auka réttindi sín með skipulögðu námskeiðshaldi þar sem framkvæmdavaldið á að koma við sögu. Ég tel það mjög vel. Og þetta er gert bæði til að gera fólkið hæfara, en það er einnig gert til þess að lyfta störfum þess og auka sjálfsvirðingu þess og bæta laun þess. Það er beinlínis augljóst markmið þess samkomulags sem gert hefur verið um þau efni og það er eðlisskylt því máli sem við erum að fjalla um hér. Ég teldi, miðað við þá þróun sem hefur verið varðandi verndun á réttindum til starfa, að það væri engin goðgá að kveða á um það í lögum að veita því fólki forgang og réttindi umfram það sem nú er sem starfar í undirstöðugreinum í þjóðfélaginu. Og kennslustörfin, störfin í skólum landsins eru raunar ein af undirstöðugreinunum í þessu landi.

Herra forseti. Ég vil síst verða til þess að tefja framgang þessa máls hér í deildinni og vænti þess að þrátt fyrir efasemdir í huga nokkurra þm., og flestir eru þeir úr flokki hæstv. menntmrh. sem hér hafa talað og lýst efasemdum, nái menn saman um þetta mál, nái að lögfesta þetta frv. fyrir þinglok og við fáum reynslu af þeirri skipan mála sem hér er lögð til með þeim aðlögunarákvæðum sem í þessu eru og möguleikum til að endurskoða málið reynslunni ríkari innan fárra ára.